Íslensk hinsegin klassík


Tónleikar

Hinsegin tónskáld í tónlistarsögunni hafa vakið athygli fyrir lagræna nálgun í tónsköpun sinni og á seinustu öld sneyddu mörg þeirra fram hjá tilraunastarfseminni sem þá ríkti. Sum af þekktustu tónskáldum seinustu aldar voru samkynhneigð og má þar nefna Frakkann Poulenc og Bandaríkjamennina Barber, Copland og Bernstein. Poulenc er þekktur fyrir hnyttnar og hugmyndaríkar laglínur og bandarísku hommarnir voru í lykilhlutverki þegar kom að því að skapa hetjutónlistina sem við þekkjum flest úr Hollywood kvikmyndum. Á þessum tónleikum verður kastljósinu beint að tónlist íslenskra hinsegin tónskálda í fyrsta sinn og þeirri spurningu velt upp hvort að hinsegin tónskáld eigi sér einhverja sérstaka rödd.

Flutt verða verk eftir Egil Guðmundsson, Gísla Magna, Hafstein Þórólfsson, Þóru Gerði Guðrúnardóttur, Bergþór Pálsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Mörg tónskáldanna hafa áður komið að tónlistarflutningi tengdum hinsegin viðburðum og má þar nefna frumflutninginn á Þjóðsögu Hafsteins Þórólfssonar á Hinsegin dögum árið 2013. Egill og Gísli sömdu tónlist fyrir Passíusálmalestur Grafarvogskirkju á vegum Samtakanna 78 árið 2011 og Hreiðar Ingi stígur á svið hér í fjórða sinn á Hinsegin dögum. Sum tónskáldanna taka einnig sjálf þátt í flutningi verka kvöldsins sem sungin verða á íslensku, dönsku og ensku.

Egill Guðmundsson

Egill Guðmundsson (*1981) stundaði píanó-,  flautu- og tónsmíðanám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar undir leiðsögn Jórunnar Magnúsdóttur, Björns Davíðs Kristjánssonar, Arnar Magnúsonar og John Speight. Eftir líffræðinám í Háskóla Íslands sneri Egill sér aftur að tónsmíðum við Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Kjartans Ólafssonar.

Tónlist Egils hefur meðal annars hljómað á Kirkjulistahátíð og Myrkum músikdögum auk þess sem hann samdi tónlistina við leikritið Blóðbrúðkaup sem sýnt var í Borgarleikhúsinu veturinn 2007 -2008.

Egill samdi tónlist fyrir Passíusálmalestur Grafarvogskirkju á Föstudaginn langa árið 2011 en það ár sáu Samtökin 78 um lestur og tónlistaratriði og hljómar verkið meðal annara hér á ný.

Gísli Magna

Eftir stúdentspróf hóf Gísli (*1971) söngnám í Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Síðar stundaði hann nám í tónmenntakennslu í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann nam um tíma söng við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Árið 2007 hóf hann nám við The Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan með kennaradiplómu þremur árum síðar.

Gísli var einn af stofnfélögum kammerkórsins Schola Cantorum í Reykjavík og hefur sungið með kór Langholtskirkju, Kammerkórnum Carminu, sönghópnum Grímu, Reykjavík 5 og Bjargræðiskvartettinum, tekið þátt í uppfærslum í Íslensku óperunni, Borgarleikhúsinu, Broadway/Hótel Íslandi svo eitthvað sé nefnt auk þess að hafa sungið sem bakraddasöngvari inn á fjöldann af geisladiskum á Íslandi og erlendis, verið í Eurovision nokkrum sinnum og í haug af tónleikum í Eldborgarsal Hörpu.

Drengurinn hefur kennt söng síðustu árin og raddþjálfað kóra og sönghópa en hann er með kennaradiplómu frá Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Hann hefur einnig verið viðamikill útsetjari og var aðalútsetjari fyrir skemmtiþáttinn AllStars á dönsku sjóvarpsstöðinni TV2. Einnig var hann einn af aðalútsetjurum fyrir Frostrósir Klassík hér á landi. Í Kaupmannahöfn stjórnaði hann um tíma íslenska kórnum Stöku, Kvennakór Kaupmannahafnar og danska kórnum Carmen Curlers. Hann stjórnaði einnig um tíma Íslendingakórnum í London. Á haustmánuðum 2012 tók hann við sem stjórnandi kvennakórsins Léttsveit Reykjavíkur. Gísli hefur starfað sem söngkennari við FÍH síðan árið 2014.

Gísli skríður af og til úr skápnum með tónsmíðar sínar og hlakkar til að deila þeim með ykkur á tónleikunum.

Meira á www.lettsveitin.is

Þóra Gerður Guðrúnardóttir

Þóra Gerður Guðrúnardóttir fæddist í Reykjavík árið 1973, og gekk í tónlistarskóla nánast óslitið frá 6 ára aldri þar til hún útskrifaðist frá Tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands vorið 2004. Hún lagði einnig stund á Alexandertækni í London 1996-1998, og lauk embættisprófi í læknisfræði frá Kaupmannarhafnaháskóla árið 2011. Þóra kom úr felum þegar hún var 15 ára, og fagnar 29 árum út úr skápnum í ár. Hún starfar sem læknir í Kaupmannahöfn, er höfundur að stórri alþjóðarannsókn á börnum með heilakrabbamein, og stundar stundar kappróður og stangveiðar í frístundum.

