Við hittumst fyrst fyrir tæpum þrjátíu árum á fundi sem Samtökin ’78 héldu með hópi nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi. Þar sat hann, kurteis og málefnalegur, í jakkafötum með svart bindi – og bleikan augnskugga. Nokkrum árum síðar var hann orðinn öflugasti málsvari tvíkynhneigðra á Íslandi. Sigurbjörn býr nú í Danmörku með konu sinni Nönnu Georgsdóttur og Sól dóttur þeirra, og þar rifjaði hann upp liðna daga með mér eina dagstund.
Ég velti því stundum fyrir mér hvernig hún varð til þessi þörf, að ögra heiminum og reyna að standa með sjálfum mér. Kannski á ég allt þetta að þakka þeirri staðreynd að ég gekk í gegnum hræðilegt einelti í æsku. Ég er fæddur árið 1968 og ólst upp í Danmörku fyrstu ár ævinnar. Fjölskyldan fluttist svo til Íslands þegar var ég á áttunda ári og ég settist í Snælandsskóla í Kópavogi, í hóp krakka sem höfðu verið saman frá því þau voru sex ára. Þeim þótti ég skrýtinn. Ekki svo að skilja að ég talaði með hreim, þvert á móti talaði ég óvenju vandaða íslensku sem ég hafði lært af foreldrum mínum, var harðmæltur eins og mamma, og kunni alls ekkert íslenskt slangur. Það eitt nægði til að gera mig öðruvísi í augum krakkanna.
Tilraun til manndráps í Snælandsskóla
Ég hafði heldur engan áhuga á þeirra hugðarefnum, gat til dæmis engan veginn skilið hvað væri svona spennandi við íþróttir og smám saman jókst eineltið. Þegar ég var tólf ára leið mér hræðilega. Þann vetur bað söngkennarinn okkur einu sinni um að velja lag sem okkur langaði til að syngja og koma með tillöguna í tíma. Ég fékk mikið hrós frá kennaranum fyrir það hvað ég hefði sett mál mitt vel fram og útskýrt hvað mér þætti svona gott við lagið. Þá tók steininn úr og á heimleiðinni þennan dag var setið fyrir mér. Ég var laminn sundur og saman, ég missti meðvitund, með háræðasprengingar í augum og illa marinn á barkakýlinu eftir kverkatak strákanna í bekknum. Faðir minn læknirinn sá til þess að ég fór í rækilega skoðun og þar var kveðinn upp sá úrskurður að aðeins hefði munað hársbreidd að ég hefði verið drepinn. Þetta varð auðvitað stórmál og kom til kasta skólastjórans en þar var engan stuðning að fá. Hann sneri málinu á hvolf, spurði hvort ég gæti ekki látið minna fyrir mér fara því það væri greinilega eitthvað við mig sem storkaði fólki. Með þann dóm á bakinu þraukaði ég næstu árin.
Nakinn drengur á kletti
Og svo lá leiðin í Menntaskólann í Kópavogi. Það varð hans mikla happ því að fæstir af gömlu félögunum úr Snælandsskóla fóru í framhaldsnám. Í nýjum skóla var Sibbi óþekkt stærð.
Þessu fylgdi alveg ótrúlegt frelsi og nú braust hann út þessi vilji til að finna sjálfan mig og kveðja litlu mýsluna. Og ég kom út úr skápnum á þann hátt sem sextán ára strákur kunni best. Ég fór markvisst að senda heiminum mín skilaboð og varð „flamboyant“ svo um munaði. Einn daginn mætti ég í skólann með lakkaðar neglur, annan daginn með tvílitt hár og þann þriðja með gloss á vörum og bleikan augnskugga. Það merkilega var að þessu var tekið meðal krakkanna, þetta var um miðjan níunda áratuginn og ég féll á einhvern hátt inn í ærslin og ókyrrðina sem lá í loftinu. Stundum olli þetta fjaðrafoki á efri hæðum en þó keyrði um þverbak þegar við nokkrir strákar stofnuðum Pervertafélag Ingólfsskóla, PISK. Eina framtak félagsins var að búa til fyrstu síðu í dagatali með mynd af „dreng mánaðarins“ og auðvitað varð ég fyrstur fyrir valinu. Af mér voru teknar þessar fínu myndir þar sem ég sat nakinn uppi á kletti og síðan búið til plakat sem við hengdum upp á skólaganginum. Þá upphófst mikið fjaðrafok meðal sumra strákanna í skólanum, þeim fannst karlmennskunni ógnað og það varð til þess að Ingólfur skólameistari skipaði mannskapnum að fjarlægja myndina undir eins. Þar endaði félagsstarfið í PISK og næsti „drengur mánaðarins“ komst aldrei upp á vegg. En ég man að þetta voru flottar svarthvítar nektarmyndir!
