Sagan okkar

Við bjóðum ykkur öll velkomin á átjándu hátíðahöld Hinsegin daga í Reykjavík dagana 2.–7. ágúst 2016 og hlökkum til að deila með ykkur þeirri gleði og baráttuanda sem einkennir hinsegin samfélagið á Íslandi. Á dagskránni eru kunnuglegir viðburðir sem hafa öðlast fastan sess, svo og nýir viðburðir sem vonandi vekja áhuga gesta hátíðarinnar.

Þema hátíðarinnar í ár er sagan okkar. Við mótun dagskrár hátíðarinnar var lögð áhersla á að varpa ljósi á þessa mikið til óskráðu en jafnframt mikilvægu sögu og meðal viðburða má nefna sögugöngu, sögukvöld og hádegisfund um hinsegin réttindabaráttu á Íslandi fyrr og nú. Þemað endurspeglast einnig í efni tímaritsins og forsíðu þess þar sem nútíð og fortíð mætast. Myndin var tekin á Árbæjarsafni og kápan var hönnuð af listrænum stjórnanda tímaritsins, Guðmundi Davíð Terrazas. Meðal efnis í blaðinu eru viðtöl við Önnu Kristjánsdóttur, fyrstu opinberu trans manneskjuna á Íslandi, og Elísabetu Þorgeirsdóttur, eina af stofnendum félagsins Íslensk-lesbíska og Trúarhóps Samtakanna ‘78. Fyrrverandi og núverandi forseti, formaður og framkvæmdastjóri Hinsegin daga í Reykjavík eru einnig tekin tali og ræða meðal annars um tilurð hátíðarinnar og þróun hennar. Síðast en ekki síst er í blaðinu grein eftir Þorvald Kristinsson um Hótel Borg, einn helsta samkomustað hinsegin fólks á Íslandi lengi vel.

Sagan okkar er vissulega mjög víðfeðm og ómögulegt að gera henni fullnægjandi skil hér. Það er þó von ritstjórnar að lesendur blaðsins fái örlítinn nasaþef af þeirri sögu sem liggur til grundvallar veruleika okkar í dag og að það kveiki hjá þeim forvitni og hvetji þá til að leita uppi ýmiss konar efni sem varðar sögu hinsegin fólks á Íslandi og úti í heimi.

Gleðilega Hinsegin daga 2016!