Hinsegin bókmenntir

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar

Guðjón Ragnar Jónasson, rithöfundur, þýðandi og kennari við Menntaskólann í Reykjavík, gaf út bókina Hin hliðin á síðasta ári. Þetta er ekki fyrsta bókin sem Guðjón gefur út um hinsegin málefni en hann þýddi bókina Mennirnir með bleika þríhyrninginn sem kom út árið 2013. Sú bók er vitnisburður manns sem var einn af þúsundum samkynhneigðra karla er báru bleikan þríhyrning í fangabúðum nasista og máttu þrauka skelfilega vist, en flestir þeirra dóu. Guðjón gefur út hjá bókaútgáfunni Sæmundi en það er yfirlýst markmið hennar að gefa út hinsegin bókmenntir.

„Það er langt síðan ég byrjaði að skrifa. Ég er búinn að skrifa sex bækur, ég skrifaði tvær barnabækur og svo þýddi ég Mennirnir með bleika þríhyrninginn. Síðan gerði ég námsbók fyrir Námsgagnastofnun í samvinnu við fyrrum samkennara um fjölmenningu og líf í nýju landi. Ég ætlaði einhvern tímann að gefa út hinsegin skáldsögu, svona ástarrómans, en ég fann engan flöt á því máli. Svo fór ég að lesa upp búta úr bókinni fyrir ungt fólk á nokkrum sögukvöldum í Samtökunum ‘78 og fann út að best væri að tengja efnið saman í svona sagnasveig, ör- og leiftursögur. Þetta knappa form finnst mér mjög skemmtilegt,“ segir Guðjón.

Guðjóni finnst mikilvægt að sem flestar raddir fái að heyrast og hann vildi skrifa um hvernig hlutirnir voru hér áður fyrr.

„Ég dreif þetta út af því að Samtökin ‘78 áttu afmæli þetta ár, 2018. Það var alltaf verið að segja að unga kynslóðin vissi ekkert hvernig lífið hefði verið í árdaga baráttunnar. Þá fór ég að velta málunum fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði mikið verið skrifað um hvernig hlutirnir voru. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði að miðla minni sýn og því hvernig hlutirnir komu mér fyrir sjónir, en hafa ber í huga að þetta er mín sýn og sumir sjá hlutina í allt öðru ljósi. Það er mikilvægt að sem flestar raddir heyrist. Þó ber þess að geta að hér er um skáldaða sögu að ræða sem skáldagyðjan fékk að móta og forma eftir sínu höfði. Það er mikilvægt að láta bara vaða og ekki kvarta í sífellu yfir því að ekkert sé gert,“ segir Guðjón.

„Hinsegin faðir í 101“

Guðjón kom út úr skápnum 27 ára gamall. „Á þeim tíma, um aldamótin, þótti það ekki rosa seint en það þykir kannski seint í dag. Í þessari bók er ég að segja sögu gay samfélagsins í árdaga. Sögur sem ég heyrði. Ég var líka áhorfandi í þessu því að ég var á 22 í gamla daga, var bara í skápnum og skemmti mér eins og allir aðrir á staðnum í kringum hommana. Þá, þegar ég var í menntaskóla, var gay samfélagið svolítið að opnast. Það er margt búið að breytast og ég er svolítið að ramma inn lífið á þessum stað. Það var svo gaman á 22, það var frelsisandi sem sveif yfir vötnum.“

Einhverjir vita kannski ekki hvað Guðjón á við þegar hann talar um 22. Blaðamaður játar fáfræði sína og það stendur ekki á svörum hjá Guðjóni.

„Staðurinn 22 er gamli Kiki. Það var kaffihús á neðstu hæðinni, þar sem Bravo er núna, dansað á miðhæðinni og dansað efst uppi. Það er eitthvað við þetta horn, númer 22 þar sem Kiki er núna. Það hafa oft verið gay staðir þarna, svo hætta þeir og svo koma þeir aftur. Það er einhver ára á þessu horni, senan hefur flust til en ætíð ratar hún heim aftur, á hornið góða. Hommarnir hafa aldrei þolað staðina á meðan þeir eru starfandi en svo sjá þeir þá alltafí rósrauðum bjarma þegar þeir eru hættir. Fjarlægðin gerir fjöllin blá,“ segir Guðjón og brosir.