Hafsteinn Þórólfsson

Hafsteinn Þórólfsson (*1977) lauk mastersnámi í söng við Guildhall School of Musc & Drama í Lundúnum árið 2005 og mastersnámi í tónsmíðum frá Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum árið 2015. Tónlist Hafsteins hefur áður verið flutt á Hinsegin dögum en verk hans og Hannesar Páls Pálssonar, Þjóðsaga, var frumflutt á Hinsegin dögum árið 2013. Eurovisionlag hans og Hannesar, Þú tryllir mig, var einnig flutt á Hinsegin dögum árið 2007. Hafsteinn hefur margoft komið fram á Hinsegin dögum sem flytjandi. Hann frumflutti lagið Ég er eins og ég er árið 2003 og hefur sungið það við nánast hverja hátíð síðan. Árið 2011 var Hafsteinn heiðursflytjandi opnunarhátíðarinnar, frumflutti verk Egils Guðmundssonar Sálmabrot í Regnbogamessu og flutti lag Hreiðars Inga Söknuður á klassísku tónleikum hátíðarinnar.

Verk Hafsteins The Hunters verður frumflutt á hátíðinni í ár. Verkið er samið fyrir 5 raddir og slagverk og er byggt á þremur sögum hins rússneska absúrdista ljóðskálds og rithöfundar Daniil Kharms (1905-1942).

Daniil Kharms var stofnandi avante-garde hreyfingarinnar OBERIU árið 1928. Oft kallaði “hinsta vígið í  rússneskri Avante-garde list”, OBERIU var félag, rithöfunda, tónlistarmanna og listamanna sem héldu margvíslegar uppákomur undir nafni félagsins. Félagið var ekki langlíft en síðustu viðburðir þess voru haldnir árið 1931. Þá hafði félagið og listamenn þess setið undir harðri gagnrýni fyrir anti sóvíeskan áróður en það sama ár var Kharms sendur í útlegð, í u.þ.b. eitt ár, fyrir að neita að skrifa um sóvíesk gildi í barnabókum sínum. Hann hélt áfram að skrifa fyrir börn eftir að útlegðinni lauk en var aftur handtekinn árið 1941 fyrir uppgjafartón í skrifum sínum tengt síðari heimsstyrjöldinni.  Til að komast hjá aftöku þóttist Kharms vera geðveikur og var því lokaður inni í álmu geðveikra í Kresty fangelsinu þar sem að hann svalt í hel í umsátri nasista um Leningrad.  Verk hans voru varðveitt af systur hans og vin sem drógu handritin úr íbúð hans í ferðatösku í umsátrinu. Þau földu svo verkin fyrir yfirvöldum til fyrri hluta sjöunda áratugarins þegar að það var öruggt að birta þau. Skrif hans og félaga í OBERIU eru áhrifavaldur listamanna enn þann daginn í dag og má þar nefna meðlimi rússnesku hljómsveitarinnar Pussy Riot.

Bergþór Pálsson

Bergþór Pálsson (*1957) stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Indiana University í Bloomington þar sem hann lauk B.M. og meistaranámi. Árið 1996 lauk hann leiklistarnámi frá Drama Studio London. Bergþór hefur farið með yfir 50 óperuhlutverk, m.a. titilhlutverkin í Évgení Ónegín og Tsjækofskí og Don Giovanni eftir Mozart og sungið einsöng í kórverkum, t.d. í Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríu Bachs, Sköpuninni og Árstíðunum eftir Haydn, Carmina Burana eftir Orff, Sálumessu Mozarts og Elía eftir Mendelssohn. Bergþór hefur tekið þátt í frumflutningi margra íslenskra verka, m.a. Tímanum og vatninu eftir Atla Heimi Sveinsson.

Bergþór hefur stundum sett saman lög fyrir ýmis tækifæri þegar hann hefur verið beðinn um að syngja texta sem engin lög fundust við, en hent þeim jafnharðan. Smálögin sem heyrast hér hafa þó verið gefin út á geisladiski og hafa því ekki lent í glatkistunni.

Hreiðar Ingi Þorsteinsson

 Hreiðar Ingi (*1978) byrjaði fjórtán ára að skrifa sín fyrstu verk. Hann hefur lokið diplómanámi í einsöng og kórstjórn, ásamt mastersnámi í tónsmíðum, lauk tónsmíðaprófi með láði frá Eistnesku tónlistarakademíunni árið 2011. Verk Hreiðars Inga í dag eru rúmlega 50 talsins, mest megnis skrifuð fyrir mannsröddina. Ljóð eru hans helsti innblástur. Hann hefur þvívegis komið fram sem söngvari á Hinsegin dögum, nú síðast í verki Hafsteins Þórólfssonar Þjóðsaga, árið 2013.

Tónlist Hreiðars Inga má nálgast á vefslóðinni www.hreidaringi.com