Reglur um þátttöku í Gleðigöngu Hinsegin daga

Gleðigangan er gleði-, baráttu- og samstöðuganga hinsegin fólks og þeirra sem styðja hinsegin fólk og tilveru þeirra. Þátttaka fer fram í fyrirframskráðum hópum, en margir þeirra eru opnir fyrir þátttöku almennings. Þá er öllum heimilt að ganga gönguleiðina á eftir síðasta gönguhóp. Hópar skulu skrá sig í gönguna fyrir tilskilinn tíma. 

Þátttaka hópa

Hópar, formlegir eða óformlegir, sem styðja allt hinsegin fólk og málstað þeirra, geta sótt um þátttöku í göngunni. Athugið að formleg þátttaka einstaklinga og hópa í Gleðigöngu Hinsegin daga er alltaf háð samþykki Hinsegin daga. Hinsegin dagar áskilja sér rétt til þess að meta framgöngu umsækjenda, óska eftir frekari upplýsingum ef við á og hafna umsóknum, með eða án rökstuðnings eða sérstaks samtals við umsækjendur. 

Flokkur 1 – þátttaka heimil

Eftirfarandi hópum er almennt heimil þátttaka í Gleðigöngunni, skrái hóparnir atriði sitt fyrir tilskilinn tíma og uppfylli þátttöku- og öryggiskröfur:

  • Óformlegir hópar hinsegin fólks og aðstandenda þeirra
  • Formlegir hópar eða félög hinsegin fólks og aðstandenda þeirra, þ.m.t. hagsmunafélög Samtakanna ‘78, landssamtaka hinsegin fólks. 
  • Hópar sem falla í flokk 2 en hafa fengið leyfi til þátttöku á síðustu þremur árum. 

Athugið að þó hópum í flokki 1 sé almennt heimil þátttaka, þá áskilur stjórn Hinsegin daga sér rétt til að takmarka þátttöku einstaka hópa.

Flokkur 2 – þátttaka háð leyfi

Eftirfarandi aðilum er heimil þátttaka í Gleðigöngunni að undangengnum rökstuðningi fyrir þátttöku og/eða að fengnu sérstöku leyfi:

  • Almenn félagasamtök, svo sem mannréttindasamtök, stéttarfélög, lífsskoðunarfélög, æskulýðs- og ungmennafélög, sem vilja lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi sínum við allt hinsegin fólk innan sinna raða. 
  • Stofnanir eða byggðasamlög sem hafa með sérstökum hætti stutt við baráttu hinsegin fólks.
  • Formlegir eða óformlegir hópar embættisfólks, svo sem sendiherra eða stjórnmálafólks sem gengur í sameinuðum gönguhópum, svo sem sameinaðir hópar ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka, bæjarfulltrúar ákveðins bæjarfélags og svo framvegis. 
  • Hinseginrekin fyrirtæki sem hafa þjónustu við hinsegin fólk sem kjarnastarfsemi mega taka þátt með sérstöku leyfi Hinsegin daga. 

Stjórn Hinsegin daga áskilur sér rétt til að óska eftir frekari gögnum frá hópum í flokki 2 til að auðvelda mat á stefnum og viðhorfum er varða hinsegin fólk og hagsmuni þeirra. 

Flokkur 3 – þátttaka óheimil

Eftirfarandi hópum er ekki heimil þátttaka í Gleðigöngunni:

  • Fyrirtæki, önnur en þau sem kveðið er á um í fyrri upptalningu.
  • Einstakir stjórnmálaflokkar. Athugið að stjórnmálafólk má ganga undir sínum merkjum í sameiginlegum hópum þvert á flokka, en þá þarf að vera skýrt að hópurinn sé blandaður. Merki stjórnmálaflokka skulu vera lágstemmd og sem hluti af heildarbrag, en ekki yfirgnæfandi á nokkurn hátt. 
  • Hópar, félög eða stofnanir sem vinna gegn hagsmunum hinsegin fólks, svo sem með jaðarsetningu, mismunun, fordómum gegn hinsegin starfsfólki sínu, hinsegin þjónustuþegum, einstaka hópum innan hinsegin samfélagsins eða hinsegin fólki í heild sinni. 
  • Hópar sem taka þátt í gleðigöngunni á vafasömum forsendum, svo sem með háði gagnvart hinsegin fólki eða öðrum jaðarsettum hópum, þar með talið atriði sem byggjast á menningarnámi. Þetta á við um gæsa- og steggjahópa og aðra hópa þar sem þátttöku í göngunni er ætlað að niðurlægja þátttakandann sjálfan og þar með annað göngufólk. 
  • Aðrir hópar sem ekki falla í flokk 1 eða 2. 

Aðilum sem falla undir flokk 3 er frjálst að óska eftir því að fá mál sitt upp tekið hjá stjórn Hinsegin daga. Skal sú beiðni berast skriflega, ásamt rökstuðningi, fyrir 15. júlí árið sem Gleðigangan fer fram.