// Ávarp Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands á útihátíð Hinsegin daga 2024.
Kæra hinsegin fólk, aðstandendur, vinir og öll sem hér eruð saman komin.
Ég er hrærð yfir því að eitt af mínum fyrstu verkum sem forseti sé að ávarpa ykkur sem standið hér – saman – fyrir mannréttindum. Ég fyllist stolti yfir því að fá að vera hluti af þessari hátíð og njóta þannig þess heiðurs að eiga mögulega örlitla hlutdeild í réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi. Sagan er nefnilega stórmerkileg. Og fyrir okkur öll – til að draga lærdóm af. Við vitum sem er að mannréttindabarátta er oft blóði drifin. Og við skulum ekki líta undan eða láta eins og hinsegin fólk hér á landi hafi ekki þurft að þola mótlæti.
Saga þessarar réttindabaráttu er saga átaka. En með því að ramma baráttuna inn í gleði – ekki síst með sjálfri Gleðigöngunni – hafið þið lyft grettistaki, kæru vinir. Þið eruð í mínum huga lifandi skilgreining hugrekkis! Ég þekki engar hliðstæður eða fordæmi af jafn stórstígum framförum á sviði mannréttinda á jafn skömmum tíma. Þessir sigrar gætu þó virst þeim, sem yngri eru, sjálfsagðir. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi stórkostlega stund – hér og nú – væri ekki veruleiki okkar allra nema vegna hugrekkis og þrotlausrar vinnu óteljandi einstaklinga. Vinnu sem er ekki nándar nærri lokið. En við stöndum saman í dag til að undirstrika það rækilega að við ætlum að standa vörð um þau réttindi okkar allra að fá að vera til nákvæmlega eins og við erum. Og við munum ekki hvika. – Aldrei.
Og þá aftur að stoltinu. Því það er hinn rauði þráður Hinsegin daga. Ég er sjaldan stoltari af þjóðinni okkar en þegar ég fæ tækifæri til að segja sögu hinsegin fólks utan landsteinanna; það ótrúlega ferðalag, sem lagt var upp í, með vindinn í fangið þorra ferðarinnar. Ég leyfi mér að trúa því að langflestir Íslendingar hafi fundið í hjarta sínu óréttlætið sem fólst í mismunun fyrri tíma – og hafni þeirri mismunun sem enn á sér stað.
Afrekið sem við fögnum hér í dag felst meðal annars í því að sveipa baráttuna með fegurðinni í lífinu sjálfu; með gleði og fjölbreytileika. Þið leyfðuð okkur að stíga inn í ykkar heim og þannig stöndum við nú sameinuð gegn óréttlæti. Fólki er nefnilega eðlislægt að vilja gleðjast með öðrum; að fagna lífinu og margslungnum birtingarmyndum þess. Við njótum þess að sjá fólk dafna á eigin forsendum – sigla sína leið – seglum þöndum. Gleði og samkennd eru stórbrotnar tilfinningar sem stækka okkur sem manneskjur og um leið stækka þær samfélagið okkar. Það kunna að vera einföld sannindi en andstæðar tilfinningar á borð við hatur, beiskju og óvild í garð annarra tæra ekki bara þann sem ber þær í brjósti – heldur okkur öll. Gleði og samkennd eru nefnilega öflugasta verkfærið. Það hafið þið sannað. Og fyrir vikið vil ég segja: Takk. Takk fyrir ykkar rödd, fyrir ykkar kjark og fyrir það sem við höfum fengið að læra af ykkur.
Staðan í heimsmálunum er snúin. Mannréttindi eiga undir högg að sækja. Við þurfum á eldhugum og baráttujöxlum að halda. Og það er mín einlæga trú að við þurfum í þeirri baráttu að tileinka okkur hætti hinsegin baráttunnar á Íslandi. Að velja mýkt, í hörðum heimi. Að fagna því sem er ólíkt með okkur. Hvað er annars unnið með því að skipa okkur sífellt í andstæðar fylkingar? Við og hinir.
Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta spurning um afstöðu. Að koma auga á það sem sameinar okkur en ekki einblína á hitt sem kann að sundra. Og þar berum við öll – hvert og eitt okkar – ábyrgð. Ég trúi því að hlutverk forseta sé meðal annars að tala máli minnihlutahópa sem eru neyddir til að berjast fyrir sínum sjálfsagða tilverurétti. Ég mun standa við bakið á öllu hinsegin fólki og ég vil sérstaklega taka utan um hóp trans fólks í þessu samhengi.
Kæru vinir. Það er með þakklæti í hjarta sem ég vitna í orð Þorvaldar Kristinssonar. Töluna flutti Þorvaldur, fyrrverandi formaður Samtakanna ’78 og boðberi mannréttinda um árabil, í hugvekju í Fríkirkjunni 2010. Ég nefni ártalið því það er ekki lengra síðan réttur til fjölskyldulífs fyrir hinsegin fólk hafði loks verið jafnaður. Þorvaldur horfði yfir fullan kirkjusal af hinsegin fólki sem hafði beðið alltof lengi eftir þessari stund og sagði:
Ég á þá ósk ykkur til handa að þið megið taka virkan þátt í samfélagi manna hvern einasta dag og njóta þeirrar virðingar sem öllum mönnum ber, hvar sem þið komið og hvert sem þið farið. En gleymið því aldrei hvað það er dýrmæt gjöf að vera hinsegin og horfa á heiminn hinsegin augum. Megið þið eignast anda og kraft til að miðla þessu sérstaka augnaráði til annarra manna, kenna þeim að sjá veröldina frá því sjónarhorni sem móðir náttúra færði hommum, lesbíum og öðru hinsegin fólki í vöggugjöf af sínum alkunna rausnarskap.
Að lokum vil ég segja við ykkur öll: það er aldrei rangt að elska og það er aldrei rangt að vera þú sjálft. Lifi ástin! Gleðilega hinsegin daga!