Á þessum árum voru Samtökin ’78 fyrir löngu orðin sýnileg í samfélaginu, allir vissu af þeim og þau buðu upp á vandaða fræðslu og umræðufundi í framhaldsskólum. Fyrstu árin mín í menntaskóla var það reyndar átak að mæta á fund, og strákarnir mönuðu hver annan upp í alls konar fíflalátum til að geta látið sjá sig. Svo var sportið það að reyna að fíflast á fundunum. En þetta breyttist hratt þessi fjögur ár og síðasta veturinn minn í skólanum þótti sjálfsagt mál að mæta á þessa fundi. Nú vildu allir fá Samtökin í heimsókn.
Sparkað inn í Samtökin ’78
Í öllum þessum fíflalátum gerðist nokkuð sem hafði áhrif á líf mitt. Einn daginn barst mér umslag frá Samtökunum ’78, fréttabréf og gíróseðill og mér tilkynnt að ég yrði þar fullgildur félagi um leið og ég greiddi félagsgjaldið. Einhverjir spaugarar í vinahópnum höfðu skráð mig símleiðis og haldið sig vera að gera mér grikk. En ég tók tilboðinu, fór niður á Lindargötu 49 þar sem félagið var til húsa og greiddi mitt gjald. Þar var fólk alveg miður sín og ég margfaldlega beðinn afsökunar, svona lagað átti ekki að geta gerst. En ég þakkaði bara pent fyrir mig, hrekkurinn truflaði mig ekki meira en svo. Eiginlega má segja að mér hafi verið sparkað inn í Samtökin ’78!
Þar með var Sigurbjörn orðinn „einn af hommunum“. Brátt fór hann að blanda geði við fólk á vettvangi félagsins og það var „svolítið sjokk“ eins og hann orðar það.
Ég man að þegar ég kom fyrst inn í félagsmiðstöðina á fimmtudagskvöldi sat þar fyrir hópur af miðaldra mönnum sem stukku beinlínis á mig – ég var jú nítján ára. Og ég man hvað samkynhneigð var ógurlegt tabú fyrir mörgum. Fólk var að leggja bílum sínum niðri við Skúlagötu og laumast eftir krókaleiðum að húsinu og forðast svo að lenda í geislanum af næsta ljósastaur á leið inn í húsið. Þetta fannst mér skrýtið, en eftir á að hyggja er hollt að hafa fengið að kynnast þessum tímum og óttanum sem lá í loftinu. Þetta átti svo eftir að breytast ótrúlega hratt á næstu árum. Og áður en ég vissi af var ég kominn í ungliðahópinn og búinn að finna mér þennan fína kærasta.
En örlögin ætluðu Sigurbirni aðra leið. Kvöld eitt var hann staddur á veitingahúsi og við næsta borð sat stúlka með félaga sínum úr hópi hommanna sem Sibbi kannaðist við. Saman héldu þau svo öll í partí vestast í Vesturbænum og þar fengu gestirnir að gista í sófanum um nóttina. Stúlkan sem kúrði við hliðina á Sigurbirni hét Nanna og var förðunarfræðingur eins og hann.
Rændir sínum besta syni
Ég man að við löbbuðum heim um morguninn og stoppuðum á nokkrum kaffihúsum á leiðinni til að drekka te. Við höfðum um svo margt að tala. Þegar við kvöddumst vorum við orðnir vinir. Svo fórum við að hittast og smám saman urðu til sterkar tilfinningar sem hafa verið með okkur síðan. Þegar ég áttaði mig á því að ég var orðinn yfir mig ástfanginn af Nönnu þá fyrst fannst mér ég verða að draga andann djúpt. Tvíkynhneigð var ægilega viðkvæmt málefni innan Samtakanna ’78, alls staðar í kringum mig var fólk sem sagði að þeir sem kölluðu sig tvíkynhneigða væru bara að blekkja sig, þetta væru hommar og lesbíur sem ekki treystu sér til að koma úr skápnum. Eflaust var það brot af sannleikanum, sumir höfðu farið þá leið, en það var bara brot. Áður hafði Einar Þorleifsson talað opinberlega um tvíkynhneigð sína í Mannlífi árið 1986, en af því vissi ég ekki þá og hafði engar fyrirmyndir sem ég þekkti. Enn og aftur stakk ég í stúf við heiminn, ég hafði komið út sem hommi en varð svo að fara í hina áttina og játa það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég væri tvíkynhneigður.
