Að festast inn í samkynhneigða skápnum

Undanfarin ár hefur hinsegin réttindabarátta á Vesturlöndum í auknum mæli beinst að jaðarhópum sem lengi vel stóðu í skugganum af réttindabaráttu samkynhneigðra. Á Íslandi stóðu málefni tvíkynhneigðra og seinna pankynhneigðra einstaklinga – þeirra sem laðast að fólki óháð kyni og gera ráð fyrir að kynin geti verið fleiri en tvö – lengi vel á hliðarlínunni. Árið 1993 klofnuðu Samtökin ‘78 til dæmis vegna togstreitu innan hreyfingarinnar um stöðu tvíkynhneigðra í réttindabaráttu hinsegin fólks.

Á haustdögum síðasta árs var boðið til opins undirbúningsfundar um stofnun félags fyrir tví- og pankynhneigða í Regnbogasal Samtakanna ‘78 að frumkvæði Sigurðar Júlíusar Guðmundsssonar, þáverandi varaformanns Samtakanna. Í fundarboðinu stóð meðal annars: „Tvíkynhneigð og síðar pansexual fólk hefur lengi verið jaðarhópur innan hinsegin samfélagsins og hafa sætt ýmiss konar fordómum sem hafa fengið að viðgangast óáreittir allt of lengi. Margar raddir hafa heyrst tala um að tvíkynhneigðir hafi verið skildir eftir í réttindabaráttunni og hafi einnig orðið undir þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun og fræðslu sem hafi leitt til þess að þekking fólks á hugtakinu er takmörkuð og lituð fáfræði“. Jón Kjartan Ágústsson settist niður með Sigurði til að ræða nánar um tilurð fundarins, sem og stöðu og réttindabaráttu tvíkynhneigðra og panfólks á Íslandi. Einnig var rætt við Sesselju Maríu Mortensen (Settu), fyrrverandi formann Q – félags hinsegin stúdenta, og Sólver Hafstein Sólversson en þau hafa bæði tekið virkan þátt í réttindabaráttu innan raða tvíkynhneigðra og panfólks.

Sigurður, viltu hefja samtalið á að útskýra hvers vegna þú taldir þörf á að stofna sérstakt félag fyrir tvíkynhneigða og pan einstaklinga?
Sigurður: Ég taldi vera kominn tíma á að gera eitthvað til að lyfta málefninu upp og vekja umræðu. Það hafa lengi verið ýmsar þreifingar í gangi innan þessa samfélags án þess að nokkuð hafi orðið úr. Mitt markmið var að reyna að fá tvíkynhneigða og panfólk saman til að hreinlega ræða málin, skoða aðgerðir og velta upp áríðandi spurningum sem við stöndum frammi fyrir, eins og hver sé framtíð þessa hóps.
Hluti af vandanum er sá að hópurinn er tvístraður og ólíkar hugmyndir eru uppi um hvað sé best að gera. Mín upplifun af fundinum síðasta haust var sú að ákveðinn hópur fólks vildi stunda þessa málefnavinnu alfarið utan Samtakanna ‘78 á meðan aðrir vildu stofna félag fyrir tví- og pankynhneigða undir verndarvæng Samtakanna. Þriðji hópurinn taldi síðan ákjósanlegast að kljúfa félagið algjörlega úr Samtökunum ‘78 og stofna ný samtök fyrir hinsegin fólk.

Setta og Sólver, eruð þið sammála lýsingunni sem kemur fram í fundarboðinu, til dæmis að tvíkynhneigðir og panfólk séu jaðarhópur innan hinsegin samfélagsins og ýmiskonar fordómar hafi fengið að viðgangast þar óáreittir?
Setta: Ég er algjörlega sammála þessari lýsingu og hef sjálf upplifað slíka fordóma. Það vill oft gleymast þegar talað er um hinsegin samfélagið að við erum ekki öll eins og mjög oft fellur umræðan í þá gryfju að tala um hópinn sem einungis samkynhneigða einstaklinga. Það tel ég vera ákveðna tegund af þöggun. Auk þess eru margir gagnkynhneigðir og samkynhneigðir haldnir margskonar fordómum gagnvart hópnum og viðhalda skrítnum hugmyndum um hvernig það sé að vera tvíkynhneigður eða pan.
Sólver: Það fyrsta sem ég hugsaði var „loksins“. Út af sögunni var maður dálítið nervus vegna þess að fundurinn átti að fara fram undir hatti Samtakanna en á sama tíma vonaði ég að þetta leiddi til stofnunar alvöru félags sem fengi í framhaldinu fulltrúa í trúnaðarráði Samtakanna og þar af leiðandi fasta rödd þar innanborðs.

