Omnom styður við ungmennadagskrá

Súkkulaðigerðin Omnom hefur um árabil stutt vel við Hinsegin daga, en ætlar í ár að bæta um betur og veita ungmennadagskrá Hinsegin daga sérstakan stuðning. Að því tilefni fór Ungmennaráð Hinsegin daga og skoðaði höfuðstöðvar Omnom á Hólmaslóð.

„Það sem þið eruð að gera er náttúrulega svo ótrúlega mikilvægt,“ sagði Hanna Eiríksdóttir Mogensen, markaðsstjóri Omnom í heimsókn ungmennaráðsins. Hún kynnti fyrirtækið og sögu þess, en Omnom sérhæfir sig í að gera súkkulaði frá grunni, þar sem ástríða er sett í hvert stig framleiðslunnar. „Við veljum að vinna með aðilum sem deila sömu gildum og við, og það á vel við um Hinsegin daga, sem við styðjum heils hugar,“ bætti hún við og fékk í kjölfarið kynningu á því góða starfi sem unga fólkið í ungmennaráðinu er að skipuleggja.

Ungmennaráðið skoðaði höfuðstöðvar Omnom
Margrét Ágústa var að vonum glöð með ísinn frá Omnom

Baka allt nema vandræði

Það verður ýmislegt í boði fyrir ungt hinsegin fólk á hátíðinni í ár. Spurningakeppni, tónleikar, grillhátíð og bíókvöld er meðal þess sem boðið er upp á og kökukeppnin verður á sínum stað, en hún naut mikilla vinsælda í fyrra. „Það má vel vera að Omnom-súkkulaðið leiki stórt hlutverk í kökukeppninni í ár, enda hágæðahráefni sem hver ungur bakari ætti að geta unnið eitthvað stórkostlegt úr,“ segir Margrét Ágústa Þorvaldsdóttir, en hún hefur umsjón með félagslegri dagskrá á hátíðinni í ár. Hún bætir við: „Þetta samstarf kemur sér feykivel fyrir okkur, enda kostar mikið að setja upp stóra hátíð. Við finnum fyrir bæði alúð og áhuga hjá Omnom, sem styðja okkur af heilum hug.“

Kökukeppni Hinsegin daga og Omnom fer fram í Iðnó, föstudaginn 11. ágúst kl. 12. Skráning og nákvæmari upplýsingar verða birtar á vef Hinsegin daga þegar nær dregur.