Þetta kostaði mikið stríð. Ég fann fyrir mikilli reiði og í hópi hommanna var harður kjarni sem lagði bókstaflega fæð á Nönnu. Ýmsir muna Trixí sem nú er látinn. Það var hreinlega óbærilegt að hitta hann á götu. Hann ætlaði beinlínis í Nönnu og hún fékk að heyra það að hún hefði rænt hommaþjóðina sínum besta syni! Hún gat ekki komið á mannamót þar sem Trixí var staddur. En við áttum stuðning ungliðanna, þeim fannst þetta mál okkar Nönnu og voru ekkert að efast um tilfinningar okkar. Þetta var sárast fyrir þann sem ég hafði átt að kærasta nokkrum mánuðum áður. Þá kom þessi spurning: Voru þá tilfinningar þínar til mín bara blekking? En við fórum saman í gegnum sársaukann og erum nánir vinir í dag.
Átök og klofningur
Átökin færðust svo á stærri vettvang því að nú gerðum við ungliðarnir þá kröfu til Samtakanna ’78 að þau nefndu tvíkynhneigða í undirheiti félagsins. Málið bar nokkuð brátt að og við skiptumst í tvær fylkingar. Ég fékk að heyra það að verið væri að útvatna tilgang og markmið félagsins með þessari tillögu. Sjálfum fannst mér óskiljanlegt að hópur sem barðist svo hart fyrir réttinum til að staðfesta sig hvar sem væri sem samkynhneigðar manneskjur gæti haft svona harða afstöðu gegn tvíkynhneigðum. Það var mikil reiði í loftinu en minna um gagnleg skoðanaskipti og svo fór að tillaga ungliðanna um það að nefna tvíkynhneigða í heiti félagsins var felld á aðalfundi 1993. Ég sé ennþá þennan fund í móðu, ég var svo reiður, fannst ég hafa verið svikinn af hópi sem ég hélt að stæði með mér. Við þetta klufum við okkur út úr félaginu, ungliðarnir, og stofnuðum Félagið, félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra. Þetta var erfiður róður en við störfuðum þó í nokkur misseri og þar var ég formaður fyrsta árið.
Félagið var til húsa við Lindargötu, á efri hæð hússins sem hýsti ÁTVR og er nú horfið. Beint á móti stóð hús Samtakanna ’78 og það var lítið talast við yfir götuna næsta árið. En svo sameinuðumst við um kröfugöngu sumarið 1994 og þá um haustið minnir mig að flest í hópnum hafi aftur verið komin á vettvang Samtakanna ’78.
Ertu ekki eins og þeytispjald?
Á þessum árum mæddi mikið á Sigurbirni, hann var skýrasti og skeleggasti málsvari tvíkynhneigðra í íslensku samfélagi, rólegur og rökfastur svo eftir var tekið. Við hann voru tekin eftirminnileg viðtöl í stærstu tímarit landsins og hann kom iðulega fram á útvarpsstöðvum.
Það má eiginlega segja að ég væri fræðslufulltrúi þjóðarinnar um tvíkynhneigð á árunum 1993–96 og það gat verið þreytandi því að fólk ímyndaði sér allt mögulegt og ómögulegt um tvíkynhneigða, að maður væri tvíkynja, tvítóla eða hvað það nú heitir. Eða þá að maður gæti aldrei fest sig við einn eða neinn, að maður yrði að sofa í annað hvert skipti hjá karli og annað hvert skipti hjá konu. Oft fann ég bara til samúðar með fólki í allri þessari vitleysu, það ímyndaði sér að það hlyti að vera svo ógurlega rótlaust líf að vera tvíkynhneigður, að maður væri alltaf eins og þeytispjald í leit að kynlífi.
Ég tók þann pól í hæðina að neita að tala um tvíkynhneigð á forsendum hinna, neitaði að líta á kynlífið sem upphaf og endi ástarlífsins. Mér fannst það mikilvægast við tvíkynhneigðina að geta tengst fólki tilfinningalega og erótískt hvert svo sem kynið væri. Þetta kom flatt upp á fólk því að allt var sexúalíserað í botn. En ég fór sömu leið og þau sem áður höfðu frætt þjóðina um samkynhneigð, að við værum umfram allt að tala um tilfinningar og hæfileika okkar til að elska.
