Anna K. Kristjánsdóttir er óumdeildur brautryðjandi í málefnum trans fólks á Íslandi en hún var í mörg ár eina trans manneskjan sem kom fram opinberlega hér á landi og tjáði sig um málefnin og persónulega reynslu sína. Hér ræðir hún við Ástu Kristínu Benediktsdóttur um lífið, söguna, baráttuna, kynslóðaskiptin og léttinn sem fylgir því að vera ekki lengur eina trans manneskjan í þorpinu.
Ég áttaði mig á því hver ég var þegar ég var smákrakki en eins og gefur að skilja var ekki nokkur leið að gera neitt í því lengi vel. Ég var orðin fimmtán, sextán ára þegar ég heyrði fyrst af því að leiðréttingaraðgerðir hefðu verið gerðar á fólki og þá leit ég á það sem mjög fjarlægan draum. Ég fór svo seinna á sjó og í siglingum úti í heimi hitti ég trans fólk. Árið 1974 rakst ég til dæmis á krá suður í Genúa á Ítalíu þar sem trans fólk hittist en ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara þangað inn. En svo var ég hluta úr sumri í Hamburg árið 1983 og aftur árið 1987 og þar stundaði ég trans krá en var í felum gagnvart skipsfélögunum. Á þessum tíma fór ég einnig í gegnum misheppnað hjónaband og eignaðist þrjú börn en skildi árið 1984.
Glíman við geðlæknana
Hvenær reyndirðu fyrst að koma út úr skápnum?
Árið 1984 reyndi ég fyrst að sækja mér aðstoð. Þá voru til geðlæknar sem voru til í að rannsaka mig en enginn vildi í raun hlusta á mig. Læknirinn sem ég fór til var staðráðinn í að lækna mig af þessari vitleysu en kom aldrei fram með neina lausn. Dag einn mætti ég síðan í viðtal en þá var hann ekki við og hafði ekki skilið eftir nein skilaboð – hann hafði gefist upp á mér!
Haustið 1987 braut ég svo á mér öxlina og hætti til sjós og fór í öldungadeild MH til að klára nám sem ég var byrjuð á. Þar ræddi ég við námsráðgjafa, Sölvínu Konráðs, og hún var fyrsta manneskjan sem hafði skilning á mínum málum. Hún aðstoðaði mig næstu tvö árin á eftir, til dæmis við að ræða við geðlækna. Einn þeirra vildi láta leggja mig inn til að skoða mig betur en ég get ekki séð hvað ætti að koma út úr því og harðneitaði. Seinna frétti ég svo af því að trans strákur sem leitaði sér aðstoðar hér heima á þessum árum hefði verið lokaður inni á geðdeild.
Leitaði til Svíþjóðar
Á þessum tíma var ég algjörlega ein. Ég frétti reyndar af íslenskri konu sem fór í aðgerð í Noregi árið 1989 og kom til Íslands þá um sumarið. Við hittumst meðan hún dvaldi hér heima og vorum í ágætis sambandi eftir það en hún kom aldrei fram opinberlega. Neikvæðnin hér heima var mjög mikil og aðgerðaleysið í heilbrigðiskerfinu algjört svo ég sá mér ekki fært að búa hér og flutti til Svíþjóðar haustið 1989.
Fórstu út með það í huga að fara í leiðréttingarferli?
Að sjálfsögðu. Það var aðaltilgangurinn. Formlega gaf ég reyndar upp að ég væri að fara út til að setjast þar að og vinna – sem ég gerði. En aðalástæðan fyrir því að ég fór var sú að þarna úti var, og er enn, í gildi norrænn sáttmáli um félagslegt öryggi og samkvæmt honum átti ég að eiga sama rétt á læknisþjónustu í Svíþjóð og sænskir ríkisborgarar. Þetta gekk reyndar ekki eftir og ég komst ekki í neitt ferli strax. Það gekk á alls konar ævintýrum áður en það gekk upp og ég gat loks lokið leiðréttingarferlinu árið 1995.
