Gjá milli skóla og íslensks samfélags

Jón Ingvar Kjaran hefur unnið við rannsóknir í hinsegin- og kynjafræðum samhliða kennslu við Verzlunarskóla Íslands. Þar hefur hann einkum kennt sögu og menningarfræði. Hann hefur jafnframt starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands og verið reglulegur gestafyrirlesari í menningarfræðum við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hann var enn fremur gestarannsakandi við Kynjafræðideild Humboldt-háskóla í Berlín á vormisseri 2013. Doktorsritgerð hans, „Í átt til hinsegin framhaldsskóla. Reynsla hinsegin nemenda af íslenskum framhaldsskóla í skugga gagnkynhneigðra orðræðu og valds“, er fyrsta doktorsritgerðin sem varin er hérlendis þar sem viðfangsefnið er hinsegin reynsla og hinsegin veruleiki. Í rannsókninni tók Jón viðtöl við 14 hinsegin ungmenni sem fædd eru á tímabilinu 1987–1993 og framkvæmdi vettvangsathuganir í tveimur framhaldsskólum.

Í doktorsrannsókn þinni er sjónum beint að reynslu hinsegin nemenda í íslenskum framhaldsskólum. Hvernig kom þetta viðfangsefni til og hverjar voru helstu niðurstöðurnar?

Þetta er málaflokkur sem ég hef lengi haft mikinn áhuga á og verið forvitinn um enda eru nær engar rannsóknir til hérlendis um reynslu hinsegin nemenda af íslenska skólakerfinu. Ég hafði stundað kennslu í framhaldsskólum nokkuð lengi og fannst hinsegin ungmenni fara á mis við margt það sem gagnkynhneigð skólasystkini þeirra voru að upplifa. Það vakti líka athygli mína að margir krakkar sem ég var að kenna komu ekki úr skápnum fyrr en eftir að framhaldsskóla lauk sem vakti spurningar um hvort það væri eitthvað kerfislægt innan skólanna sem héldi aftur af þeim.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að það er ákveðin gjá á milli þess sem er að gerast í íslensku samfélagi annars vegar og íslenska skólakerfinu hins vegar hvað varðar hinsegin málefni. Á sama tíma og íslenskt samfélag breytist og verður sífellt frjálslyndara í málefnum hinsegin fólks erum við ekki að sjá þær breytingar birtast innan skólakerfisins, sem heldur áfram að vera íhaldssamt og viðheldur ákveðnu umhverfi, eða rými, sem gerir ráð fyrir að allir séu gagnkynhneigðir. Skólakerfið hefur ekki náð að halda í við þá frjálslyndisþróun sem hefur átt sér stað í samfélaginu og þess vegna verðum við vitni að því þegar bæjarfélag eins og Hafnarfjörður leggur fram tillögu um að auka hinseginfræðslu innan skólanna að það verður allt vitlaust!

Hvernig komstu í samband við nemendurna?

Ég beitti ýmsum leiðum til að finna nemendur fyrir rannsóknina. Í skólanum þar sem ég kenndi voru nokkrir hinsegin krakkar sem ég setti mig í samband við. Ég sendi líka bréf til námsráðgjafa margra framhaldsskóla og spurðist fyrir um hvort einhver hefði leitað til þeirra vegna kynhneigðar sinnar. Í gegnum ungliðahóp Samtakanna ‘78 komst ég einnig í samband við nokkra nemendur. Hins vegar var áhrifaríkasta leiðin hin svokallaða snjóboltaleið, þar sem einn nemandi kom mér í samband við annan nemanda og svo koll af kolli.

Öllum krökkunum sem ég hafði samband við fannst mjög merkilegt að einhver væri að rannsaka þessi mál og þau voru mjög jákvæð gagnvart rannsókninni. Ég skynjaði að þeim fannst greinilega eitthvað vanta innan skólakerfisins og því vildu þau leggja sitt af mörkum til þess að rannsóknin gengi vel. Ég fékk greiðan aðgang að persónulegum sögum þeirra og upplifun.

Í samtölunum kom fljótlega í ljós að innan þeirra framhaldsskóla sem krakkarnir sóttu var öll fræðsla um kyn, kynhneigð og kynlíf mjög einsleit og einhliða. Skólabækur fjölluðu lítið sem ekkert um hinsegin veruleika og öll fræðsla um kynlíf var á gagnkynhneigðum og frekar neikvæðum nótum þar sem umræðan snerist nær eingöngu um barneignir og kynsjúkdóma. Það má fullyrða að það sé búið að læknisvæða kynfræðslu innan íslenskra framhaldsskóla enda sjáum við að þeir sem fræða ungmenni helst um kynlíf eru læknanemar sem koma í heimsóknir í skólana en þeir hljóta að hafa ákveðnar áherslur í sínum málflutningi aðrar en tilfinningalíf og kynvitund.

Þú segir að nemendurnir hafi verið mjög meðvitaðir um að skólaumhverfi þeirra væri gagnkynhneigt og að sú vitund hafi virkjað þá til ýmiss konar viðbragða?

Frá upphafi lagði ég áherslu á að nálgast viðfangsefnið á þann veg að nemendurnir kæmu fram sem gerendur en ekki þolendur. Í erlendum rannsóknum er orðræðan nær alltaf á þann veg að nemendur séu þolendur á einhvern máta en þá týnist að margir þeirra eru líka virkir þátttakendur í umhverfi sínu. Nú er rétt að hinsegin ungmenni eru tölfræðilega líklegri til að misnota áfengi, fíkniefni og taka eigið líf en sá málflutningur er aðeins lítill hluti af þeim veruleika að vera ung hinsegin manneskja. Ég vildi draga fram þá þætti sem sýna að krakkarnir eru virkir þátttakendur í að móta umhverfi sitt og storka reglulega þeim gagnkynhneigða ramma sem skólinn setur þeim.

Gott dæmi um þess konar storkun kom frá stúlku sem ég segi frá í rannsókninni, köllum hana Dani. Dani þurfti að skrifa ritgerð fyrir þýskuáfanga þar sem verkefnið var að segja frá síðustu helgi og hvað hún hefði gert. Dani skrifaði grein þar sem hún talaði um samband sitt við kærustuna sína og að þær hefðu farið í bíó. Textinn var skrifaður skýrt þannig að um væri að ræða tvær stúlkur. Með þessu móti var Dani að að skapa hinsegin rými innan skólakerfisins til að segja frá sinni lesbísku lífsreynslu. Skólakerfið brást hins vegar við með því að leiðrétta ritgerðina og þegar Dani fékk hana til baka var búið að „leiðrétta“ kyn kærustunnar í karlkyn því stelpan hefði örugglega verið að gera bölvaða málfræðivillu! Þetta er gott dæmi um hvernig fólk skapar sér rými og hvernig umhverfið bregst við því.

Orðnotkun á borð við „faggi“, „helvítis homminn þinn“ eða að eitthvað væri „svo gay“ kallaði líka fram viðbrögð hjá krökkunum. Mörg þeirra voru óhrædd við að svara fullum hálsi þegar samnemendur þeirra notuðu þess háttar orðalag og reyndu þar með að kenna umhverfinu hvernig væri rétt að tala – því hvorki kennararnir né skólinn voru að sinna því hlutverki. Það var hins vegar greinilegt að þeim þótti óþægilegt að þurfa að standa í slíku karpi innan skólans.

Frásagnir sem þessar eru algengar í fræðigreinum sem skoða upplifun hinsegin nemenda af skólakerfinu. Til dæmis hafa breskar kannanir sýnt að fæstir þarlendir kennarar bregðast við þegar þeir heyra af eða verða vitni að hómófóbískri málnotkun í vinnunni, enda hafa fæstir þeirra þekkingu eða reynslu til að bregðast við slíku. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að kennarar hérlendis séu í svipaðri stöðu enda er hinseginfræðsla ekki hluti af náminu í kennaraháskólanum.

_MG_6096 - Copy
Jón Ingvar Kjaran er höfundur fyrstu doktorsritgerðarinnar sem varin er hérlendis þar sem viðfangsefnið er hinsegin reynsla og hinsegin veruleiki.

 

Hvernig lýstu nemendur áhrifum þessa á tilfinningalíf sitt?

Þau höfðu öll upplifað leiða og þunglyndi þegar þau uppgötvuðu að þau væru öðruvísi. Það að uppgötva að maður er öðruvísi er ákveðið sjokk sem þarf að vinna sig út úr. Að mínu mati taka hinsegin ungmenni út þroska miklu fyrr en gagnkynhneigðir samnemendur þeirra vegna þess að sú uppgötvun að einstaklingur sé hinsegin kallar á mikla sjálfsskoðun og spurningar: Hvaða hindranir er samfélagið að fara að setja mér? Hvað get ég núna gert og hvað ekki?

Krakkarnir hafa þurft að pæla mikið í framtíð sinni og tekið út töluverðan þroska, sem er að mörgu leyti gott. Í rannsókninni kalla ég þetta tilfinningalegt auðmagn sem þau hafa safnað að sér. Þau eru orðin rík af styrk og visku sem sést til dæmis á því að þau eru óhrædd að tjá sig um flóknar tilfinningar, til dæmis á fésbókinni eða í skólablöðum. Það ber merki um mikinn tilfinningaþroska.

Var upplifunin ólík eftir kynjum?

Ég myndi segja það, þó að sjálfsögðu sé erfitt að alhæfa út frá svona litlum hópi. Við getum sagt að stelpurnar voru mun jákvæðari gagnvart öllu ferlinu, því að koma úr skápnum og vera hinsegin í skólanum, heldur en strákarnir. Þær litu frekar á þetta sem jákvæða reynslu sem myndi nýtast þeim vel í framtíðinni. Stelpurnar voru gjarnari á að vera aktívistar og tóku oftar upp á því að rísa gegn umhverfinu sem skólinn þeirra skapaði þeim. Ég hef túlkað þetta að hluta til sem viðbrögð við tvöfaldri jaðarsetningu sem stelpur í þessari stöðu upplifa oft: að vera kona og vera lesbía.