Á þessu voru fleiri hliðar sem margir þekkja vel sem hafa orðið að tala máli hópsins. Í mig hringdu karlmenn héðan og þaðan af landinu og ræðan var oftast sú sama: „Ég er líka tvíkynhneigður en ég er ekki búinn að segja konunni minni frá þessu. Eigum við ekki að hittast?“ Ég fór og hitti þessa menn en komst að því að þeir vildu bara að hoppa upp í rúm með mér. Það var nú ekki í boði, en seinna áttaði ég mig á því að ég hafði gefið sumum þeirra kjark til að játa það opinskátt að þeir væru tvíkynhneigðir.
The Christmas Carols
Hispursleysi Sigurbjarnar átti eftir að leiða hann lengra. Hann fór að koma fram sem draggdrottning og það ævintýri varð til „heima í stofu“ þar sem Nanna farðaði unnusta sinn af mikilli kunnáttu. Upphaf þess arna var fegurðarsamkeppni sem nokkrir strákar efndu til sumarið 1991 og var haldin á Moulin Rouge við Hlemm sem þá var heitasti vettvangur samkynhneigðra og tvíkynhneigðra. Þar var Sigurbjörn Ungfrú Snæfells- og Hnappadalssýsla og tiltækið vakti slíka athygli að það var endurtekið ári síðar og þá sem alþjóðakeppni. Þar var Sibbi í vanþakklátu hlutverki Beatrice van der Staat Transvaal, fulltrúa Suður-Afríku. Það var þegar átökin um aðskilnaðarstefnuna risu hæst. Og brátt varð til kvartettinn The Christmas Carols.
Þetta vorum við Páll Óskar Hjálmtýsson, Ingi Rafn Hauksson og Maríus Sverrisson en Margrét Pálmadóttir, mamma Maríusar, æfði okkur. Við tróðum upp á Moulin Rouge og fengum síðan tilboð um að koma fram við alls konar tækifæri. Ég gleymi því aldrei þegar við stóðum uppi á palli í rauðum pallíettukjólum þar sem verið var að vígja nýbyggingu barnadeildar á Landspítalanum. Þarna var ríkisstjórnin mætt og Vigdís forseti. Mikill kliður var í salnum, við áttum að fara að syngja en enginn til að kynna okkur. Þá gerði Páll Óskar sér lítið fyrir og öskraði svo undir tók í öllu: „Þegiði!“ Ég held ég hafi aldrei á ævinni skammast mín eins hræðilega, að drengurinn skyldi voga sér að segja forsetanum og ríkisstjórninni að þegja. Eins og svo oft í lífinu gekk Palli hreint til verks – og svo sungum við.
Sprungin vör og blóðnasir
Nú hófst merkilegt ævintýri sem tengdist Moulin Rouge. Einn úr okkar hópi, Gísli Hafsteinsson, kom þessum stað á laggirnar og þá gerðist það líklega í fyrsta sinn í Íslandssögunni að hommar, lesbíur og tvíkynhneigðir urðu dálítið smart! Það þótti flott að fara þangað. Ég skemmti þar um hverja helgi með félögum mínum og það varð sterkari reynsla en mig hafði grunað. Ég bjó á Grettisgötu og farðaði mig stundum heima, þá gat Nanna líka hjálpað mér til að fullkomna verkið. En það kostaði sitt. Oftar en einu sinni lenti ég í því að að ókunnugt fólk réðst á mig úti í búð með orðum eins og „Hvað ert þú að gera hérna, viðbjóðurinn þinn!“ Nokkrum sinnum var á mig ráðist á leiðinni niður á Moulin Rouge og ég laminn. Ég man eitt kvöld þegar ég lenti í strákagengi á Laugavegi á leiðinni niður á Moulin Rouge, búinn að mála mig en ekki kominn í dressið. Ég mætti á staðinn með sprungna vör, blóðnasir og útgrátinn farða og ég man hvað ég var vonlítill þetta kvöld um allt það góða í tilverunni. En upp á svið skyldi ég fara, það kom aldrei til greina að fara að klúðra fjörinu.
