Hinsegin dagar eru borgarhátíð Reykjavíkur 2020-2022

Hinsegin dagar hafa verið valdir sem ein af borgarhátíðum Reykjavíkur til næstu þriggja ára. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar á mánudag en fyrir fundinum lá tillaga faghóps sem metið hafði þær umsóknir sem bárust.

Þetta er í annað sinn sem Hinsegin dagar fá sérstakan þriggja ára borgarhátíðarsamning við Reykjavíkurborg en fyrri samningurinn var fyrir árin 2017-2019. Nýr samningur tryggir Hinsegin dögum tíu milljóna króna fjárframlag frá borginni auk annars stuðnings og samstarfs sem er þriggja milljóna króna hækkun frá fyrri samningi.

Í greinargerð faghópsins segir meðal annars:

„Hinsegin dagar er einstakur viðburður; mannréttinda- og menningarhátíð sem fagnar sýnileika og baráttu hinsegin fólks á Íslandi. Hinsegin dagar er hátíð sem sannarlega styrkir ímynd Reykjavíkur sem mannréttindaborgar, og uppfyllir þess utan öll skilyrði sem sett voru í reglum um borgarhátíðir.“

Aðrar hátíðir sem hljóta borgarhátíðasamning að þessu sinni eru Hönnunarmars, Iceland Airwaves og RIFF sem einnig fá tíu milljónir á ári auk Myrkra músíkdaga og Reykjavík Dance Festival sem hljóta fimm milljónir.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga:

„Við í stjórn Hinsegin daga erum að vonum glöð með þessar fréttir og viljum nota þetta tækifæri til að þakka Reykjavíkurborg velvild og gott samstarf á síðustu árum. Hækkað fjárframlag til næstu þriggja ára er afar mikilvægt fyrir áframhaldandi þróun hátíðarinnar en er um leið dýrmæt staðfesting á því góða starfi sem sjálfboðaliðar Hinsegin daga hafa unnið á síðustu 20 árum.“


Nánari upplýsingar: