Tónleikar Hinsegin kórsins


Hinsegin kórinn efnir til tónleika í tilefni Hinsegin daga. Kórinn hefur á undanförnum árum getið sér afar gott orð fyrir góðan söng og skemmtilega framkomu en hann syngur undir stjórn tónlistarkonunnar Helgu Margrétar Marzellíusardóttur.

Hinsegin kórinn hefur komið víða fram, bæði hér heima og erlendis, og hélt á vordögum til München og tók þátt í hinsegin kóramótinu Various Voices við gríðargóðar undirtektir. Kórinn hefur áður sungið meðal annars í Færeyjum, London, Dublin og Helsinki. Efnisskrá tónleikanna að þessu sinni inniheldur blöndu af íslenskum og erlendum lögum sem sum hver hafa verið útsett sérstaklega fyrir kórinn. Meðleikari er Vignir Þór Stefánsson.