Section 28 og siðfárið gegn samkynhneigð í Bretlandi

// Eftir Veru Illugadóttur

„Þetta er Mette. Hún er fimm ára. Þetta er pabbi hennar Mette. Hann heitir Morten. Þetta er Erik. Hann býr með pabba Mette. Mette, Morten og Erik búa saman í litlu húsi.“

Þegar danskur barnabókahöfundur, Susanne Bösche, gaf út árið 1981 litla, svarthvíta myndabók um stúlkuna Mette og feður hennar tvo, Morten og Erik, gerði hún sér enga grein fyrir því að bók hennar ætti eftir að valda hreinasta siðfári mörgum árum síðar og í öðru landi. Markmið Bösche var fyrst og fremst að sýna barnungum lesendum sínum þau fjölbreytilegu fjölskylduform sem tíðkuðust í dönsku nútímasamfélagi. Sumir krakkar áttu einstæðar mæður, sumir krakkar áttu stjúpmömmur og stjúppabba, og sumir krakkar áttu tvær mömmur eða tvo pabba og það var líka allt í lagi.

Bókin um Mette litlu, Morten og Erik og fjölskyldulíf þeirra vakti ekki svo mikla athygli í Danmörku þegar hún kom út árið 1981 þó að vissulega væri hún ein af fyrstu dönsku barnabókunum sem fjallaði opinskátt um hinseginleika. Ensk þýðing, þar sem Mette hét Jenny og Morten var kallaður Martin, kom svo út í Bretlandi hjá litlu hinsegin bókaforlagi, Gay Men’s Press, árið 1983. Upplag þýðingarinnar var ekki stórt og hún vakti heldur enga sérstaka athygli. Allavega ekki fyrst um sinn.

Árin og áratugirnir á undan

Hinsegin fólk í Bretlandi hafði þarna unnið nokkra mikilvæga sigra áratugina á undan. Árið 1967 hafði bann við kynferðislegu samneyti tveggja fullorðinna einstaklinga af sama kyni loks verið þurrkað út úr breskum lagabókum, harðneskjuleg lög sem ófáir sam- og tvíkynhneigðir Bretar af öllum stigum þjóðfélagsins höfðu orðið illa fyrir barðinu á í áranna rás. Fyrsta Pride-gangan í Bretlandi var gengin í Lundúnum 1972 og víðs vegar um landið voru hommar, lesbíur og annað hinsegin fólk farið að stofna með sér félög og samtök til að krefjast réttinda fyrir sig og sína. 

En víða í bresku samfélagi grasseruðu líka enn gífurlegir fordómar í garð hinsegin fólks, sem minnkuðu ekki endilega með auknum sýnileika. Samkvæmt skoðanakönnunum leit meirihluti bresks almennings enn á samkynhneigð sem eitthvað „rangt“. Svo í byrjun níunda áratugar 20. aldar, þegar fréttir fóru að berast af skæðum sjúkdómi sem virtist leggjast helst á samkynhneigða og tvíkynhneigða karla, varð það einnig vatn á myllu þeirra sem hötuðust út í eða óttuðust hinsegin fólk. Breska götupressan fór mikinn um hommapláguna og hættuna sem hinum almenna og siðvanda Breta stafaði af þessu óeðli. Og eitt það mikilvægasta var auðvitað að vernda börnin. 

Íhaldsflokkur Margaret Thatcher hafði verið við völd í landsmálunum frá 1979 og voru forystumenn flokksins alls engir vinir hinsegin fólks (vissulega sumir, en það var svona meira prívat). En sums staðar í Bretlandi stjórnuðu vinstrimenn bæjar- og sveitarstjórnum og höfðu styrkt og unnið með samtökum hinsegin fólks í réttinda-, heilbrigðis- og fræðslumálum – samvinna sem var algjört eitur í beinum íhaldsmanna. Sú var raunin til dæmis í Lundúnum, þar sem andaði ísköldu milli Íhaldsflokksins og borgarráðs vinstrimannsins Ken „rauða“ Livingstone sem stutt hafði heilmikið við hinsegin málefni. 

