Svona fólk: Plágan – Frumsýning & umræður

Kvikmyndin Svona fólk fjallar um mannréttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi. Í fimm þáttum er rakin barátta homma og lesbía fyrir lýðréttinum allt frá því að fyrsti vísir að hreyfingu þeirra kviknaði árið 1975 og allt til okkar daga. Höfundur kvikmyndarinnar er Hrafnhildur Gunnarsdóttir.

Þriðji þáttur kvikmyndarinnar, Plágan, verður frumsýndur á Hinsegin dögum og er beint framhald fyrstu tveggja þáttanna sem sýndir voru í Bíó Paradís í nóvember á liðnu ári. Plágan fjallar um alnæmi og áhrif þess á samfélag samkynhneigðra. Árið 1983 fór að bera á áður óþekktum sjúkdómi sem nefnist AIDS og virtist leggjast helst á homma. Ein afleiðing þess var að samkynhneigðir urðu að takast á við holskeflu fordóma sem þó voru miklir fyrir. Aukinn sýnileiki homma í baráttunni við alnæmi varð þess valdandi að löggjafavaldið varð að taka mark á veruleika samkynhneigðra og hópurinn varð sýnilegri sem aldrei fyrr. Alnæmi skipti því sköpum í baráttunni fyrir jafnrétti og almennum lýðréttindum. Svona fólk – Plágan er áhrifamikil heimild um þær hörmungar sem dundu á samfélagi samkynhneigðra á árum alnæmis, baráttu þeirra og þolgæði.

Að sýningu lokinni verða pallborðsumræður um efni þáttarins. Viðar Eggertsson leikstjóri og útvarpsmaður stjórnar umræðum og þátttakendur í pallborðinu eru: Einar Þór Jónsson framkvæmdastjóri HIV Ísland, Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður, Jóna Ingibjörg Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og klínískur kynjafræðingur, Sigurður Guðmundsson fyrrum landlæknir, og Þorvaldur Kristinsson rithöfundur og fyrrum formaður Samtakanna ´78 og Hinsegin daga í Reykjavík.

Kvikmyndin Svona fólk skiptist í fimm þætti:

  • 1970–1978 – Þögnin
  • 1978–1983 – Úr felum
  • 1983–1995 – Plágan
  • 1990–1999 – Annars flokks
  • 1999–2016 – Jafnrétti náð?