Hýr táknmálstákn

HÖFUNDUR: SIGURGEIR INGI AUÐAR-ÞORKELSSON

Eftir að hafa tvisvar haldið nýyrðakeppnina Hýryrði var kominn tími á að beina sjónum að hinu opinbera málinu á Íslandi, íslensku táknmáli (ÍTM). Í anda fyrri samkeppna fékk hún nafnið Hýr tákn og var leitað að táknum fyrir orðin kvár, stálp, kynsegin og eikynhneigð. Orðin fjögur eiga það sameiginlegt að hafa orðið til á síðustu árum, mörg í gegnum Hýryrðakeppnina. Samkeppnin var haldin í samstarfi við málnefnd um ÍTM sem gerði tillögu að orðunum fjórum. Tekið var við tillögum á myndbandsformi, sem síðan voru endurtáknuð af ritara málnefndarinnar áður en tillögurnar bárust til dómnefndar, svo gætt væri fyllsta hlutleysis við valið á nýjum táknum.

Stálp er nýtt orð yfir barn, hliðstætt orðunum stelpa og strákur.

Dómnefndin er skipuð fulltrúa Félags heyrnarlausra, fulltrúa málnefndar um íslenskt táknmál og einstaklingi sem tilheyrir bæði hinsegin og döff samfélagin.

Dómnefnd var ánægð með þann fjöldi tillagna sem barst. Sigurtáknin fjögur voru valin þann 11. febrúar, á degi íslensks táknmáls, en hefð hefur skapast fyrir að úrslit Hýryrðanna séu tilkynnt á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.

Kvár er nýtt orð fyrir fullorðinn kynsegin einstakling, hliðstætt orðunum kona og karl.

Mordekaí Elí Esrason átti tvær af sigurtillögunum, fyrir orðin eikynhneigð og stálp. Sigurtillögu fyrir kynsegin átti Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Anna Guðlaug Gunnarsdóttir fyrir kvár.

Enn á eftir að koma fyllilega í ljós hvort táknin muni festa sig í  sessi í málinu en það breytir því þó ekki að bæði þáverandi formaður Samtakanna ´78 og formaður málnefndar ÍTM voru yfir sig ánægðar með samstarfið og það sem af því hlaust.

Mordekaí Elí átti tillöguna að tákninu fyrir eikynhneigð.

Samtökunum ´78 finnst mikilvægt að sýna í verki að þar eru öll velkomin, óháð líkamlegri getu, og að hinsegin fólk sé alls konar. Það er okkur mikilvægt að eiga í samstarfi við önnur samtök jaðarsettra hópa.

Tekið skal fram að höfundur kom að verkefninu sem starfsmaður Samtakanna ’78 og tilheyrir ekki döff samfélaginu.