Saga Pride hátíða


HÁTÍÐAHÖLD UM ALLAN HEIM

Það var í lok júní 1970 að lesbíur og hommar í New York, Los Angeles og San Francisco og Chicago fylktu liði á götum úti í fyrstu göngunum sem farnar voru til að minnast uppþotanna árið áður, helgina 27.–29. júlí í Greenwich Village í New York. Þær óeirðir marka tímamót í sögu hinsegin fólks um allan hinn vestræna heim. Í fyrsta sinn tók okkar fólk á móti þegar að því var sótt – nýir tímar voru runnir upp. Á Íslandi hefur 27. júní auk þess sterka merkingu í hugum margra því að þann dag árið 1996 gengu lög um staðfesta samvist samkynhneigðra í gildi hér á landi, og síðari lagabreytingar sem okkur varða hafa nær alltaf síðan miðast við þann dag, til dæmis ein hjúskaparlög fyrir alla þegna árið 2010. Í fyrstu kenndu menn hátíðahöldin við lítinn en vinsælan bar, Stonewall Inn, sem stóð við Christopher Street númer 51–53 neðst á Manhattan-eyju í New York. Síðar fengu hátíðahöldin nafnið „Christopher Street Day“ en brátt tóku þau að ganga undir nafninu „Gay Pride“. Þegar nær dró aldamótum var hreyfingin að baki hátíðunum ekki lengur bundin samkynhneigðum einum – tvíkynhneigðir og transfólk höfðu líka haslað sér þar völl – og því var heiti hátíðanna víðast hvar stytt og kallast þær nú einfaldlega „Pride“. Heiti hátíðanna er enn fremur nær ævinlega bundið heiti þeirrar borgar sem hlut á að hátíðinni á hverjum stað.

ALÞJÓÐLEG HÁTÍÐ

Siðurinn barst brátt til Evrópu og þegar kom fram á tíunda áratug liðinnar aldar hafði losnað um tengslin við hina upphaflegu dagsetningu, síðustu helgina í júní. Nú ber þessa hátíð hinsegin fólks upp á flestar helgar sumarsins í hinum ýmsu borgum heimsins svo að fólk eigi þess kost að ferðast á milli staða til að sýna samstöðu og stuðning í verki sem víðast.

Samskipti þeirra sem stóðu að hátíðahöldum um heiminn jukust jafnt og þétt og fólk skildi nauðsyn þess að miðla reynslu sinni og aðstoð við hátíðahöld stolts og sýnileika. InterPride, samtök hinsegin hátíða, urðu að veruleika í Bandaríkjunum árið 1982 og þróuðust síðar yfir í alþjóðasamtök. Á heimsþingum InterPride er skipuleggjendum boðið upp á námskeið og reynslu er miðlað svo að sameiginleg þekking fólks nýtist jafnt nýjum sem eldri hátíðum.

InterPride þingar árlega og velur borg til að halda svokallað World Pride, þá hátíð sem athyglin beinist fyrst og fremst að hverju sinni. Sú fyrsta var haldin í Róm sumarið 2000 þegar kristnir menn héldu upp á að tvö þúsund ár voru liðin frá því að kristni skaut rótum í heiminum. World Pride var haldið öðru sinni í Jerúsalem árið 2006 og varð þá fyrir árásum leiðtoga allra trúarbragða sem finnast í borginni helgu þegar þau sameinuðust í andúð á stórsamkomu á stærsta íþróttaleikvangi Jerúsalem. Þar urðu því þau sögulegu tíðindi að trúarhreyfingar, sem sjaldan hafa komist að samkomulagi um friðsamlega sambúð, sameinuðust í einhuga hatri gegn hinsegin fólki, einmitt í þeirri borg sem mörg helstu trúarbrögð heims halda í heiðri.

STOLT Á ALÞJÓÐAVETTVANGI

Hinsegin dagar í Reykjavík urðu formlegir aðilar að InterPride á þingi þeirra í Glasgow í október 1999 og voru síðan gestgjafar á ársþingi InterPride sem haldið var hér á Íslandi haustið 2005.

Svipur hátíðahaldanna er margbreytilegur frá landi til lands og raunar ólíkari en marga kynni að gruna. Í þeim löndum sem búa hinsegin fólki mest og best öryggi eru Pride-hátíðir sumarsins fullar af litum, lífi og fjöri eins og við höfum fengið að sjá í Reykjavík og er sú hátíð þó aðeins brot af þeirri skrautsýningu sem mætir gestum í milljónaborgum heimsins.

Um leið er hollt að muna að víða um heim snúast göngur hinsegin fólks upp í skelfileg átök og uppþot. Þar er fyrst að minnast þess þegar hinsegin fólki var misþyrmt af ungum hægrisinnuðum öfgamönnum þegar það hélt í sína fyrstu mannréttindagöngu um stræti Belgrad í júní 2001. Síðan hafa borgaryfirvöld víða í Austur-Evrópu bannað hinsegin göngur og hátíðir. Til dæmis hafa borgaryfirvöld í Moskvu bannað slíkar göngur allt frá árinu 2004 og látið árásir öfgafullra þjóðernissinna á ólöglegar göngur hinsegin fólks að mestu afskiptalausar.

MEÐ AUGUN OPIN

Hinsegin dagar í Reykjavík fylgjast eins og kostur er með stöðu mannréttindamála hinsegin fólks í heiminum. Sérstök áhersla er lögð á að fylgjast með ástandinu í næstu nágrannaríkjum, til dæmis í Austur-Evrópu. Hinsegin dagar hafa sent mótmælabréf til borgarstjórna, forsætisráðherra og forseta í ýmsum ríkjum til að mótmæla banni við göngum hinsegin fólks og vakið athygli á skuldbindingum ríkja til að fylgja svæðisbundnum og alþjóðlegum samningum um mannréttindi.

Að öðlast mannréttindi fylgir ábyrgð og þess vegna gleyma Hinsegin dagar sér ekki í gleðinni og fögnuðinum yfir þeim framförum og sigrum sem unnist hafa hér á landi. Enn býr hinsegin fólk á Íslandi við kúgun og niðurlægingu þótt leynt fari. Rými þess er takmarkað á marga lund og þess má til dæmis sjá merki í skólum, á elliheimilum og í fjölskyldum. Það er skylda Hinsegin daga að draga hvers kyns misrétti og niðurlægingu fram í dagsljósið og beita vopnum sýnileika og hispurslausrar umræðu gegn þeim sem troða á mannréttindum hinsegin fólks á Íslandi.

Engu að síður nýtur hinsegin fólk hér á landi mikils öryggis og frelsis miðað við það sem eitt sinn var og því förum við út á götur Reykjavíkur annan laugardag í ágúst til fagna sigrum og sýna samstöðu með systrum okkar og bræðrum sem þjást fyrir sérstöðu sína hvar sem er í heiminum.