Ljóðasamkeppni og Hýrir húslestrar snúa aftur

Hinsegin dagar blása til sinnar sívinsælu ljóðasamkeppni! Síðustu ár hafa stórkostleg skáld stigið fram og verk þeirra vakið verðskuldaða athygli. Öll eru hvött til þátttöku, hvort sem um er að ræða atvinnuskáld eða þau sem hingað til hafa eingöngu skrifað fyrir skúffuna. Sendið ykkar bestu ljóð á netfangið huslestrar@gmail.com fyrir 18. júlí. Úrslit úr ljóðasamkeppni verða tilkynnt á Hýrum húslestrum þann 8. ágúst og verðlaun afhent. Dómnefnd skipa Harpa Rún Kristjánsdóttir, Viðar Eggertsson og Anton Helgi Jónsson.

Hýrir húslestrar 2024

Bókmenntaviðburðurinn Hýrir húslestrar hefur verið vinsæll viðburður á dagskrá Hinsegin daga enda eru bókmenntir mikilvægur þáttur í menningu okkar. Skáld af ýmsum kynjum stíga á stokk, lesa úr útgefnum og óútgefnum verkum, bregða á leik og skemmta áhorfendum með textum af ýmsu tagi. Þá verða tilkynnt úrslit úr hinni æsispennandi ljóðasamkeppni Hinsegin daga 2024

Viðburðurinn fer fram á íslensku. Kynnir verður Bergrún Íris Sævarsdóttir.