Þegar ég ræddi við strákana var þessari reynslu oftar lýst sem neikvæðri upplifun. Þeir skiptust í tvo hópa, annars vegar hóp sem var gagnrýninn á algengar staðalímyndir sem birtast af hommum í menningu okkar – kvenlegir karlmenn sem elska að eyða tíma með stelpum og versla. Hinn hópurinn lét slíkt minna fara í taugarnar á sér en lagði áherslu á mikilvægi þess að þeir fengju að hegða sér og tjá sig eins og þeir kysu og taldi mikilvægt að storka viðteknum normum í skólanum.

Eru niðurstöðurnar úr þinni rannsókn í samræmi við sambærilegar erlendar rannsóknir?

Já, að mörgu leyti eru mínar niðurstöður í samræmi við það sem rannsóknir erlendis hafa verið að sýna fram á. Skólar og skólakerfi eru íhaldssamar, heterósexískar og heterónormatívar stofnanir sem reyna að viðhalda ákveðnu rými fyrir gagnkynhneigð gildi og gera ráð fyrir að allir séu gagnkynhneigðir.

Ég hef einnig verið að skoða skólakerfin á Norðurlöndunum og viðhorf til hinsegin nemenda en þar má greina sömu erfiðleika. Við lítum oft á Norðurlöndin sem fyrirmynd fyrir restina af heiminum þegar kemur að réttindamálum hinsegin fólks – nokkurs konar hýra útópíu – en samt sem áður eru þarlend skólakerfi að viðhalda þessari gjá sem ég nefndi áður milli skólans og samfélagsins. Þar má sjá framsækið samfélag og afturhaldssamt skólakerfi, oft undir þeim formerkjum að það þurfi að vernda börnin.

Hvað myndir þú ráðleggja skólastjórnendum og öðrum sem starfa í skólum?

Oft spurði ég krakkana sem tóku þátt í rannsóknni hvað þau myndu gera ef þau væru við stjórnvölinn og það var tvennt sem þau nefndu. Annars vegar sögðust þau vilja auka fræðslu (eða vera yfirhöfuð með einhverja fræðslu!) um þennan málaflokk og haga fræðslunni þannig að hún væri ekki átaksvika einu sinni á ári heldur samofin námsefninu sem fyrir væri. Til dæmis mætti íslenskukennsla fela í sér að lesa bókina Mánastein eftir Sjón og fjalla um hana í framhaldinu. Hitt sem þau nefndu var að auka sýnileika, til dæmis að námsráðgjafar fengju regnbogafána til að hengja upp á skrifstofunni til að sýna að þar væri öruggt svæði til að ræða þessi mál eða með því að stofna hinsegin klúbba innan skólans. Af hverju ætti þessi hópur að sækja sína þjónustu utan skólanna þegar innan þeirra eru starfandi margs konar klúbbar?

Sjálfur myndi ég ráðleggja skólastjórnendum í fyrsta lagi að marka sér skýra stefnu og í öðru lagi að tengja hana við jafnréttis- og eineltisstefnu, sem flestir skólar hafa tileinkað sér. Ég hef skoðað skólastefnur allra framhaldsskóla landsins og aðeins lítill hluti þeirra inniheldur eitthvað sem tengist hinsegin málefnum. Bara það að laga stefnuna og tengja hana við aðgerðaáætlun væri stórt skref.

Geturðu talað aðeins um það hvers vegna stuðningur frá öðrum hinsegin einstaklingum skiptir máli fyrir nemendur í framhaldsskólum?

Fyrirmyndir skipta alltaf miklu máli. Vitundin um að einhver annar úr sama umhverfi beri tilfinningar sem eru áþekkar manns eigin er mjög dýrmæt. Í viðtölunum sem ég tók kom oft fram að það hefði hjálpað mikið við ferlið að koma úr skápnum að hafa orðið vitni að því að aðrir í skólanum hefðu komið út og hvernig umhverfið brást við því. Þetta snýst um að auka sýnileika hinsegin fólks innan skólakerfisins; að það sé ekki falið og að þeir sem eru að kljást við tilfinningar sínar viti að þeir eru ekki einir.

Skólakerfið er frosið í tíma upp að vissu marki þó að við séum vissulega komin skrefi lengra en þegar ég var sjálfur í framhaldsskóla því þá var aldrei talað um þessa hluti. Þó að skólakerfið sé þungt í vöfum eru viðhorfin í samfélaginu jákvæðari, bæði meðal nemanda og kennara. Íslenska námskráin sem var samþykkt 2010–2011 er ein sú framsæknasta sem finnst á Norðurlöndum þegar kemur að hinsegin fræðslu. Í henni koma fram ákvæði þess efnis að skólar þurfi að taka tillit til mismunandi breyta eins og kynferðis, kyngervis og kynhneigðar en skólarnir hafa ekki náð að tileinka sér þau gildi sem þar koma fram. Það sem skortir er framkvæmd á þessari stefnu og að brúa gjána sem enn er til staðar milli skólakerfisins og samfélagsins.