Dragkeppni Íslands fór fram í maí
HÖFUNDUR: SIGGI GUNNARS
„Viltu typpi í rass?“ Spurning sem er hugsanlega ekki við hæfi að hafa eftir á prenti í virðulegu tímariti sem þessu en engu að síður nauðsynlegt því þetta er spurningin sem skóp sigur Lady Zadude í dragkeppni Íslands sem fór fram í Tjarnarbíó í maí sl., og það á sjálfan uppstigningardag.
Keppendur buðu upp á sannkallað hlaðborð af fjölbreyttum atriðum. Twinkle Starr opnaði keppnina með kröftugum flutningi á standardinum My Way og gaf „croonerum“ þessa heims ekkert eftir. Tókst atriðið svo vel að Twinkle hlaut þriðja sætið í keppninni.
Keppnin var fjölbreytt og svona til þess að undirstrika fjölbreytileikann í þessari keppni saumaði næsti keppandi á svið eftir frú Twinkle Starr í magann á sér með nál og tvinna. Það þótti heldur óvenjulegt enda barst kliður um salinn og einstaka vein heyrðust meðal áhorfenda. Lola Von Heart hreppti annað sætið í keppninni. Lola mætti í fögrum, rauðum kjól og var greinarhöfundur hreinlega ekki viss um hvort þarna stæði Sigga Beinteins endursköpuð úr Eurovision 1990 eða Lola, því kjóllinn minnti mjög á fræga kjólinn hennar Siggu. Lola er greinilega lunkinn dansari en hún steig óaðfinnanleg spor á sviðinu sem, eins og áður sagði, skilaði henni silfrinu í keppninni í ár.
En það sem skóp sigurinn var eilífa spurningin sem flestir hommar kannast við, ertu toppur eða botn? Vilhjálmur Ingi Vilhjálms eða Lady Zadude spurði þessarar spurningar í frumsömdu lagi og texta sem sló vægast sagt í gegn, því ekki nóg með að hún næði sér í titilinn Dragdrottning Íslands heldur hlaut hún titilinn vinsælasta stúlkan, eða „fan favourite“ og þreyttist Lady Z ekki á að minna fólk á það eftir keppnina. Það er ljóst að þessi drolla er komin til að vera og verður hún áberandi á Hinsegin dögum í ár.
„Lady Zadude hefur verið að þróast og gerjast í nokkur ár, eða frá því ég fór í drag fyrst. Líkt og allir dragskemmtikraftar, ögrar hún kynjanormum samfélagsins, það eitt og sér er mér afar hugleikið og mikilvægt,“ sagði Vilhjálmur Ingi, sem er alltaf kallaður Villi, þegar hán var spurt út í karakterinn eftir sigurinn í Tjarnarbíói. „Hennar sérkenni er lifandi flutningur á þekktum lögum með breyttum textum sem segja frá hinsegin veruleika, frá hennar sjónarhorni að sjálfsögðu. Það getur nefnilega enginn með heilindum sagt hinsegin sögur nema við sjálf. Húmorinn er svo mín nálgun og minn frásagnarstíll, en það breytir ekki umfjöllunarefninu eða skilaboðunum,“ bætir Villi við og það var öllum áhorfendum í Tjarnarbíó einmitt ljóst, að húmorinn er Villa ofarlega í huga þegar hán býr til efni fyrir Lady Zadude. Hán bætti við að hán sækti innblástur til dragdrottningarinnar Sherry Vine, en hún einmitt sérhæfir sig í að snúa textum vinsælla laga upp í hinsegin grín.
Villi hefur fyrst og fremst sérhæft sig í að standa bakvið sviðið við skipulagningu viðburða á hinsegin senunni og segir að Lady Zadude hafi beðið allt of lengi á hliðarlínunni. „Þegar ég sá auglýsinguna fyrir Dragkeppni Íslands fannst mér það kjörið að demba mér út í djúpu laugina og fara í dragið af fullum krafti. Fólk eins og ég, þ.e. sem er með offramboð af ADHD, þarf nefnilega eitthvað svona til að koma sér af stað stundum,“ segir Villi og hlær.
Eins og áður kom fram hlaut Villi styrk í verðlaun til þess að koma fram á Hinsegin dögum og mega áhorfendur vænta mikillar gleði í atriðunum háns. „Ég lít á draglistamenn sem nokkurs konar sjúkrahústrúða. Árið er búið að vera heldur betur ömurlegt þar sem ráðist er að okkur úr ótrúlegustu áttum, þó sér í lagi að trans fólki. En líkt og sjúkrahústrúðar koma oft inn í erfiðar aðstæður til að gefa fólki þó ekki sé nema smá hlé frá raunveruleikanum, komum við dragfólkið inn og gerum okkur besta til að lyfta upp gleðinni og baráttuandanum. Það er markmiðið með atriðinu mínu í ár, að gefa okkur orku fyrir áframhaldandi baráttu,“ segir Villi, spennt fyrir Hinsegin dögum í ár.