Ég trúi á frelsi fólks. Ég trúi á frelsi fólks til að njóta virðingar og réttinda til jafns við alla aðra. Ég trúi á tjáningarfrelsi og trúfrelsi og það frelsi sem er öllu dýrmætara, frelsið að mega draga andann. En ég trúi líka á ástfrelsi. Ég trúi á það frelsi sem felst í því að mega segja við aðra manneskju: „Ég elska þig.“
Ég er ekki einn um þetta sjónarmið. Saman viljum við Íslendingar upp til hópa verja algild mannréttindi, jafnrétti á öllum sviðum, jöfn tækifæri til að sýna hvað í okkur býr, okkur sjálfum og öðrum til heilla. En öll þurfum við líka að virða okkar eigin skyldur í samfélaginu. Frelsi og rétti hljóta að fylgja skyldur og ábyrgð.
Í ár eru liðnir tveir áratugir frá því að gleðigangan var fyrst haldin hér á landi. Gangan er í senn sigurhátíð og kröfuganga hinsegin fólks á Íslandi, fagnaðarstund vegna þess sem hefur áunnist á jafnréttisbraut en líka áminning um það að enn er verk að vinna. Aðrir landsmenn fylgjast með, heiðra göngufólk og vita að barátta þeirra er barátta okkar allra. Því gleðiganga ykkar er frelsisganga okkar allra.
Margan heiður hef ég hlotið á forsetastóli. Einna vænst þykir mér um þá vegtyllu að vera verndari Samtakanna ́78. Á þessum tímamótum óska ég félögum þeirra, öllu hinsegin fólki og öllum landsmönnum alls velfarnaðar.