Vellíðan nemenda er grundvöllur að árangri þeirra í námi

Ábendingar frá hinsegin kennara

HÖFUNDUR: ARNA MAGNEA DANKS

Í skólastofum landsins starfa yfir 7000 kennarar, um 5300 í grunnskólum og 1800 í framhaldsskólum. Margir þeirra þekkja hinseginleikann vel og reynast góðir bandamenn, en einnig eru þeir kennarar til sem tala á þá vegu að hreinlega skaðlegt er gagnvart hinsegin nemendum og hinsegin kennurum og starfsfólki skólanna. Nýlega birti grunnskólakennari færslu á fésbókinni þar sem tekið var undir hatursfull sjónarmið Dr. Jordan Peterson gagnvart trans ungmennum og trans fólki. Eftir kvörtun og ábendingar brást KÍ við með yfirlýsingu þar sem tekinn er af allur vafi um að stefna KÍ er að virða og styðja hinsegin samfélagið og fordæma hatursorðræðu, fordóma og fáfræði innan veggja skólasamfélagsins. Fréttina má finna á síðu Kennarasambandsins.

A picture of a woman with pink lipstick in a flowery shirt

Arna Magnea Danks, leikkona, áhættuleikstjóri, kennari og aktívisti, hefur starfað sem grunnskólakennari í 17 ár, ásamt því að sinna stundakennslu í áhættuleik við Kvikmyndaskóla Íslands, LHÍ og Menntavísindasvið HÍ af og til frá árinu 2012. Hún deildi með okkur nokkrum grunnatriðum sem mikilvægt er fyrir kennara að hafa í huga í starfi sínu.

TÍU ÁBENDINGAR FYRIR HINSEGINVÆNNA SKÓLASTARF

1. Mikilvægt er fyrir skólasamfélagið að hlusta á og virða raddir hinsegin kennara og taka mark á þegar er verið að leiðrétta rangfærslur, benda á öráreiti, fáfræði og fordóma.

2. Ávallt að sýna nemendum sem koma út nærgætni, virðingu og hlusta á óskir nemenda um fornöfn. Enda skylda kennara og samfélagsins að hlíta samþykkt barnasattmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.

3. Sækja fræðslunámskeið á vegum Samtakanna ‘78 sem hluta af sí- og endurmenntun kennara.

4. Lesa sér til á viðurkenndum og opinberum síðum og bókum er fjalla um hinseginleikann, t.d. otila.is/

5. Alltaf, alltaf spyrja annan kennara, vin, ættingja sem tengist hinseginleikanum, ef þú ert í vafa um hvernig þú getir sem best stutt við hinsegin nemendur, foreldra og starfsfólk.

6. Ef trans/kynsegin nemandi vill nota annað nafn en viðkomandi fékk úthlutað, þá ber að virða tilfinningar og vilja nemandans. Enda kveður barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna skýrt á um rétt barna til að á þau sé hlustað og tilfinningar þeirra virtar.

7. Sýnið samstöðu í verki þegar nemendur, starfsfólk og/eða trans/kynsegin einstaklingar verða fyrir öráreiti, gaslýsingu, rangkynjun eða fordómum.

8. Þrýstið á ykkar skóla að innlima aðgerðaáætlun gagnvart einelti, áreitni og ofbeldi vegna hinseginleika í aðgerðaráætlunina um jafnréttismál.

9. Þrýstið á aukna fræðslu innan skólans, bæði með því að fá hinsegin kennara/nemendur/starfsfólk til að ræða við annað starfsfólk og nemendur, en ekki síst með því að fjölga þeim skiptum sem Samtökin ‘78 koma inn með fræðslu. Ekki er nóg að vera með fræðslu á 3-4 ára fresti fyrir nemendur og starfsfólk, þetta þarf að vera á hverju einasta hausti til að skila virkilegum árangri í baráttunni gegn fáfræði, fordómum og hatri.

10. Á undan allri menntun þarf að koma umhyggja, tilitsemi og virðing. Einungis ef barni líður vel er það tilbúið til að hlusta og læra. Tökum frá tíma til að ræða við nemendur um fjölbreytileika mannlegrar tilvistar og hlustum á raddir hinsegin nemenda þegar þau segja frá sinni upplifun. Á bakvið hugtakið menntun er mennskan og hana þurfum við að rækta á kærleiksríkan, umburðarlyndan og skilningsríkan máta, framar allri annarri menntun.