Gleðigangan

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín.

Gleðiganga Hinsegin daga 2020

Gleðigöngurnar verða gengnar kl. 14:00 laugardaginn 8. ágúst 2020.

Gleðigangan mín

Gleðigangan hefur alltaf verið hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast hinsegin fólk í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum, vinum og stuðningsaðilum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem hæst ber hverju sinni. 

Við fögnum 20 ára afmæli göngunnar í ár.

Á þessum fordæmalausu tímum sem þrátt fyrir allt eru langt í frá fordómalausir. Gangan er enn mikilvægur liður í sýnileika, baráttu, gleði og stolti hinsegin fólks. Því er mikilvægt að gangan fari fram með einhverjum hætti, og það mun hún gera, þó innan þess ramma sem almannavarnir hafa gefið út.

Frá upphafi Gleðigöngunnar hafa einstaklingar og hópar skipulagt eigin atriði en munu nú einnig skipuleggja eigin gönguleið. Hver og einn getur rölt með sjálfum sér, vinum eða fjölskyldu, í hæfilega stórum hópum og með smitgát í fyrirrúmi.

Í stað þess að ganga frá Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti áleiðis að Hljómskálagarðinum fer Gleðigangan fram víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og um land allt!

Hluti hennar verður e.t.v. 5 manna hópur sem gengur upp Helgafellið, annar hluti par sem röltir meðfram Ægisíðunni, sá þriðji er fjölskyldan sem gengur meðfram Breiðholtsbrautinni, sá fjórði vinahópurinn sem röltir kringum Rauðavatn, sá fimmti vinnufélagar sem ganga Hafnarstrætið á Akureyri, sá sjötti áhöfnin sem stikar Fjarðargötuna á Seyðisfirði og svo framvegis, hvar sem þátttakendur vilja ganga saman, sýna stuðning sinn við réttindabaráttu hinsegin fólks og fagna fjölbreyttu samfélagi.

Gleðigöngurnar, í öllum sínum fjölbreytileika,  leggja af stað kl. 14 laugardaginn 8. ágúst.

Vonandi bera sem flestir regnbogafána eða skreyta sig regnbogalitum. Hægt verður að fylgjast með framgangi gleðiganga á hinum ýmsu miðlum, en þátttakendur verða hvattir sem aldrei fyrr til að deila reynslu sinni á samfélagsmiðlum.

Hópar verða jafnframt hvattir til að skrá sig hjá Hinsegin dögum, svo yfirsýn fáist yfir hverjir ganga hvar og að venju verða sem flest atriðin með skýr skilaboð er varðar veruleika hinsegin fólks á einn eða annan hátt. Hinsegin dagar hvetja ólíka hópa, sem tekið hafa þátt í göngunni undanfarin ár, til þátttöku, t.d. Intersex Ísland, Trans Ísland, BDSM Ísland, Samtökin ‘78 og Dragsúg.

Nánari upplýsingar verða veittar þegar nær dregur Hinsegin dögum, sem að venju eru haldnir í ágúst.

#glediganganmin #stoltskref #reykjavikloves #proudwalk #reykjavikpride2020

Nánari upplýsingar um gleðigönguna veitir: