Öryggisreglur gleðigöngunnar

Sjá einnig: „Upplýsingar til þátttakenda“

Öryggisreglur og skilmálar

1. Þátttakendum ber að fara eftir reglum Hinsegin daga í Reykjavík. Skráðir ábyrgðaraðilar bera ábyrgð á að reglum sé framfylgt og að allir þátttakendur séu upplýstir um þær. Göngu- og öryggisstjórar áskilja sér rétt til að vísa fólki og atriðum úr göngunni ef ekki er farið eftir öryggisatriðum. 

Auglýsingar, kynningarefni og gjafir

2. Það er algerlega óheimilt að auglýsa fyrirtæki eða þjónustu í göngunni án samráðs við stjórn Hinsegin daga. Athugið að auglýsingar á bílum og fötum teljast líka auglýsingar. Bílar merktir auglýsingum mega taka þátt ef límt er fyrir auglýsingarnar en ábyrgðarmaður atriðis sér til þess að það sé gert.

3. Bannað er að dreifa bæklingum, nafnspjöldum, mat, drykk eða öðru slíku í göngunni nema leyfi hafi fengist. Göngu- og öryggisstjórar áskilja sér rétt til að vísa viðkomandi atriði úr göngunni ef tilskilin leyfi eru ekki til staðar.

4. Þátttakendur mega ekki nota annað en umhverfisvænt konfetti (úr kreppappír, ekki glanspappír). Stranglega bannað að kasta hlutum í átt að áhorfendum.

Almennar öryggisreglur

5. Í neyðartilfellum skal strax hafa samband við 112 og síðan öryggis- eða göngustjóra. Símanúmer Evu Jóu öryggisstjóra er 662-4664.

6. Rétt er að öll séu vakandi fyrir vandamálum sem hugsanlega geta komið upp, svo sem aðsúg að gleðigöngunni eða annað sem ógnað getur öryggi þátttakenda eða áhorfenda. Verði fólk vart við slíkt skal haft samband við öryggis- eða göngustjóra nema málið þarfnist aðgerða tafarlaust, þá skal hafa beint samband við Neyðarlínuna 112 og síðan við öryggis- eða göngustjóra.

7. Ölvun og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð. 

Öryggi við akstur og notkun ökutækja

8. Inni á lokaða göngusvæðinu er þátttakendum í Gleðigöngunni leyfilegt að aka vélhjóli án hjálms á meðan götulokanir gilda. Þátttakendur á vélhjólum verða að sjálfsögðu að nota hjálma í almennri umferð utan göngusvæðis. 

9. Sjálfboðaliðar þurfa að ganga meðfram atriðum í göngunni til að gæta þess að fjarlægð milli bíls og áhorfenda haldist a.m.k. einn metri. Miðað er við að hverjum bíl fylgi að minnsta kosti 4 sjálfboðaliðar. Sjálfboðaliðar fylgja atriðinu allagönguna og eru ekki hluti af atriðinu sjálfu, en mega vera klædd eins og þau kjósa helst.

10. Allir þátttakendur sem eru uppi á bílum eða pöllum þurfa að geta haldið sér í traust hald, a.m.k. 1 metra háa girðingu úr traustu efni utan um pallinn ef fólk stendur á pallinum. Kaðall eða bönd eru ekki nóg en strekkibönd með strekkjara eru í lagi. Sérstaklega er mikilvægt að girðingin sé traust aftast á pallinum svo hún þoli álagið ef bíllinn tekur snögglega af stað.

11. Bílar sem taka þátt í göngunni þurfa að lúta almennum reglum um stærð ökutækja á meðan þeir eru að koma sér inn og út af göngusvæðinu og mega því ekki vera hærri en 4,20 m eða breiðari en 2,50 m. Ef ökutæki fer út fyrir ofangreind stærðarmörk þarf sérstaka öryggisfylgd inn og út af göngusvæðinu. Slík fylgd og allur kostnaður sem henni fylgir er algjörlega á ábyrgð hvers atriðis en ekki Hinsegin daga. 

12. Ábyrgðarmenn þurfa að afla upplýsinga um lengd ökutækis með góðum fyrirvara og koma til göngustjórnar ekki síðar en þriðjudaginn 8. ágúst. Engar lengdartakmarkanir eru á ökutækjum aðrar en þær að bíllinn þarf að geta keyrt gönguleiðina. Athugið að það er mjög kröpp beygja frá Skólavörðustíg inn á Laugaveg og að gangan fer öfugan vegarhelming á Lækjargötu. Ábyrgðaraðilar atriða verða að sjá til þess að bílstjórar fái upplýsingar um gönguna með góðum fyrirvara og að þeir prófi að keyra leiðina á bílnum sem notaður verður fyrir göngudaginn sjálfan (vitanlega ekki öfugan vegarhelming). 

13. Oft myndast ringulreið og tafir þegar göngunni er lokið en við viljum draga úr því eins og hægt er. Allir stórir pallbílar þurfa að hafa tröppu eða annan útbúnað á pallinum til að hægt sé að rýma bílinn á sem allra stystum tíma. Göngustjórn gerir þá kröfu til þátttakenda að þeir leggi sig fram um að rýma bílana hratt og fari strax út af göngusvæðinu.

Aðgengi að rafstöðvum og/eða hljóðkerfi í neyðartilfellum

14. Ef slys verður á meðan göngunni stendur og göngu- og öryggisstjórar þurfa að koma skilaboðum fljótt áleiðis, skulu þátttakendur með hljóðkerfi skilyrðislaust veita aðgang að því og vera reiðubúnir að slökkva á hljóðkerfum ef göngu- og öryggisstjórar krefjast þess af öryggisástæðum.

Annað

15. Hinsegin dagar gera þá kröfu að þátttakendur sýni öllum virðingu, þar með talið menningu og sögu hinna ýmsu hópa. Búningar mega ekki lýsa fordómum gagnvart kynþáttum og menningu annarra. Dæmi um búning sem Hinsegin dagar telja óviðeigandi og vilja ekki sjá í gleðigöngunni er „blackface“, þ.e. að koma fram sem manneskja af öðrum kynþætti en þátttakandinn er sjálfur. Þetta á einnig við um aðra kynþætti og menningarheima s.s. að klæða sig upp sem frumbyggi eða Kínverji. Af hverju er þess háttar búningur óviðeigandi? Um það má lesa á eftirfarandi síðu: Why is blackface racially socially and politically incorrect?

16. Síðast en ekki síst beina Hinsegin dagar þeim tilmælum til þátttakenda og ábyrgðarmanna atriða að standa vörð um gleðigönguna og hleypa ekki utanaðkomandi aðilum inn í atriðin sín.