Félagið Benjamin
En þarna komstu í félagsskap sem hefur væntanlega skipt miklu máli?
Já, það var mjög mikilvægt fyrir andlegu hliðina. Þarna var starfandi félagsskapur fyrir transsexúal fólk sem hét Föreningen Benjamin og þar var ég virk öll árin sem ég var í Svíþjóð.
Í Föreningin Benjamin ríkti mikil nafnleynd þegar ég gekk í félagið og aðeins þrír aðilar höfðu aðgang að nafnaskrá félagsins; formaðurinn, gjaldkerinn og ritarinn. Margir félagar og jafnvel stjórnarmeðlimir notuðust við dulnefni og það var ómögulegt að sækja um styrki því það mátti ekki gefa styrkveitendum upp neinar upplýsingar um félagsmenn. Þetta var dálítið broslegt á köflum því leyndarhyggjan var algjör en nokkrir félagar, þar á meðal ég, voru mjög gagnrýnir á þennan feluleik.
Svo gerðist það að upp kom frægt glæpamál í Svíþjóð þar sem hinn svokallaði Lasermaður gerði skotárásir á þeldökka innflytjendur. Það greip um sig mikil hystería þegar trans manneskja var tekin í yfirheyrslu og alsaklaus grunuð um að vera Lasermaðurinn. Þetta kom í blöðunum og allt varð vitlaust, málið snerist við og trans fólk fór að verða fyrir aðkasti frá þeldökkum. Þá áttum við von á að eitthvað heyrðist frá stjórn Benjamins en það kom ekki orð. Þau voru þvert á móti fyrst til að hlaupa í felur.
Þetta gerði að verkum að á næsta aðalfund, vorið 1994, mætti bara ein manneskja úr stjórn með þau skilaboð að stjórnin segði af sér. Á endanum var ég kosin formaður og þar sem ég hafði gagnrýnt fráfarandi stjórn svo mikið fyrir feluleikinn var auðvitað eitt af því fyrsta sem ég varð að gera að koma út úr skápnum.
Andlit trans fólks í Svíþjóð
Þú hefur sem sagt farið út til að fara í leiðréttingarferli en lendir svo í því að verða talskona trans fólks í Svíþjóð. Það hefur varla verið planið í upphafi?
Nei, alls ekki. Þetta varð til þess að ég varð hálfgert andlit trans fólks í Svíþjóð á þessum tíma. Það birtust mörg viðtöl við mig bæði í blöðum og sjónvarpi. En félagið Benjamin efldist mjög og félögum fjölgaði úr 49 í 130 á þeim tveimur árum sem ég var formaður. Við vorum með reglulega fundi í hverjum mánuði og fórum líka út fyrir Stokkhólm og vorum með viðburði í öðrum borgum. Við héldum líka stífa fundi með heilbrigðisyfirvöldum og tókst að ná mjög vel utan um þau mál. En svo sagði ég af mér áður en ég flutti heim árið 1996.
Leyndarhjúpurinn á Íslandi
Hvernig var að koma heim; búin með leiðréttingarferlið og með alla þessa reynslu á bakinu?
Viðhorfið gagnvart trans fólki var mjög neikvætt. Ég mældi göturnar atvinnulaus í sex vikur; fólk vildi bara ekki vita af mér. Óþægilegast var samt þegar fólk sneri sér við á götu og starði á eftir mér. Ég hafði verið í umræðunni hér heima líka, eins og í Svíþjóð, og um leið og það fréttist að ég væri flutt heim voru allir duglegir við að fylgjast með mér og glápa. Eftir þessar sex vikur fékk ég afleysingapláss á skipum Hraðfrystihúss Eskifjarðar en fékk svo starf hjá Hitaveitu Reykjavíkur seint um haustið og vinn enn hjá Veitum, arftaka gömlu Hitaveitunnar.