Þetta var ekkert einsdæmi. Svo mörg af þeim sem fædd eru á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar, og fram á þann áttunda, voru þau sem tóku slaginn í sögu okkar og fengu að kenna á því. Það var mikil heift í fólki í þá daga og ekki auðvelt að vera út úr skápnum í Reykjavík á þessum árum. En veröldin var líka lagskipt hvað viðhorfin snerti, eitt var að ögra í tiltölulega vernduðu umhverfi í menntaskóla, annað að mæta lífinu úti í búð, hvað þá í miðbænum um miðja nótt. En að standa með draggsjóvunum okkar og troða stundum upp með bólgna vör og þrútinn kjálka, þetta var eins og besta þerapía hjá sálfræðingi. Að standa á sviði í kjól, fyrir framan ríkisstjórnina eða á Moulin Rouge, það hjálpaði mér til að átta mig á því hver ég væri. Og smám saman eignaðist ég einhverja djúpa sjálfsþekkingu sem hefur dugað mér síðan. Kjarni málsins er kannski bara sá að þarna fór ég í gegnum það sem allir verða að reyna, að standa með mínum innsta manni. Það gerði þetta líka svo sjálfsagt að Nanna stóð með mér án þess að depla auga. Meðal annars fórum við í viðtal við tímaritið Nýtt líf þar sem tekin var þessi fína fjölskyldumynd af okkur og Sól dóttur okkar – og á milli okkar situr Fríða Johansen sem var mitt alter ego á þessum árum.
Hvað er ein Fríða á milli hjóna? Draggið entist Sigurbirni lengi og hann hélt áfram að troða upp þótt Moulin Rouge yrði að engu. Hann skemmti á diskótekum og tískusýningum og þjálfaði tískusýningarfólk – kenndi meðal annars stelpum að ganga á háum hælum – en sneri sér loks alfarið að förðuninni. Árið 2001 fluttist fjölskyldan til Danmerkur og þar hafa þau Nanna starfað síðan.
Gjafir kynhneigðanna
Eftir á að hyggja hefði ég ekki viljað vera án neins af því sem ég gekk í gegnum. Mér finnst ég hafa sigrað í lífinu og fengið flest það sem ég sóttist eftir. Þannig hefði mér ekki liðið ef ég hefði læðst með veggjum og afneitað tilfinningum mínum. Eiginlega er það mikil gjöf að hafa fengið að rúma allar þessar tilfinningar þótt það væri ekki beinlínis auðvelt í gamla daga.
Þegar Nanna og Sigurbjörn festu ráð sitt fékk hann oft að heyra það á árum áður að nú væri hann „orðinn gagnkynhneigður“ og ætti þá bara að þagna um þau mál sem á honum brunnu. En þannig hefur Sibbi aldrei litið á málin, kynhneigðirnar eru hans stóra gjöf, og hann leggur rækt við sína gömlu vini í hópi hommanna og menningu þeirra. Og lætur sig varða baráttuna fyrir betra lífi okkar allra.
Það hefur margt gott gerst í hreyfingum okkar síðustu áratugi og ný hugtök fæðst. Í dag skilgreini ég mig sem pansexúal, ég hrífst jafnt af konum og körlum, transfólki af báðum kynjum og fólki sem skilgreinir sig sem intersex. Til allrar hamingju hafa nú þessir hópar tekið höndum saman. Það felst í því ótrúlegur styrkur sem við vorum lengi að koma auga á. Og ég hef aldrei týnt áhuganum á baráttunni þótt ég lifi sjálfur ósköp friðsælu lífi núna. Ég hef upp á síðkastið verið að reyna að vekja áhuga fólks á baráttu hinsegin fólks í Rússlandi, reynt að safna saman stuðningshópi á Netinu til að „ættleiða“ unglinga í Austur-Evrópu sem eiga erfitt vegna kynhneigðar sinnar eða kynvitundar. Það gengur erfiðlega, fólki finnst hugmyndin góð en skortir viljann til framkvæmda. Þó að líf okkar sem erum hinsegin hér á Norðurlöndum sé með því besta sem þekkist þá er baráttunni ekki lokið og við verðum að taka okkar hluta af ábyrgðinni. Það eitt er nógu hræðilegt að nú er terrorinn í Austur-Evrópu beinlínis ríkisrekinn. Það var hann þó aldrei á Íslandi og á því er stór munur.
En ég horfi ekki fram hjá því góða sem gerist í kringum mig. Það er til dæmis eitthvað ótrúlega sterkt og fallegt við það að dóttir okkar Nönnu hefur bæði komið heim með kærasta og kærustu og það þykja engin stórtíðindi á okkar bæ. Hún fær sitt rými til að leita að því lífi sem hún vill lifa án þess að neinn þrýsti á um að hún skilgreini sig eitt eða annað.