Vilhjálmur Ingi nýr formaður Hinsegin daga


Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson var í gær kjörinn nýr formaður Hinsegin daga í Reykjavík á aðalfundi félagsins. Vilhjálmur tekur við af Gunnlaugi Braga Björnssyni sem setið hefur í stjórn félagsins frá árinu 2013, fyrst sem gjaldkeri Hinsegin daga til ársins 2018 þegar hann tók við formennsku í félaginu. Auk Gunnlaugs vék úr stjórn Karen Ósk Magnúsdóttir, sem verið hefur gjaldkeri Hinsegin daga undanfarin tvö ár.

Önnur sem kjörin voru í stjórn eru Ragnar Veigar Guðmundsson gjaldkeri, Ragnhildur Sverrisdóttir ritari, Ásgeir Helgi Magnússon, Elísabet Thoroddsen, Helga Haraldsdóttir og Lilja Ósk Magnúsdóttir.

Vilhjálmur Ingi er menntaður í nýsköpunar- og stjórnunarfræðum með áherslu á skapandi greinar frá Kaospilot skólanum í Danmörku og starfar sem upplifunar- og markaðstjóri hjá Sagaevents. Vilhjálmur sat í stjórn Hinsegin daga á árunum 2015-2018, fyrst sem meðstjórnandi og síðar ritari. Áður gegndi hann embætti gjaldkera Samtakanna ‘78 á árunum 2013-2015 og sat einnig í stjórn hinsegin íþróttafélagsins Styrmis.

Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson:

„Það er heiður að taka við formennsku Hinsegin daga á 20 ára afmælisári gleðigöngunnar, sem fylgir fast á hæla 20 ára afmælis félagsins sjálfs sem fagnað var í fyrra. Hinsegin dagar hafa tekið ótrúlegum breytingum síðustu ár, vaxið og dafnað undir styrkri stjórn forvera minna og ný stjórn tekur við góðu búi.

Ný stjórn Hinsegin daga mun áfram vinna með hinsegin samfélaginu með það að markmiði að efla hátíðina, breyta og bæta enn frekar. Nú er ekki tíminn til að standa í stað heldur höldum við ótrauð áfram. Við þurfum ekki að líta langt til að sjá að því miður þarf ekki nema pólitískar sviptingar eða rangt fólk á röngum stöðum til að hinsegin fólk sé svipt áunnum réttindum sínum með einu pennastriki. Þó blessunarlega séu engin merki um slíkt hér á landi þurfum við alltaf að vera á varðbergi, verja áunna stöðu en um leið halda áfram að berjast fyrir fullu lagalegu og samfélagslegu janfrétti.

Hinsegin dagar hafa gegnt mikilvægu hlutverki í réttinda- og hagsmunabaráttu hinsegin fólks á Íslandi síðastliðna áratugi og munu gera það áfram, með gleðina að vopni.“


Hinsegin dagar verða haldnir í Reykjavík dagana 4.-9. ágúst 2020 og sem fyrr verða tugir fjölbreyttra viðburða á dagskrá hátíðarinnar. Í ár fagnar gleðiganga Hinsegin daga 20 ára afmæli en gangan var fyrst gengin í ágúst árið 2000, rúmu ári eftir að fyrstu hinsegin hátíðahöldin fóru fram í Reykjavík í júní 1999. Það verður því mikið um dýrðir þegar Hinsegin dagar ná hámarki með gleðigöngu og útihátíð í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 8. ágúst.