Það er ennþá útbreitt viðhorf að tví- eða pankynhneigð sé tímabundið ástand og að tví- og pankynhneigðu fólki sé síður treystandi til stofna til stöðugs sambands en öðrum. Af hverju haldið þið að þessar hugmyndir lifi enn svo sterku lífi?
Setta: Það er alveg rétt að margir taka tímabil þar sem þeir kalla sig tvíkynhneigða á meðan þeir eru að átta sig á kynhneigð sinni. Það má ekki gleyma því að þetta getur verið erfitt tímabil og mikill tilfinningarússíbani. En hins vegar er ekki réttlætanlegt að samfélagið varpi þeirri upplifun yfir á allt tví- og pankynhneigt fólk.
Sigurður: Vandamálið er þessi tilhneiging að þurfa að draga fólk í dilka. Til dæmis er algengt að tvíkynhneigt fólk sem er komið í samband sé samviskusamlega flokkað í kynhneigðir út frá því af hvaða kyni maki þeirra er. Þetta er mál sem ég heyri mjög oft, að um leið og tvíkynhneigt fólk fari í samband með manneskju af gagnstæðu kyni, þá sé ekki lengur litið á það sem tvíkynhneigt.

Hvernig eru viðhorf gagnvart tvíkynhneigðum og panfólki innan hinsegin samfélagsins?
Setta: Hinsegin samfélagið er ótrúlega stór hópur, þannig að það fer algjörlega eftir því hverja þú umgengst og hverja þú ert að hitta. Ég man vel eftir fyrsta fundinum sem ég sat með þáverandi stjórn Samtakanna ‘78 fyrir nokkrum árum og þurfti að hlusta á fyrrverandi formann segja að tvíkynhneigðir væru ekki raunverulegur hluti af hópnum sem væri að berjast fyrir réttindum hinsegin fólks. „Hvað er maðurinn að tala um?“ hugsaði ég með mér og sökk niður í sætið.
Sigurður: Annar punktur í þessu er að „pansexúal“ er tiltölulega nýtt hugtak. Þegar ég kom fyrst úr skápnum kom ég út sem tvíkynhneigður en hætti með tímanum að skilgreina mig þannig því mér fannst það ekki passa. Ég upplifði mig mun sterkar sem samkynhneigðan. Það var ekki fyrr en ég fór að lesa mér til um pankynhneigð að hlutirnir fóru að passa aðeins betur. Myndin fór loks að skýrast þegar ég lærði um kynhneigðina „androsexúal“, sem lýsir sér þannig að ég laðast að karlkyns atferli og persónuleika fólks en ekki kyni. Oft velti ég fyrir mér hvort það séu ekki fleiri sem eru einnig á flakki á þessu litrófi. Fólk sem kannski hefur ekki getað skilgreint sig sem tvíkynhneigt og velur því eitthvað annað upp á einfaldleikann. Það er nefnilega ekki spennandi tilhugsun að vera tvíkynhneigður í samfélaginu eins og það er í dag.
Sólver: Í gegnum tíðina hef ég, líkt og margir, upplifað fordóma innan hinsegin samfélagsins. Viðbrögð sumra þegar þeir uppgötva að ég er tvíkynhneigður eru köld og í kjölfarið snúa þeir oft bakinu í mann. Sama fólk segir einnig gjarnan að það gæti aldrei hugsað sér að deita tvíkynhneigða.