Bannað að hampa samkynhneigð

Það var í þessu andrúmslofti sem litla, danska barnabókin um Jenny, fimm ára, og feðurna tvo, varð skyndilega að einu helsta hitamálinu í bresku samfélagi. „VIÐBJÓÐSLEG BÓK Í SKÓLA“ var æpandi forsíðufyrirsögn götublaðsins The Sun dag einn í maí 1986. „Nemendur sjá myndir af samkynhneigðum elskendum!“ Einhver hafði fundið eintak af bókinni um Jenny, Martin og Eric á skólabókasafni einmitt í vinstrimannabælinu Lundúnum. Eitt einasta eintak á einu bókasafni, og það þótti forsíðufrétt þótt það sé í raun fátt sem talist getur virkilega viðbjóðslegt í bók Susanne Bösche. Jenny, fimm ára, birtist lesendum sem hraust og glöð stúlka. Með feðrum sínum borðar hún morgunmat og setur í þvottavél, þau gera við reiðhjól og setja niður kartöflur og spila á spil fyrir svefninn. Tekið er sérstaklega fram að móðir Jennyar, Karen, búi ekki langt frá og komi reglulega í heimsókn.

En bara það að stúlkan ætti tvo pabba þótti siðapostulum slúðursnepilsins The Sun næg ástæða til að kynda mikið hatursbál yfir þessari einu bók. Í framhaldinu höfðu götublöðin, hvert á fætur öðru, uppi á ýmsum bókum og bæklingum á bókasöfnum þar sem fjallað var um samkynhneigð og hinseginleika á hátt sem þótti ekki nægilega neikvæður og fordæmandi. Áköll íhaldsmanna og umvandara um að grípa yrði til aðgerða til að vernda börnin fyrir innrætingu og óeðli urðu sífellt háværari. „Verið er að kenna börnum að þau hafi óafsalanlegan rétt á að vera samkynhneigð,“ sagði sjálf Margaret Thatcher hneyksluð í ræðu á landsþingi íhaldsmanna í október 1987 og uppskar standandi lófatak flokkssystkina.

Eitthvað varð til bragðs að taka. Í árslok 1987 lögðu þingmenn Íhaldsflokksins því fram tillögu til breytingar á lögum um sveitarstjórnir sem bannaði þeim að „hampa samkynhneigð“ (e. promote homosexuality) eins og það var orðað, bannaði útgáfu á efni sem hefði það að markmiði að hampa samkynhneigð og kennslu í skólum um að samkynhneigð væri ásættanlegt fjölskylduform (e. acceptability of homosexuality as a pretended family relationship). 

Hvað þýddi þetta eiginlega? Þingmenn ræddu orðalag tillögunnar lengi, fram og aftur og með orðabækur við hönd. Svona varð lokaniðurstaðan en þó er alls ekki víst að nokkur viðstaddur hafi í raun og veru náð utan um það hvað þetta átti að þýða, hvernig ætti að framfylgja tillögunni og nákvæmlega hvar. En samþykkt var hún þó og varð formlega að lögum í maí 1988 sem liður nr. 28 í lögum um sveitarstjórnir, æ síðan þekkt sem Section 28. Sönn tímamót því þetta voru fyrstu nýju lögin gegn réttindum hinsegin fólks í Bretlandi í meira en öld.

Ekki er vitað til þess að nokkur hafi verið sóttur til saka á grundvelli Section 28 þau fimmtán ár sem lögin voru svo við lýði. En þau höfðu víðtæk áhrif mjög fljótlega. Alls kyns samtök og félög hinsegin fólks lögðu til dæmis upp laupana í stað þess að hætta á að verða fyrir barðinu á nýju lögunum. Hinsegin félög sem byrjuð voru að dúkka upp í skólum og félagsmiðstöðvum heyrðu snarlega sögunni til. Bæjar- og sveitarstjórnir drógu til baka alla styrki til hinsegin-tengdra málefna og menningarstarfs. Hinsegin leikhópar leystust upp, hætt var við listasýningar og viðburði, bóka- og blaðaútgáfu hinsegin fólks. Kennarar þorðu ekki lengur að anda orði um kynhneigð sína í vinnunni og enn síður að reyna að tala máli hinsegin nemenda í sífellt hatursfyllra umhverfi skólakerfisins, af ótta við að það teldist að „hampa samkynhneigð“ og þar með lögbrot. Heil kynslóð Breta fékk þannig litla sem enga fræðslu um hinseginleikann og ætla má að ansi mörg hafi hörfað dýpra inn í skápinn.

