Ungmennadagskrá Hinsegin daga (Youth Pride)

Hinsegin dagar eru hátíðin okkar allra, hvernig sem við skilgreinum okkur, hvernig sem við klæðum okkur, af hvaða stétt sem við erum, hvort við erum ung eða gömul, garðyrkjufólk eða fjórhjólakappar, fyndna kvárið á vinnustaðnum eða óframfæra nýja týpan. Dagskráin verður þannig að vera fjölbreytt og höfða til alls konar fólks. Eitt af því sem hefur verið skipuleggjendum Hinsegin daga algjört keppikefli síðustu ár er að bjóða upp á dagskrá sem höfðar til ungs hinsegin fólks. Hópsins sem finnur hvað mest fyrir bakslaginu; viðbjóðinum sem viðgengst á TikTok og geltið úti á götu. Hópsins sem týndi mikilvægum árum í einangrun vegna heimsfaraldurs. Hópsins sem er öðrum kynslóðum fyrirmynd í framsækni, víðsýni og að vera þau sjálf. Því buðum við upp á sérstaka ungmennadagskrá í fyrsta skipti í fyrra – og nú endurtökum við leikinn!

Alla ungmennaviðburði má finna í dagskrá Hinsegin daga 2023. Til að sjá eingöngu ungmennaviðburði er einfaldast að velja flokkinn „Youth Pride“.

Unga fólkið á bak við tjöldin

Hópur af miðaldra stjórnarfólki er ekki endilega með puttann á púlsinum þegar að kemur að því að setja saman dagskrá fyrir unga fólkið. Því hefur í annað sinn verið kallað eftir framboðum í ungmennaráð Hinsegin daga; hóp ungs hinsegin fólks sem koma með hugmyndir að viðburðum og leiðum til að auka sýnileika ungs hinsegin fólks á Hinsegin dögum. Ráðið vinnur í nánu samstarfi við stjórn Hinsegin daga í Reykjavík, mótar hugmyndirnar og fær í lið með sér önnur ungmenni til að aðstoða við framkvæmd viðburða. Í ár buðu tólf skapandi og skemmtilegir einstaklingar sig fram til ráðsins og hafa þau varið sumrinu við að teikna upp fjölbreytta og áhugaverða ungmennadagskrá.