Hér heima var sama staða og í Svíþjóð; fólki var sagt að þegja ef það ætlaði að ná árangri í nýju kynhlutverki og leyndarhjúpurinn var algjör. Ég var eina trans manneskjan sem hafði komið fram opinberlega undir nafni á Íslandi en ég vissi um nokkrar í felum. Á árunum 1997–2003 fóru þrjár manneskjur í leiðréttingaraðgerð hér heima og svo var hópur af fólki sem hafði farið í aðgerðir erlendis. En þeim var öllum sagt að halda þessu fyrir sig. Ung trans manneskja fékk á þessum tíma aðstoð hjá íslenskum lækni en hann setti henni skilyrði og sagði að daginn sem hún tjáði sig opinberlega væri samstarfi þeirra lokið – hún mætti ekki verða eins og þessi Anna. Viðkomandi fór auðvitað beint í felur. Auk þessa ber að nefna Ómel sem vissulega er trans og var opin um sín mál en hún var bara ekki tekin alvarlega af samfélaginu á þeim tíma.
Eina trans manneskjan í þorpinu
Í heilan áratug, frá 1996 til 2006, var ég nánast ein í sviðsljósinu. Ég þurfti ein að standa í öllu, því allir hinir voru í felum, og þola neikvæðni og jafnvel minni háttar barsmíðar þegar enginn sá til. Svo breyttist það þegar Anna Jonna [Ármannsdóttir] kom heim frá Færeyjum. Ég notaði tækifærið þegar fjölmiðlar sóttust eftir viðtölum í tengslum við fyrirlestur Susan Stryker í Reykjavík í mars 2006 og fékk Önnu Jonnu til að fara í viðtal í stað mín. Þar með var ég ekki lengur „the only trans in the village“.
Eftir þetta fóru hjólin að snúast, Samtökin ‘78 voru að opnast fyrir trans fólki og í febrúar 2007 var haldinn fyrsti undirbúningsfundurinn fyrir stofnun félagsins Trans Ísland. Þangað mættu um 15 manns. Formlegur stofnfundur var svo haldinn í apríl en þá var ég á kafi í vinnu með Transgender Europe svo ég tók þá afstöðu að standa utan við stjórn Trans Íslands. Það var eiginlega ætlast til þess að ég yrði formaður en ég afþakkaði það og Anna Jonna varð fyrsti formaðurinn.
Í stjórn Transgender Europe
Geturðu sagt okkur meira frá Transgender Europe og starfi þínu þar?
Ég fór ásamt Ástu Ósk Hlöðversdóttur á stofnfund samtakanna í Vínarborg haustið 2005 og sat í stjórn fyrstu árin. Til að byrja með voru haldnir fjórir til fimm fundir á ári en það voru engir peningar til svo við þurftum að borga ferðir og annað úr eigin vasa. Fyrir annað þingið vorið 2008 tilkynnti ég úrsögn mína úr stjórn því ég hafði ekki efni á þessu lengur. En á því þingi komu skilaboð frá Evrópusambandinu um styrkveitingar og síðan þá hefur félagið verið rekið þannig að stjórnin komi nokkurn veginn skaðlaus út úr því. Ég var svo skoðunarmaður reikninga í nokkur ár á eftir og fylgdist með félaginu vaxa.
Þessi félagsskapur er aldeilis búinn að sanna sig. Sjö árum eftir að félagið var stofnað var rekstur þess farinn að velta hundruðum þúsunda evra og síðast þegar ég vissi voru starfsmenn félagsins um tugur. Þetta er mjög mikilvægur vettvangur. Þau vinna náið með Evrópusambandinu og ILGA og hafa tekið að sér ýmis verkefni eins og skráningu á hatursglæpum gegn trans fólki.
Barátta fyrir lagasetningu
Hver voru helstu baráttumál Trans Íslands til að byrja með?
Að koma á einhverri lagasetningu um réttindi trans fólks og breyta afstöðu heilbrigðiskerfisins. Það var til dæmis engin aðgerð framkvæmd hér heima frá 2003 til 2009 og það var að hluta til út af neikvæðni hjá heilbrigðisyfirvöldum.
