Verklagsreglur
Verklagsreglur um úthlutun framkvæmdafjár úr
Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans
1. gr.
Hinsegin dagar eru frjáls félagasamtök með aðsetur í Reykjavík. Árlega heldur félagið hinsegin menningar-, mannréttinda- og margbreytileikahátíð í Reykjavík. Öll þau sem vilja vinna að málefnum hinsegin fólks svo og félagasamtök þeirra eru velkomin til starfa í samstarfsnefnd Hinsegin daga, en stjórn félagsins og samstarfsnefnd starfa saman að skipulagningu hátíðar hvers árs.
Markmið Hinsegin daga er m.a. að halda árlega hinsegin hátíð og gleðigöngu, stuðla að vexti og viðgangi hinsegin menningar og félagslífs og rækta tengsl við erlendar hreyfingar hinsegin hátíða.
2. gr.
Markmiðið með úthlutun framkvæmdafjár úr Gleðigöngupotti er að styðja hugmynd til framkvæmdar.
Gleðigöngupotturinn er samstarfsverkefni Hinsegin daga í Reykjavík og Landsbankans sem verið hefur bakhjarl Hinsegin daga um árabil. Miðað er við að fjárhæð styrkja sem veittir eru úr Gleðigöngupottinum sé á bilinu 100.000-500.000 kr. og skulu þeir veittir einstaklingum og/eða hópum sem vilja skipuleggja fjölbreytt, áhugaverð og táknræn atriði til þátttöku í Gleðigöngu Hinsegin daga. Ár hvert er athygli beint að ákveðnu þema í dagskrá Hinsegin daga og við úthlutun framkvæmdafjár skal leitast við að styðja atriði sem tengjast þemanu á einn eða annan hátt.
3. gr.
Við úthlutun framkvæmdafjár skal m.a. horfa til:
- boðskaps atriða
- menningarlegs gildis atriða
- tengingu atriða við þema ársins
- frumleika, skemmtanagildis og fjölbreytileika atriða
- ólíkra stefnu og strauma
Þá eru umsóknir einnig metnar út frá þátttöku- og öryggisreglum Gleðigöngu Hinsegin daga.
4. gr.
Auglýst skal eftir umsóknum eigi síðar en í júní mánuði. Rafrænum umsóknum skal skilað á vef Hinsegin daga, www.hinsegindagar.is, og skulu umsóknir afgreiddar í júlí.
Stjórn Hinsegin skipar dómnefnd Gleðigöngupottsins sem skal skipuð fulltrúum stjórnar hátíðarinnar og göngustjórnar gleðigöngu auk utanaðkomandi aðila. Dómnefndin fer yfir umsóknir og skilar stjórn Hinsegin daga tillögum að styrkveitingum. Stjórn Hinsegin daga skal fjalla um tillögurnar og staðfesta þær áður en styrkir eru veittir fyrir lok júlí mánaðar.
Veita skal framkvæmdafé úr Gleðigöngupottinum sem nemur öllu framlagi bakhjarla til sjóðsins en dómnefnd hefur þó heimild til að halda eftir að hámarki 200.000 kr. til veitingar hvatningarverðlauna að hátíð lokinni. Hvatningarverðlaun eru veitt einstaklingi eða hópi sem með eftirtektarverðum hætti vakti athygli á boðskap atriðis síns í Gleðigöngu Hinsegin daga. Óheimilt er að veita þeim Hvatningarverðlaun sem hlutu styrk úr Gleðigöngupottinum það árið.
5. gr.
Þeim sem njóta framkvæmdafjár úr Gleðigöngupottinum ber að skrifa undir samning þess efnis þar sem útlistað er hverjar skyldur og ábyrgð styrkþega eru.
Samþykkt af stjórn Hinsegin daga 26. júní 2017