Lítil bók um kynfræðslu fyrir krakka, The Playbook for Kids about Sex, gefin út í Bandaríkjunum 1980, varð einnig alræmd í Bretlandi í siðfárinu um miðbik níunda áratugarins. Þingkona Íhaldsflokksins lýsti bókinni sem „hræðilegu áróðursriti“ sem kenndi börnum „allt um samkynhneigð og hvernig ætti að iðka hana“. Í bókinni eru í raun bara sakleysislegar teikningar af fullklæddum pörum, tvíkynhneigðum sportistum, lesbíum með flugdreka og hommum að bardúsa með pottaplöntur (vissulega mjög hinsegin athæfi).

Lög sem varla voru notuð en höfðu mikil áhrif

En þrátt fyrir allt þetta varð Section 28 líka vitundarvakning sem styrkti mjög hinsegin baráttu í Bretlandi. Aktívistar sem áður höfðu verið tvístraðir – í alls kyns félögum með alls kyns áherslur, hommarnir kannski í einu horni og lesbíurnar í öðru – öll tóku nú höndum saman með það sameiginlega markmið að kollvarpa Section 28. Tuttugu þúsund manns mótmæltu lögunum á götum Manchester 20. febrúar 1988, fjölmennasti fjöldafundur hinsegin fólks í sögu Bretlands til þessa. Kvöldið áður en Section 28 tók formlega gildi, 23. maí 1988, réðust lesbískir aðgerðasinnar inn í sjónvarpsstúdíó BBC í miðjum kvöldfréttatíma klukkan sex og hrópuðu slagorð gegn lögunum þar til þær voru fluttar burt af lögreglu. Breskur almenningur skyldi ekki fá að hunsa þær. Hópur baráttufólks stofnaði svo samtökin Stonewall til að berjast gegn Section 28 vorið 1989. Stonewall færðu síðar út kvíarnar og eru í dag stærstu baráttusamtök hinsegin fólks ekki bara í Bretlandi heldur í allri Evrópu. 

Fleiri bresk samtök sem starfa enn í dag rekja ættir sínar til baráttunnar gegn Section 28. Hreyfing hinsegin fólks í Bretlandi efldist bara og efldist mikið næstu árin og þegar Verkamannaflokkurinn komst til valda í Bretlandi 1997 bjuggust mörg við því að Section 28 yrði snarlega felld úr gildi. Þótt fyrr hefði verið. Það leið þó og beið með það, meðal annars vegna harðrar andstöðu aldurhniginna íhaldsmanna og -kvenna í lávarðadeild breska þingsins sem enn vildu sem minnst heyra á samkynhneigð minnst. Nýtt skoskt þjóðþing reið loks á vaðið og felldi lögin úr gildi Skotlandsmegin árið 2000 en breska þinginu í Westminster tókst ekki að fylgja fordæmi þess fyrr en loks í september 2003. 

Ian McKellen var 49 ára þegar Section 28 tók gildi 1988 og löngu orðinn þekktur leikari í leikhúsi og á hvíta tjaldinu. Hann ræddi áhrif Section 28 á breskan listaheim í útvarpsþætti á BBC í ársbyrjun 1988 og í viðtalinu minntist hann á það að hann væri sjálfur hommi. Það rann upp fyrir honum að viðtali loknu að þarna hafði hann greint opinberlega frá kynhneigð sinni í fyrsta sinn á ferlinum. Ian McKellen varð svo með ötulustu baráttumönnum gegn Section 28 og einn af stofnendum Stonewall-samtakanna 1989. 

Haustið 2023 gat breskt hinsegin fólk því haldið upp á það að tuttugu ár voru liðin frá því að lögin alræmdu voru felld úr gildi. Mörgum þótti þó ekki endilega mikil ástæða til að fagna. Sagan endurtekur sig vissulega og auðvelt er að sjá líkindin með siðfárinu sem leiddi af sér Section 28 á níunda áratug síðustu aldar og þeirrar hatursfullu fjölmiðla- og þjóðfélagsumræðu í garð hinsegin fólks, sér í lagi trans fólks, sem sjá má í Bretlandi í dag. Í Rússlandi og fleiri löndum eru svo lög við lýði sem banna „hinsegin áróður“ og ríma á vissan hátt við Section 28 – og í Bandaríkjunum eru yfirvöld í óða önn að banna ótal bækur um hinseginleikann, undir því yfirskini að það þurfi að „vernda börnin“, og samþykkja lög sem setja miklar hömlur á hvers konar hinsegin fræðslu í skólakerfinu, alls ekki ósvipuð Section 28 í Bretlandi. En sagan af Section 28 kennir okkur líka að hægt er að taka höndum saman, streitast á móti og kveða slíka vitleysu í kútinn.