„Í bókinni skrifa ég um hinsegin samfélagið og þá sérstaklega hommasamfélagið, hvernig skemmtanalífið var og hræðsluna við það að koma út úr skápnum á alnæmisárunum. Tímarnir hafa sem betur fer breyst mikið. En hinsegin bókmenntir verða að vera sýnilegar í samfélaginu og í umræðunni. Ég bý í 101, kenni við MR og kenndi áður í Austurbæjarskóla en síðustu sumrum hef ég að mestu varið í Berlín þar sem ég hef fengist við þýðingar og skriftir. Ég bý ásamt 19 ára syni mínum og það var um svipað leyti og hann fæddist sem ég kom út úr skápnum. Þannig að ég er hinsegin faðir í 101 Reykjavík,“ segir Guðjón.

„Helför hommanna lauk ekki eftir stríð“

Guðjón gaf ekki bara út Hina hliðina á síðasta ári heldur þýddi hann einnig bók eftir Ralf Dose um Magnus Hirschfeld. Hirschfeld var þýskur læknir og baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks. Í upphafi tuttugustu aldarinnar starfrækti hann framsækna rannsóknarstofnun á málefnum hinsegin fólks í Berlín. Bókin gerir grein fyrir ævi hans og störfum hinsegin hreyfingarinnar í árdaga hennar, bæði austan hafs og vestan.

„Ég gaf út ævisögu Magnusar Hirschfeld, því að ég bý alltaf í Berlín á sumrin. Hirschfeld rak stofnun í Berlín. Ég vildi segja frá þessari veröld sem var á Weimar- tímanum. Mennirnir með bleika þríhyrninginn greinir frá því sem kom á eftir seinni heimstyrjöldinni en mig langaði til þess að segja frá því sem kom á undan henni. Hirschfeld var að gera rannsóknir á hommum og lesbíum, veitti ráðgjöf og gerði mjög mikið af flottum hlutum á þessum tíma en það fyrsta sem nasistarnir lokuðu var þessi stofnun hans. Margt af því sem er verið að ræða í dag er það sem Hirschfeld var að tala um á sínum tíma og þess vegna ákvað ég að segja þessa sögu og kynna þetta aðeins fyrir fólki. Ég fór í kaffi á Hirschfeld- stofnunina, talaði við Ralf Dose og hann gaf mér leyfi til þess að þýða bókina yfir á íslensku. Ég hófst síðan handa og fékk styrk til þess að gera þetta. Helför hommanna lauk ekki eftir stríð.

Markmið mitt, af því að ég er framhaldsskólakennari, er að búa til efni með þessum þýðingum fyrir nemendur svo þeir geti lesið um hinsegin líf og hinsegin baráttu. Draumur okkar nokkurra sem í framhaldsskólunum störfum er að vera með áfanga um það efni sem yrði kenndur við nokkra skóla, fyrir unga nemendur og sérstaklega hinsegin fólk. Nemendur í öllum skólum gætu þó líka sótt hann, þetta yrði kennt í fjarnámi og með staðbundnum lotum þannig að þetta yrði menningarlegur klúbbur framhaldsskólanema þar sem fólk gæti hist og lært sitthvað um menningu og sögu hinsegin fólks. Það þarf að auka sýnileika hinsegin fólks innan skólakerfisins.

Við ætlum að kynna þetta á ráðstefnu um framhaldsskólann nú í haust. Við erum að vinna að þessu nokkrir kennarar í nokkrum skólum. Við myndum reyna að vinna þetta í samstarfi við Samtökin ‘78 og Háskóla Íslands þannig að þetta getur líka orðið vettvangur fyrir fólk til að kynnast. Sumir vilja ekkert vera í skemmtanalífinu. Sumir vilja bara vera að gera eitthvað annað,“ segir Guðjón.

Guðjón segir ekki margt fram undan á þessu sviði þegar hann er spurður út í verkefni framtíðarinnar.