Fyrstu lögin [lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda] voru sett árið 2012 og á þeim tíma vorum við fremst á Norðurlöndunum í þessum efnum. Þau eru nú þegar orðin úrelt en svona lagað byggist bara upp sem ferli. Þú étur ekki allan kjötbitann í einu lagi. Þetta verður að fá að þróast áfram og núna er kominn tími á að taka næsta skref.
Eitt skref í einu
Í vinnunni við lögin ræddum við mikið að bæta þriðja kynjavalmöguleikanum inn í íslensk vegabréf. Það stóð í rauninni ekkert í vegi fyrir því að þetta væri hægt en það eina sem við óttuðumst var að ef þetta yrði sett inn í frumvarpið myndi það vekja of mikla neikvæðni á þinginu og frumvarpið kæmist ekki í gegn. Það er sannarlega ástæða til að berjast fyrir þessu en það verður að taka eitt skref í einu.
Það sama á við um að losna við sjúkdómsstimpilinn; að „kynáttunarvandi“ sé skilgreindur sem sjúkdómur. Ástæðan fyrir því að við lögðum enga áherslu á að reyna að fá þessu breytt var einfaldlega að á þessum tíma var kreppa, það var verið að skera niður á öllum sviðum og við óttuðumst að ef transsexúal yrði tekið út af geðsjúkdómaskrá yrði lokað á allar aðgerðir. Þegar þessu atriði verður breytt þarf að koma einhvers konar vernd í staðinn.
Í öðrum löndum hefur þetta verið leyst að hluta til með því að leyfa fólki að breyta kyni í þjóðskrá án þess að það þurfi sjúkdómsgreiningu. En samhliða þessu hef ég heyrt að til dæmis í Danmörku hafi myndast aukin neikvæðni gagnvart leiðréttingaraðgerðum, svo þetta er ekki einfalt mál.
Gjörbreytt umræða og sýnileiki
Gríðarlega margt hefur breyst á aðeins tíu árum; stór hluti af ungliðum Samtakanna ‘78 eru trans og kynsegin og umræða um þessi málefni hefur stóraukist. Hvað gerðist eiginlega?
Þörfin fyrir sýnileika hefur alltaf verið fyrir hendi en það vantaði andlit fyrir hópinn og það vantaði félagsskap. Um leið og þetta er komið fer fólk smám saman að koma út úr skápnum og samfélagið byggist upp. Til að byrja með voru til dæmis engir trans strákar tilbúnir að koma fram opinberlega. Ein aðalástæðan var sú að þeir höfðu ekkert andlit hérna heima. Nú er kominn nokkuð stór hópur af fólki sem er andlit trans fólks á Íslandi og það er stærsta breytingin, finnst mér.
Fólk veit líka miklu meira í dag en það vissi þá. Umræðan hefur gjörbreyst og hugmyndir fólks um trans fólk líka. Leyndarhjúpurinn var versti óvinur okkar. Þegar ég byrjaði að blogga fyrir mörgum árum síðan heyrði ég til dæmis að fólk hefði verið hissa á því að ég gæti skrifað því það hélt að ég væri bara eitthvert fífl. Þetta var almenna viðhorfið. Það var litið á okkur sem eins konar rugludalla.
Búin að afhenda keflið til næstu kynslóðar
Nú er komin fram ný kynslóð og áherslur í transbaráttunni hafa breyst. Hvað finnst þér um það?
Það er eins með transmálefni og allt annað í íslensku samfélagi á síðustu áratugum; þetta er bara þróun. Nú er lögð aukin áhersla á ýmislegt annað en transsexúal fólk og það er bara eðlilegt. Við verðum að leyfa ungu kynslóðinni að taka við; það veitir ekki af því. Ég er komin á þann aldur að ég er farin að draga mig út úr þessu. Ég lít svo á að mínum þætti sé að mestu leyti lokið og er búin að afhenda keflið til næstu kynslóðar. Nú sný ég mér að öðrum hlutum.