Stolt í hverju skrefi – Fyrirkomulag Hinsegin daga 2020

Gleðiganga Hinsegin daga verður tuttugu ára í ár og mun þema hátíðarinnar snúa að göngunni sjálfri og þeim skrefum sem tekin hafa verið í átt að bættum réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Hvert einasta skref sem færir okkur nær jafnrétti skiptir miklu máli fyrir samfélagið. Hverju einasta skrefi fylgir stolt og á bak við hvert einasta skref er fólk sem hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum.

Fólkið sem hefur barist fyrir réttindum hinsegin fólks og þorað að taka þessi mikilvægu skref í gegnum tíðina er miðpunktur hátíðarinnar ásamt göngunni. Þetta er fólkið sem hefur byggt upp okkar samfélag hvort sem það er á bak við tjöldin eða í eldlínunni. Án þeirra værum við ekki komin svona langt í okkar baráttu og án þeirra væri engin ganga.

Þörfin fyrir Gleðigönguna er enn mikil, enda er hún mikilvægur þáttur í sýnileika hinsegin fólks.

Við viljum standa saman stolt og sýna fjölbreytileika hinsegin samfélagsins. Við viljum að okkar fólk finni að það sé velkomið og tilheyri. Mikilvægur þáttur sýnileikans er að útmá skömmina sem oft vill fylgja því að passa ekki inn í staðlað form samfélagsins – að tilheyra ekki.

Gangan og saga göngunnar birtist í viðburðum og ásýnd hátíðarinnar allrar. Tímarit Hinsegin daga inniheldur viðtöl og greinar sem tengjast sögunni og fólkinu á bak við skrefin. Einnig verður framleidd heimildarmynd sem rekur sögu Gleðigöngunnar. Gönguleiðir fyrri ára verða gerðar sýnilegar og jafnvel settar upp ljósmyndir úr eldri göngum á þá staði í borginni þar sem þær voru teknar. 

Slagorð Hinsegin daga í ár verður „Stolt í hverju skrefi

Gleðigangan mín

Gleðigangan hefur alltaf verið hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast hinsegin fólk í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum, vinum og stuðningsaðilum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem hæst ber hverju sinni. 

Við fögnum 20 ára afmæli göngunnar í ár.

Á þessum fordæmalausu tímum sem þrátt fyrir allt eru langt í frá fordómalausir. Gangan er enn mikilvægur liður í sýnileika, baráttu, gleði og stolti hinsegin fólks. Því er mikilvægt að gangan fari fram með einhverjum hætti, og það mun hún gera, þó innan þess ramma sem almannavarnir hafa gefið út.

Frá upphafi Gleðigöngunnar hafa einstaklingar og hópar skipulagt eigin atriði en munu nú einnig skipuleggja eigin gönguleið. Hver og einn getur rölt með sjálfum sér, vinum eða fjölskyldu, í hæfilega stórum hópum og með smitgát í fyrirrúmi.

Í stað þess að ganga frá Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti áleiðis að Hljómskálagarðinum fer Gleðigangan fram víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og um land allt!

Hluti hennar verður e.t.v. 5 manna hópur sem gengur upp Helgafellið, annar hluti par sem röltir meðfram Ægisíðunni, sá þriðji er fjölskyldan sem gengur meðfram Breiðholtsbrautinni, sá fjórði vinahópurinn sem röltir kringum Rauðavatn, sá fimmti vinnufélagar sem ganga Hafnarstrætið á Akureyri, sá sjötti áhöfnin sem stikar Fjarðargötuna á Seyðisfirði og svo framvegis, hvar sem þátttakendur vilja ganga saman, sýna stuðning sinn við réttindabaráttu hinsegin fólks og fagna fjölbreyttu samfélagi.

Gleðigöngurnar, í öllum sínum fjölbreytileika,  leggja af stað kl. 14 laugardaginn 8. ágúst.

Vonandi bera sem flestir regnbogafána eða skreyta sig regnbogalitum. Hægt verður að fylgjast með framgangi gleðiganga á hinum ýmsu miðlum, en þátttakendur verða hvattir sem aldrei fyrr til að deila reynslu sinni á samfélagsmiðlum.

Hópar verða jafnframt hvattir til að skrá sig hjá Hinsegin dögum, svo yfirsýn fáist yfir hverjir ganga hvar og að venju verða sem flest atriðin með skýr skilaboð er varðar veruleika hinsegin fólks á einn eða annan hátt. Hinsegin dagar hvetja ólíka hópa, sem tekið hafa þátt í göngunni undanfarin ár, til þátttöku, t.d. Intersex Ísland, Trans Ísland, BDSM Ísland, Samtökin ‘78 og Dragsúg.

Nánari upplýsingar verða veittar þegar nær dregur Hinsegin dögum, sem að venju eru haldnir í ágúst.

#glediganganmin #stoltskref #reykjavikloves #proudwalk #reykjavikpride2020