„Ég held að ég muni ekki skrifa mikið meira á þessum vettvangi. Ég er orðinn svona frekar þurrausinn. Mér finnst að unga fólkið eigi að skrifa og segja frá. Það er svolítið gaman að sjá að þessir þekktu rithöfundar eins og Sjón og Auður Ava eru farin að fjalla um okkur, þannig að við erum orðin viðfangsefni í bókmenntum á miklu víðtækari hátt heldur en áður. Það vantar svolítið efni á íslensku, finnst mér,“ segir Guðjón og bendir á að styrkir fyrir bókmenntir af þessu tagi þyrftu að vera betri.

Guðjón gaf okkur góðfúslegt leyfi til að birta eina sögu úr bókinni hans:

Milli eftirvæntingar og örvæntingar

Mörgum drengjannna þótti gaman að dansa og vissu að þeir voru ýmsum augnayndi á gólfinu. Þeir kunnu best við sig við súlu nokkra fyrir miðjum sal, burðarstoð sem varð eftir þegar skilveggur var rifinn. Þaðan sást vel til allra á staðnum og allir sáu þá auðvitað hver stóð við súluna. Þess vegna var hún kölluð örvæntingarsúlan. Flestum drengjanna fannst það þó ekki koma sér við á nokkurn hátt. Þeir vissu að þeir þurftu ekki að örvænta. Öllu heldur var þetta rétti staðurinn fyrir þá því að þarna fékk fegurð þeirra að njóta sín. Þeir álitu sig bera af öðrum mönnum og töldu sig þá Lilju sem allir vildu kveðið hafa. Þeir sem ekki áttu jafn mikla sénsa sveimuðu um staðinn og héldu sig frekar í skuggsælum skotum þar sem þeir voru ekki eins áberandi. Þeir biðu oft við hina súluna á dansgólfinu sem gekk undir nafninu eftirvæntingarsúlan. Frá súlunum höfðu menn góða yfirsýn yfir staðinn þar sem þetta lifandi leikhús bærðist á milli eftirvæntingar og örvæntingar.


Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur, fædd og uppalin í Mývatnssveit þar sem hún býr nú þótt hún vinni mikið í Reykjavík. Hún vinnur sjálfstætt sem prófarkalesari og fræðimaður og er með aðstöðu hjá ReykjavíkurAkademíunnni. Sjálfsuppgötvun á háskólaárunum leiddi hana inn í heim hinsegin bókmennta.

„Það gerðist nú bara þannig að í miðju MA-náminu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands áttaði ég mig á því að ég væri lesbía og kom út úr skápnum og þá fékk ég áhuga á hlutum sem ég hafði ekki áhuga á áður. Ég endaði sem sagt á að skrifa doktorsverkefni um íslenskar hinsegin bókmenntir sem er fyrsta doktorsverkefnið á því sviði. Ég valdi mér samt auðvitað ekki doktorsverkefni bara af því að ég var lesbía. Ég komst að því að það var mjög lítið búið að rannsaka þetta svið og þegar ég var að velja mér verkefni árið 2009 eða 2010 var ekkert að gerast í þeim efnum. Það var enginn að skrifa um hinsegin bókmenntir á Íslandi og fáir að tala um hinsegin bókmenntir, allavega ekki í bókmenntaheiminum. Þannig að ég sá að þarna var heilt svið sem var bara opið og ég gat gert næstum hvað sem var. Mér fannst mér þetta því bæði áhugavert og mjög þarft,“ segir Ásta.

Mikið skrifað undir rós hér áður fyrr

Spurð út í hinsegin bókmenntir segir Ásta að það hafi alltaf verið fjallað um hinsegin málefni. Sýnileikinn sé aftur á móti meiri nú en áður.

„Ef við tökum mjög víða skilgreiningu á því hvað hinsegin er, eitthvað sem er öðruvísi en normið, þá er ljóst að það hefur alltaf verið skrifað um það. En það fer svolítið eftir því hvernig maður horfir á það. Það er fjallað um hinsegin málefni í Íslendingasögunum, til dæmis ergi og alls konar fólk sem brýtur reglur um hvernig á að haga sér kynferðislega, konur í buxum og svoleiðis. En ef við erum að hugsa um hinsegin persónur sem eru skrifaðar sem hinsegin persónur í nútímaskilningi þá fer það að gerast snemma á 20. öld, bækurnar sem ég var að vinna með í mínu verkefni eru til dæmis skrifaðar í kringum 1940–1950. En þá var flest skrifað undir rós og það var ekki hægt að segja ákveðna hluti upphátt. Það breytist svo þegar við erum komin fram á áttunda, níunda og tíunda áratuginn. Þá fara hinsegin karakterar að birtast oftar í bókum, stundum í bókum eftir hinsegin höfunda en líka oft á fordómafullan og steríótýpískan hátt í verkum eftir aðra. Síðan hef ég á tilfinningunni að á 21. öldinni hafi bæði fjöldinn og sýnileikinn á hinsegin persónum í íslenskum bókmenntum aukist mjög mikið. Það er auðvitað skiljanlegt því að réttindabaráttan hefur breyst og sýnileikinn í íslensku samfélagi hefur aukist,“ segir Ásta.

