Götulokanir

Götulokanir í miðborginni laugardaginn 12. ágúst 2017

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli hverju sinni. Hinsegin dagar skipuleggja gleðigönguna og stýra hvaða atriði fá aðgang að henni en atriðin sjálf eru sprottin úr grasrótinni. Einstaklingar og hópar geta skipulagt atriði og sótt um þátttöku í göngunni en Hinsegin dagar setja sem skilyrði að öll atriði miðli skýrum skilaboðum sem varða veruleika hinsegin fólks á einn eða annan hátt.

Í ár verða nokkrar breytingar gerðar á gönguleið gleðigöngunnar. Uppstilling göngunnar verður frá kl.  11 á Hverfisgötu, milli Ingólfsstrætis og Klapparstígs. Gangan leggur stundvíslega af stað frá gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfstrætis kl. 14 og bíður ekki eftir neinum. Gengið verður niður Hverfisgötuna, eftir Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu þar sem glæsilegir útitónleikar taka við í Hljómskálagarðinum.

Hér fyrir neðan má sjá þær götulokanir sem verða í gildi í miðborginni í tengslum við Gleðigöngu Hinsegin daga og útihátíð í Hljómskálagarðinum. Forsvarsfólk Hinsegin daga biður hagsmunaaðila í miðborginni velvirðingar á þeim truflunum sem hátíðin kann að valda. Íbúar Reykjavíkur og gestir eru beðnir að sýna samstarfsvilja og umburðarlyndi og hvattir til að nýta sér eftirfarandi leiðir til að komast til og frá miðborginni:

  • Strætó gengur allan daginn. Athugið breytta áætlun á meðan götulokunum stendur – sjá straeto.is
  • Í miðborginni eru bílastæðahús sem oft hafa verið illa nýtt á meðan hátíðahöldunum stendur (sjá kort hér fyrir neðan) og engin ástæða er til að leggja bílum ólöglega.

Göngu- og öryggisstjórn Hinsegin daga sendir þátttakendum og gestum hýrar kveðjur.

– Gleðilega hátíð! –