// Felix Bergsson
Umræða um málefni trans fólks og kynsegin einstaklinga undanfarið á mörgum samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum hefur verið óvægin og ruddaleg. Þar hefur geisað stormur byggður á hatri og skorti á mannúð. Þessi stormur hefur líka rifjað upp gamla kvíðann sem mörg okkur upplifðu í þá daga þegar málefni homma og lesbía voru hvað mest til umræðu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Sérstaklega var sú óvægna umræða mörgum okkur erfið áður en við tókum skrefið og komum titrandi á beinunum út úr skápnum. Þetta var nefnilega umræðan sem festi okkur svo mörg í fjötrum eigin fordóma og sjálfshaturs því þetta var umræða byggð á hræðslu, vankunnáttu og botnlausum fordómum.
Oftast var talað um okkur en ekki við okkur. Sjálfskipaðir fræðingar ruddust fram og vissu allt um okkur „kynvillingana“, kynhegðun okkar, ástarlíf, meinta geðveiki, hvernig við smituðum hvert annað af óeðlilegum hugsunum, hvernig við lögðumst á börn, hversu takmarkaðar lífslíkur okkar væru vegna kynhneigðar okkar, hvernig guð hefði sent okkur HIV-veiruna til að refsa okkur, hvernig við gætum ekki verið fjölskylda og alið upp eðlileg börn og svo framvegis og svo framvegis. Orðin voru líka hættuleg. Sjálfsskipaðir verndarar tungumálsins spruttu fram. Það mátti ekki nota orðin „hommi“ og „lesbía“ í Ríkisútvarpinu, við máttum ekki kalla okkur „hjón“. Þar með vorum við að henda hinni gömlu stofnun, „hjónabandinu“, í ruslið. Við máttum bara ekki vera með! Það átti að halda okkur frá íþróttastarfi og tryggja að við færum ekki í sturtu með öðrum af sama kyni. Það átti að halda okkur frá opinberum embættum. Helst átti að loka okkur inni, læsa og henda lyklinum.
Er ekki merkilegt hvernig allar tilraunir undirokaðra hópa til betra lífs hafa í fyrstu verið barðar niður af hinum sjálfskipuðu sérfræðingum, fulltrúum yfirvalds og stjórnsemi? Við þekkjum öll þessi fáránlegu dæmi. Einu sinni máttu svartir ekki vera í sama almannarými og hvítir, máttu ekki taka sama strætó! Þeir voru eign hvíta mannsins, konur eign eiginmannsins. Konur eru enn að berjast fyrir fullum yfirráðum yfir eigin líkama! Einu sinni þóttu almenningssalerni fyrir konur hin mesta firra. Þær áttu bara að pissa í koppinn heima hjá sér. Konur máttu líka alls ekki hlaupa maraþon. Sérstaklega ekki ef karlmenn voru nærri. Og nú heyrum við svipað bull í opinberri umræðu, sérstaklega um trans fólk og kynsegin einstaklinga, manneskjur sem eru hreinlega að berjast fyrir lífi sínu. Sama bullið og aðrir undirokaðir einstaklingar þurftu að þola alltof lengi, já og þurfa jafnvel að þola enn!
Samt komum við nú flest út að lokum. Yfirgefum fúlan skápinn, göngumst við sjálfum okkur og förum að lifa eins og manneskjan sem við í raun og veru erum. Það er merkilegt ferli en til þess að það geti átt sér stað er mikilvægara en nokkuð annað að við finnum okkur lífsnauðsynlegar fyrirmyndir, fólkið sem við getum speglað okkur í og ekki síður að við finnum manneskjurnar sem styðja okkur. Í storminum sem nú geisar hugsa ég sérstaklega til trans fólks og kynsegin einstaklinga. Fólksins sem stendur upp og berst með kjafti og klóm. Hvað þau eru stórkostlega hugrökk að láta hjartað ráða för og hlusta ekki á úrtöluraddirnar. Hatrið í garð þeirra er á köflum gjörsamlega yfirgengilegt. Umræðan byggist á útúrsnúningi og lygum. Skorturinn á samkennd með öðrum manneskjum er algjör. Skömm þeirra sem leiða þessa umræðu er mikil. Orð þeirra og fordómar verða þeirra bautasteinn.
Þetta þekkjum við hommar og lesbíur vel á eigin skinni og því er svo nauðsynlegt að við stöndum í dag opinberlega og ákveðið með systkinum okkar í trans samfélaginu í þeirri baráttu sem þau eiga í. Við búum í dag við sterkari samfélagslega stöðu en nokkru sinni fyrr og við getum notað þekkingu okkar og afl til að styðja aðra í hinsegin samfélaginu. Þeirra barátta er okkar barátta. Þeirra undirokun er okkar undirokun. Þeirra sigur verður okkar sigur líka.
Þessi stormur gengur yfir en hann gerir það bara ef við stöndum saman, öll sem eitt.
Gleðilega Hinsegin daga
Höfundur er stoltur hommi, eiginmaður, pabbi og afi.