Gleðigangan og lögreglan

Frá upphafi hefur verið þörf fyrir ýmis leyfi og undanþágur frá lögum og reglum svo framkvæmd Gleðigöngunnar sé möguleg. Þar má nefna leyfi til götulokana og undanþágu frá umferðarlögum svo aka megi gegn akstursstefnu og að farþegum sé heimilt að standa á ökutækjum í akstri. Sökum þessa er Hinsegin dögum skylt að starfa með ýmsum viðbragðsaðilum, þar með talið lögreglu.

Lögum samkvæmt er hlutverk lögreglu að gæta almannaöryggis. Þegar Gleðigangan fer fram felst það hlutverk m.a. í götulokunum og umferðarstýringu. Þá fer lögreglan á undan Gleðigöngunni til að ganga úr skugga um að gönguleið sé greið og að engin ökutæki aki gegn stefnu göngunnar. Þannig er leitast við að lágmarka slysahættu og koma í veg fyrir að ökutæki í göngunni þurfi að nauðhemla, enda standa óvarðir farþegar á pöllum margra þeirra.

Að öðru leyti er viðbragð og sýnileiki lögreglu meðan á göngunni stendur til samræmis við löggæslu á öðrum stærri viðburðum í miðborginni. Þeim viðbúnaði er stýrt af lögreglu, án sérstakrar upplýsingagjafar til skipuleggjenda Hinsegin daga.