Samtökin ‘78 létu gera könnun á högum hinsegin fólks á Íslandi í byrjun þessa árs. Þar kom meðal annars fram að tvíkynhneigðir upplifa oftar fordóma en samkynhneigðir og eiga erfiðara með að koma út skápnum. Hver voru ykkar viðbrögð við þessum niðurstöðum?
Sólver: Fyrstu viðbrögð mín voru að klípa mig í handlegginn og spyrja hvernig gæti staðið á þessu árið 2014 en eftir smá umhugsun kom þetta í raun ekkert á óvart. Maður þekkir fullt af dæmum þar sem fólk er fast í samkynhneigða skápnum.
Setta: Ég hef átt mörg samtöl við aðra tvíkynhneigða og paneinstaklinga sem hafa deilt því með mér að það einfaldlega nenni ekki að útskýra kynhneigð sína fyrir fólki, aftur og aftur.
Sigurður: Það er einfaldlega svo að samfélagið hafnar þessu og línan er að tvíkynhneigð sé ekki málið og eigi ekki að vera til. Um leið og þú segir að þú sért opin/n fyrir einhverju öðru en einhverju einu, þá er þér ekki treystandi. Fólk á að drífa sig út úr skápnum og velja sér eitthvert lið!
Setta: Þetta voru nákvæmlega viðbrögðin sem ég mætti þegar ég var 17 ára og kom úr skápnum sem tvíkynhneigð. Ég fann að ef ég sást ekki í sambandi með stelpu fór umhverfið að ýta mér hægt og sígandi aftur í skápinn. Síðan eftir að ég byrjaði í langtímasambandi með strák var líkt og kynhneigðin mín væri ekki lengur tekin alvarlega. Þess vegna hætti ég alveg að tala um þessi mál þar til nokkrum árum síðar þegar við slitum sambúð og í framhaldinu kom ég í raun aftur út úr skápnum, fyrst sem tvíkynhneigð og síðar sem pan. Upplifunin frá samfélaginu hefur hingað til hefur verið sú að kynhneigðin mín sé ekki „alvöru“ nema þegar ég er í sambandi með stelpu.
Sólver: Þetta kemur fram á fleiri sviðum. Í sjónvarpsþáttum sér maður tvíkynhneigða oft notaða sem illmenni eða ótraustvekjandi „femme fatale“.
Sigurður: Nákvæmlega, lauslátir einstaklingar sem eru kynferðislega leitandi. Wild card! Setta: Stjórnleysingjar sem geta ekki valið eitthvað eitt!

Sigurður, Setta og Sólver
Sigurður, Setta og Sólver

Hvað þarf að gera til að auka vitund samfélagsins um hópinn og lyfta umræðunni?
Setta: Fræðsla, hvetja fólk til að gúgla!
Sólver: Fólk getur nýtt persónuleg tengsl inn á borð fjölmiðla til að fræða þá og tryggja málefnalega umræðu.
Sigurður: Fræðsla er mjög mikilvæg og í gegnum tíðina hefur verið ótrúlega lítil fræðsla um tvíkynhneigð. Í raun tók barátta samkynhneigðra yfir allt og tvíkynhneigðum var ýtt til hliðar ásamt transfólki. Í dag erum við að sjá málefni transfólks fá örlítinn meðbyr en slíkt hið sama hefur ekki átt sér stað hjá tvíkynhneigðum og panfólki. Það sem tvíkynhneigða og panfólk hefur skort að mínu mati eru áberandi talsmenn. Ef við horfum aftur í tímann og skoðum baráttu samkynhneigðra þá var það breiður hópur sem stóð að henni. En það var líka alltaf einhver einn eða tveir sem voru tilbúnir að tala máli hópsins og afhjúpa sig fyrir alþjóð. Að sjálfsögðu er flókið að ætlast til þess að ein manneskja geti talað fyrir heilan hóp en það hefur gríðarleg áhrif upp á samfélagsumræðuna.
Setta: Ég er ósammála þessu. Oft er spurningin hverjum maður gefur rödd og á hvern er hlustað. Fólk heyrir oft heldur ekki um hvað er verið að tala. Það er fullt af einstaklingum í okkar röðum, pan, tvíkynhneigðir og allskonar þar á milli, sem eru að tala um málefnið. Ég tala til dæmis um hinsegin málefni og er ekkert að fela með hverjum ég er. Á einhverjum tímapunkti hljótum við að gera þá kröfu að samfélagið hlusti aðeins betur.
Sigurður: Það sem ég á við er að þetta talsfólk hefur ekki náð sömu athygli fjölmiðla og til dæmis Hörður Torfa eða Páll Óskar gerðu. Þar erum við einnig að tala um þjóðþekkta einstaklinga sem eiga töluvert auðveldara með að ná athygli fjölmiðla en við hin, sauðsvartur almúginn.
Sólver: Gott dæmi um þörf á aukinni fræðslu eru orð eins og „hjónaband samkynhneigðra“ sem mátti heyra fjölmiðla hjakka á hér um árið þegar þeir þýddu „same sex marriage“ úr erlendum miðlum. Þá fannst mér mikilvægt að banka í þá blaðamenn sem ég þekkti til að minna þá á að það eru til allskonar hjónabönd, ekki einungis gagnkynhneigð eða samkynhneigð. Þetta var lítið dæmi sem var erfitt að koma inn í samfélagsumræðuna.

Til hvaða aðgerða geta Samtökin ‘78 gripið og hvaða kröfur þarf að gera til forystunnar?
Setta: Mér finnst ástandið hafa breyst mikið undir forystu tveggja síðustu formanna, sem hafa verið dugleg að tala í fleirtölu og tala um hinsegin fólk frekar en einungis samkynhneigða. Slíkt skiptir máli. Mér finnst ég vera velkomnari en áður og tek því virkari þátt í starfinu. Þessu þarf að viðhalda og samhliða því að hvetja fólk til að temja sér „inclusive“ orðræðu.
Sigurður: Ég tek undir þetta. Ég myndi samt vilja sjá Samtökin taka tvíkynhneigða málaflokkinn enn sterkari tökum. Það væri til dæmis sterkur leikur hjá Samtökunum að bjóða tvíkynhneigða og panfólk á sérstaka fundi til að ræða hvaða málefni hvíla á hópnum, sérstaklega ef Samtökin ætla að leiða einhverja baráttu fyrir tvíkynhneigða og panfólk. Það vantar umræðuvettvang um hvað eigi að gera og hvert eigi að stefna.
Setta: Ef til vill væri hægt að nota svipað fléttuform og stjórnmálaflokkar gera varðandi kynjahlutföll frambjóðenda sinna. Krefjast þess að fjölbreyttur hópur sitji í stjórn Samtakanna hverju sinni.
Sólver: Núverandi formaður, ásamt síðustu tveimur, hefur staðið sig mjög vel í að tryggja rými fyrir alla hópa innan Samtakanna. Hér áður fyrr, þegar ég starfaði fyrir FSS (sem síðar varð Q – félag hinsegin stúdenta) fann maður stundum fyrir ónotatilfinningu innan veggja Samtakanna vegna ýmissa atvika þar sem gefið var í skyn að tvíkynhneigðir og trans væru ekki æskilegur hluti af baráttunni. Það hefur sem betur fer breyst.

Að lokum, hvað brennur á ykkur þessa stundina?
Setta: Mín tilfinning er sú að fólk sé of fljótt að draga ályktanir og þessar ályktanir bjóða upp á takmarkaða valmöguleika fyrir okkur. Ég passa ekki inn í þessar ályktanir og mér finnst þær leiðinlegar og óþægilegar. Þessi tilfinning nær yfir alla sem eru að velta vöngum yfir kynhneigð minni; gagnkynhneigt fólk sem telur mig vera gagnkynhneigða og samkynhneigt fólk sem telur mig samkynhneigða.
Sigurður: Ég er á sömu línu og Setta. Við erum stanslaust krafin um að festa okkur í einhverjum boxum sem samfélagið vill negla okkur í og þar af leiðandi þurfum við að takmarka okkur. Tilhneiging fólks til að fella alla í eitthvert norm, sem það hefur búið til fyrir sjálft sig, gengur ekki upp fyrir alla. Við erum of mörg að þjást út af einhverjum væntingum og ímynduðu samfélagslegu kjaftæði.
Setta: Við erum ekki og verðum aldrei öll eins. Það er ekki hægt. Það verður að gera ráð fyrir fleiri valmöguleikum.
Sólver: Það er grátlegt að vita til þess að alls staðar er fólk fast í skápum og þorir ekki að koma út eins og það er. Umræðan verður að halda áfram að vera „inclusive“. Vonandi losar það tvíkynhneigða, panfólk og alla aðra, sama hvar þeir eru staðsettir á litrófinu, við þessa bagga sem við burðumst með á bakinu.