Stuttmyndamaraþon

Sýndar verða fjórar hinsegin stuttmyndir frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Poppvélin verður að sjálfsögðu í gangi og svellkaldir drykkir til sölu á barnum.

Stuttmyndirnar fjórar eru eftirfarandi:

Love is simply love

Heimildarmynd um samband Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur:

Jóhanna Sigurðardóttur var fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi og fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra heims. Þegar þær Jónína Leósdóttir rithöfundur kynntust voru þær báðar giftar mönnum og áttu börn. Hvorug þeirra hafði látið sér koma til hugar að eiga í sambandi við konu. Sjá stiklu hér.

Leikstjóri Björn B. Björnsson.
Framleidd af Reykjavík films.
Lengd: 30 mínútur


ÉG

Mynd gerð í samvinnu við Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur:

Svanur ferðast til Reykjavíkur í leit að frelsi. Þegar læknisheimsókn fer ekki eins og hán hafði vonast eftir, reynist traust vinátta mikilvæg. Sjá stiklu hér.

Leikstjórar og handritshöfundar: Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Vala Ómarsdóttir.
Lengd: 15 mínútur


Annika

Annika Samuelsen er búsett er í Færeyjum. Hún er í miðju kynleiðréttingarferli sem er langt og flókið ferli. Það myndi auðvelda líf hennar mikið ef hún fengi að breyta kynskráningu sinni meðan á kynleiðréttingarferlinu stendur en samkvæmt færeyskum lögum þarf fyrst að ljúka ferlinu.

Mynd eftir Heiðrik á Heygum.
Lengd: 20 mínútur


Eskimo Diva

Nuka, ung dragdrottning frá Nuuk, leggur upp í túr um Grænland ásamt vini sínum, plötusnúðnum og tónlistarmanninum Lu. Markmiðið er að sýna heimafólki afskekktra smábæja Grænlands að sami einstaklingurinn geti verið töff skemmtikraftur, Grænlendingur og hommi. Einnig vonast Nuka og Lu til að glæða rólega svefnbæi lífi. Svo virðist sem ekki allir séu tilbúnir fyrir slíka heimsókn en með svarta kímnigáfu á lofti halda þeir ótrauðir áfram. Sjá stiklu hér.

Handrit og leikstjórn: Lene Staehr.
Lengd: 63 mínútur