Hýrir húslestrar


Bókmenntaviðburður Hinsegin daga sló enn og aftur í gegn á síðasta ári og hefur fest sig rækilega í sessi sem einn skemmtilegasti viðburður ársins.

Júlía Margrét Einarsdóttir mun lesa úr nýútkominni bók sinni Jarðarberjatungli. Aðdáendur pólitískra trylla af bestu gerð geta glaðst því lesið verður upp úr bók Lilju Sigurðardóttur, Svik, sem mun koma út í október. Einnig verður lesið upp úr skáldsögunni Homo sapína eftir grænlenska rithöfundinn Niviaq Korneliussen í nýrri íslenskri þýðingu Heiðrúnar Ólafsdóttur. Þá munu listamenn Rauða skáldahússins taka þátt með sínum hætti auk þess sem fleiri hinsegin skáld stíga á stokk.

Viðburðurinn fer fram á íslensku.

Ljóðasamkeppni

Ertu inni í ljóðaskápnum? Áttu örsögur í skúffunni sem þrá að verða sýnilegar? Núna er rétti tíminn til að opna sig því Hinsegin dagar efna enn á ný til ljóðasamkeppni. Hinsegin skáld, jafnt óreynd sem reynsluboltar, eru hvött til að senda inn ljóð eða örsögur og taka þannig þátt í að efla og auka við hina blómlegu menningu okkar.

Þátttakendur sendi texta í tölvupósti á netfangið huslestrar@gmail.com fyrir 1. ágúst. Dómnefnd fær textana nafnlausa í hendurnar og henni eru ekki veittar upplýsingar um höfunda fyrr en þrjú verðlaunaverk hafa verið valin. Úrslit verða tilkynnt á Hýrum húslestrum á Hinsegin dögum föstudaginn 10. ágúst þar sem verðlaunatextarnir verða enn fremur fluttir.

Free

Location: