Hinsegin myndlist á Íslandi

Hinsegin myndlist á Íslandi 1983 – 2019 með Dr. Yndu Gestsson. Hinsegin listasagan á Íslandi í tengslum við Samtökin ´78 er stutt og nær aðeins aftur til ársins 1985 þegar fyrsta myndlistarsýningin var haldin í húsakynnum samtakanna.

Þetta erindi fjallar um þætti sem tengjast þessari sögu, listumræðunni hérlendis á þessu tímabili og hvort umræðan tengist hinsegin myndlist erlendis. Byggt er á rannsókn sem fram fór í tengslum við sýninguna Út fyrir sviga: Myndlist og Samtökin ´78 sem nú stendur yfir í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík.

Þau sem ætla að hlusta á erindið eru hvött til að skoða sýninguna áður.


Fræðsluviðburðir á Hinsegin dögum 2019 eru haldnir í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Á Þjóðminjasafninu má finna Regnbogaþráðinn sem er hinsegin vegvísir í um sýninguna Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár. Í vegvísinum er fjallað um hinsegin sögu á Íslandi með það að markmiði að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar.

Þjóðminjasafn Íslands býður gestum á viðburðum Hinsegin daga á safninu 25% afslátt af aðgöngumiða að safninu og þar með að Regnbogaþræðinum, með eða án hljóðleiðsagnar,1.500 kr. í stað 2.000 kr. Sjá nánar um Regnbogaþráðinn hér.