Tímarit Hinsegin daga komið út

Hópurinn í kringum tímarit Hinsegin daga, greinahöfundar, viðmælendur, sjálfboðaliðar, ljósmyndarar og svo auðvitað ritstýra og hönnuður, söfnuðust saman á Gayrsgötu 9 í gær og handléku fyrstu eintök tímarits Hinsegin daga, sem kom glóðvolgt beint úr prentsmiðjunni. Blaðið er stærra og efnismeira en nokkru sinni fyrr, litlar 88 blaðsíður, sneisafullar af áhugaverðu efni um hinsegin samfélagið. 

Söguleg heimild um hinsegin fólk

„Blaðið er gríðarlega mikilvæg söguleg heimild um hinsegin fólk á Íslandi,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga um útgáfuna. „Það er í raun eitt sinnar tegundar hér á landi, því engin önnur hinsegin útgáfustarfsemi hefur starfað jafn óslitið og gefið jafn góða sýn á þverskurð hinsegin menningar hverju sinni.“ Í blaðinu er að finna viðtöl við hinsegin fólk um líf þeirra og störf, umfjöllun um hinsegin ungmenni, greinar sem skrifaðar eru af hinsegin fólki um mál sem brenna á hinsegin samfélaginu, yfirlit yfir dagskrá Hinsegin daga og jafnvel hinsegin stjörnuspá. 

Two people indoors. One has trans colored flowers in their hair, the other a sequined bomber jacket.
Bjarndís, ritstýra tímaritsins, og Gunnlaugur Bragi, formaður Hinsegin daga segja blaðið mikilvæga heimild um líf hinsegin fólks
Three smiling people indoors.
Gestir útgáfuteitisins voru ánægðir með blaðið, enda er það einkar glæsilegt í ár.

Samhent átak fjölbreytts hóps

Ritstýran Bjarndís Helga Tómasdóttir er að vonum ánægð með útgáfuna. „Það er eitthvað fallegt þegar svona stór hópur fjölbreyttra einstaklinga leggur sitt á vogaskálarnar, langflest í sjálfboðavinnu, og gera öll sitt til að svona verkefni megi verða að veruleika,“ segir Bjarndís og vísar í þá fjölmörgu einstaklinga sem komu að útgáfu blaðsins. Umbrot var í höndum Guðmundar Davíðs Terrazas og forsíðumyndin var teiknuð af Klöru Rosatti, ung listakona sem býr í Kaupmannahöfn og hefur síðustu árin unnið verk með karakterum sem hún notar til að breyta neikvæðu hugarfari gagnvart sjálfri sér. Útisýning á verkum Klöru verður á Pósthússtræti við Austurvöll á meðan að Hinsegin dögum stendur. 

Sýnileikinn mikilvægur

Blaðið birtist nú í heild sinni á vef Hinsegin daga, en á næstu dögum munu stakar greinar líta dagsins ljós, sem upptaktur að hátíðinni. Við hvetjum ykkur öll til að lesa blaðið og deila greinum og taka þannig þátt í því að hinsegin fólk verði sýnilegra en oft áður. 

An illustration of two characters lying on a beech, intertwined and kissing. The characters are humanoid but cartoonish, with woolen hats colored like the trans and bi flags, their legs are hairy and there are strech marks on their bodies. The text overlaid says Hinsegin dagar, Reykjavik Pride 2022, 2.-7. ágúst.