Jón Kjartan Ágústsson og Ásta Kristín Benediktsdóttir ritstjórar:
Hinsegin dagar í Reykjavík eru haldnir hátíðlegir í sautjánda sinn í ár og hátíðin er glæsileg sem endranær. Fjölbreytnin er í fyrirrúmi en næstum 30 viðburðir standa gestum til boða frá þriðjudeginum 4. ágúst til sunnudagsins 9. ágúst. Í boði verða tónlistarviðburðir, ljósmyndasýning, sirkusveisla, dansleikir og fræðsluviðburðir, svo fátt eitt sé nefnt, og allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi.
Þema Hinsegin daga í ár er heilsa og heilbrigði. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er heilsa „ástand líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og kvilla“ og efnistök ritsins eru í samræmi við það – víðfeðm og fjölbreytt. Meðal þess sem litið er til er aðgangur hinsegin fólks að heilbrigðisþjónustu, gæði þeirrar þjónustu sem veitt er og brotalamir sem þar má finna. Sérstakir þættir sem huga þarf að hvað varðar heilsu hinsegin fólks eru enn fremur í sviðsljósinu, svo sem HIV, tilfinningaleg, andleg og félagsleg líðan og sú læknisþjónusta sem intersex fólk og trans fólk þarf á að halda – eða þarfnast einmitt ekki. Með því að leggja áherslu á heilsu og heilbrigði vilja Hinsegin dagar stuðla að opinni umræðu um þá staðreynd að hinsegin fólk er fjölbreyttur hópur sem þarf oft á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu að halda sem er sérstaklega sniðin að heilsufarslegum þörfum hópsins. Nauðsynlegt er að hinsegin samfélagið og landsmenn allir geri þá kröfu til íslenskra stjórnvalda að þessum þörfum sé mætt innan félagsmála- og heilbrigðiskerfisins.
Forsíður blaðsins í ár eru fimm talsins og kallast á við þema hátíðarinnar. Líkt og fram kom hér að ofan er heilbrigði ekki einungis skortur á sjúkdómum heldur ástand þar sem andleg, sálræn og félagsleg vellíðan er til staðar í lífi hvers og eins. Þótt yfirborð okkar virðist lygnt geta gleði og sorg, hæðir og lægðir ólgað undir yfirboðinu, líkt og orðin sem rituð eru á líkama módelanna fimm endurspegla. Ritstjórn blaðsins og listrænum stjórnanda þess, Guðmundi Davíð Terrazas, hlotnaðist sá heiður að fá glæsileg módel úr okkar hópi til liðs við sig og fá þau bestu þakkir fyrir. Orðin voru valin af handahófi og lýsa ekki módelunum sérstaklega.
Fyrir hönd stjórnar og samstarfsnefndar Hinsegin daga í Reykjavík bjóðum við gesti hjartanlega velkomna á hátíðina til að fagna með okkur menningu, margbreytileika og mannréttindum hinsegin samfélagsins á Íslandi. Gleðilega Hinsegin daga 2015!