Á síðasta ári var eins og íslenskir rithöfundar kepptust við að hafa hinsegin karaktera í bókum sínum og fjalla um hinsegin málefni, því mýmörg dæmi um slíkt mátti finna í bókaflóðinu. Er eitthvað búið að skoða hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár?

„Við getum öll haft tilfinningu fyrir því hvað hafi gerst en það er enginn búinn að setjast niður og skoða alvarlega hvernig hinsegin bókmenntir hafa þróast á 21. öldinni. En ég fékk styrk til þess að gera það um daginn frá launasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna, þannig að á næsta ári get ég setið í sex mánuði við að skoða bara þetta og ég er ógeðslega spennt. Eins og staðan er núna get ég ekki sagt neitt fyrir víst af því að ég hef ekki skoðað þetta skipulega en mér finnst eins og eftir sirka 2010 hafi hinsegin aukapersónur skotið upp kollinum í mjög mörgum bókum. Það er eins og hinsegin viðfangsefni sé ekki eitthvað sem þurfi annaðhvort að hunsa, fordæma eða vera í forgrunni, til dæmis aðalpersóna, heldur frekar eitthvað sem rithöfundi finnst að hann geti haft með án þess að takast á við á djúpan hátt. Þannig það eru hinsegin aukapersónur í fáránlega mörgum bókum sem við kannski munum ekki eftir af því að þær eru í bakgrunninum en þessar bækur sýna þó að fjölbreytileiki persóna í bókum er að aukast í þessa átt. Það hefur líka orðið algengara að sjá bækur þar sem hinseginleikinn er í forgrunni. Á síðasta ári komu til dæmis út frekar margar bækur sem fjölluðu beinlínis um hinsegin málefni og enn fleiri þar sem hinsegin persónur eru í aukahlutverki. Sem er mikil breyting því að ég held að það hafi verið frekar sjaldgæft hér áður fyrr,“ segir Ásta.

Ásta hefur á tilfinningunni að á næstu árum aukist sýnileiki hinsegin málefna og persóna í bókmenntum enn meira.

„Ég held að það verði alveg einhver tími núna þar sem þetta verður mjög algengt viðfangsefni. Ég held að samfélagið kalli svolítið á það. Þetta er greinilega viðfangsefni sem mörgum finnst að það þurfi að glíma við, sem er fínt. Þetta sést líka víða erlendis og í sjónvarpsefni eins og á Netflix. Þar er nú mikið af glænýju efni sem fjallar um hinseginleika og hinsegin persónur – það hefur orðið algjör umbylting í mörgum löndum. Auðvitað má ýmislegt setja út á og þetta á alls ekki við alls staðar en við hljótum að vilja meiri sýnileika og meiri umfjöllun. Það er mjög gott að sjá að þetta er ekki lengur svo umdeilt viðfangsefni að meirihluta útgefenda finnist hættulegt eða of áhættusamt að gefa það út. Við getum ekki gengið að því vísu að þessi þróun haldi endalaust áfram og það getur komið bakslag en ég hef á tilfinningunni að á næstu árum verði aukning eða allavega talsvert mikill sýnileiki á hinsegin málefnum og persónum í bókmenntum hér á landi,“ segir Ásta.

Þess má geta að í haust kennir Ásta námskeið um hinsegin bókmenntir við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Áhugasamir háskólanemar geta fundið upplýsingar um námskeiðið „Ergi, usli og duldar ástir: Hinsegin bókmenntir“ (ÍSL332G) í kennsluskrá eða sent Ástu póst á astakben@gmail.com.