Í tilefni af 40 ára afmæli Samtakanna ‘78 er viðeigandi að líta yfir farinn veg og hugsa til alls þess sem áorkað hefur verið í hinsegin baráttu hér á landi. Í dag er samfélagið mun opnara en áður og margs kyns borgaralegum réttindum hefur verið náð fram. Sökum þessa hafa hinsegin einstaklingar víðs vegar að úr heiminum leitað hælis hér á landi. En hvernig ætli það sé að setjast að hér? Viktoría Birgisdóttir hitti Árna og Igor að máli og fékk að heyra sögu þeirra.
Árni og Igor komu hingað til lands árið 2014 frá Rússlandi og hafa því búið hér í nær fjögur ár. Þeir stunduðu báðir um tíma nám við Háskóla Íslands en námið var þó yfirvarp því í raun komu þeir hingað til að bjarga sjálfum sér. Þar sem Árni er langskólagenginn langaði hann ekki til að læra meira. Hann gat ekki lengur verið skráður sem námsmaður og þeir ákváðu því að leita til Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur til að leita lausna á því. Þar var þeim ráðlagt að sækja um hæli hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Árni: „Mig langaði ekki að leita hingað sem hælisleitandi því mér fannst það skammarlegt. Ég vildi ekki þiggja pening frá ríkinu eða aðstoð með húsnæði. Ég vil gera allt sjálfur.“
Igor: „Í bænum þar sem ég bjó gat ég ekki verið opinberlega hommi.
Ég vissi af einum strák sem gerði það og hann var drepinn. Hérna gleymum við því oft að við erum samkynhneigðir. Við erum bara venjulegt fólk.
Við völdum Ísland því okkur langaði að gifta okkur. Okkur langaði líka báða til að læra íslensku en við höfðum heyrt að íslenska væri með flóknustu tungumálum í heiminum. Þegar við lentum á Keflavíkurflugvelli vorum við spurðir af starfsmanni af hverju við værum að koma hingað og við svöruðum að við ætluðum að gifta okkur. Hann tók þá í höndina á okkur, óskaði okkur til hamingju og sagði að hér væri gott að búa sem hommi.“
Árni er ættaður frá Úkraínu en hefur ekki búið þar í 11 ár. Hann vann sem háskólakennari í Rússlandi og er með doktorsgráðu í líffræði og vistfræði.
Árni: „Ég missti vinnuna mína sem háskólakennari vegna þess að ég er hommi. Ég gat ekki lengur séð fyrir mér og sá því enga aðra leið en að yfirgefa Rússland.”
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Árni lenti í því að vera sagt upp störfum vegna kynhneigðar sinnar. Opinberlega var þó ekki viðurkennt að það væri ástæða uppsagnarinnar. Sú var þó raunin. Árið 1993 var samkynhneigð afglæpavædd í Rússlandi en þrátt fyrir það eru fordómar þar enn mjög miklir og ofsóknir gegn hópnum ríkjandi. Árið 2013 tóku gildi lög sem sekta þá sem sagðir eru standa að áróðri fyrir samkynhneigð og er tilgangurinn með lögunum að vernda börn fyrir því sem talin eru óhefðbundin fjölskyldugildi. Með því er reynt að koma í veg fyrir að samkynhneigð verði að félagslegu normi, því það er sagt grafa undan hefðbundnum fjölskyldugildum. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur hins vegar úrskurðað að þessi rússneska löggjöf mismuni fólki og ýti undir andúð á samkynhneigðum.
Árni: „Ég starfaði um tíma hjá samtökum fyrir homma og var einu sinni handtekinn fyrir þá vinnu. Lögreglan leyfir ekki fleiri en þremur samkynhneigðum einstaklingum að vera saman í félagi af ótta við að þeir skipuleggi kröfugöngu. Það er ekki skrifað í lög en þetta er óopinber regla sem rússneska lögreglan fer eftir.“
Árni heldur áfram að lýsa þeim fordómum sem hann hefur upplifað, en þeir leynast meðal annars í heilbrigðiskerfinu og á húsnæðismarkaði.
Árni: „Ég þurfti eitt sinn að leita til læknis í Rússlandi. Hún spurði hvort ég væri hommi og sagði að ef hún hefði vitað það fyrirfram hefði hún neitað mér um þjónustu. Ég og minn fyrrverandi leigðum líka herbergi hjá gamalli konu í timburhúsi. Einn daginn stóð fólk fyrir utan gluggann og kallaði til okkar að við værum hommar. Þau ætluðu að kveikja í húsinu. Ég hringdi á lögregluna sem sagðist mundu koma ef lík fyndust á svæðinu. Við földum okkur undir rúmi, líka gamla konan, grátandi af hræðslu. Sem betur fór komu nágrannar okkur til bjargar.“
Igor: „Ástæðan fyrir því var samt sú að nágrannarnir vildu ekki að eldurinn bærist yfir í þeirra hús.“
Árni: „Gamla konan rak okkur þá á dyr þar sem hún vildi lifa en ekki við morðhótanir eða hættu á lífláti.“
Gat ekki talað í mánuð
„Ég var einu sinni að labba þegar menn komu til mín og spurðu hvort ég væri hommi. Ég játaði eins og asni og fékk þá högg á kjammann. Ég lenti kjálkabrotinn á sjúkrahúsi eftir árásina og gat ekki talað í mánuð.“
Igor: „Það hjálpaði þér þó að ná enskunni.“
Þeir hlæja og Árni útskýrir að hann hafi verið að læra ensku á þessum tíma og átt að fara í próf. Þegar hann mætti sagði kennarinn að prófið væri munnlegt og það yrði erfitt fyrir Árna að taka það þar sem hann gæti illa talað.
Árni: „Ég benti á augun í mér og spurði muldrandi hvort ég gæti ekki náð áfanganum því ég væri með svo falleg og biðjandi augu. Kennarinn hló og skráði að ég hefði náð prófinu.“
Með dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum til ársins 2019
Árni: „Það er vandamál fyrir mig að vera ekki með ferðaskilríki. Ég breytti um nafn fljótlega eftir að ég kom til Íslands, því mig langaði frekar að heita íslensku nafni. Ég vildi gera það úti í Rússlandi en það var ekki hægt. Til þess að fá ný ferðaskilríki segir íslenska kerfið að ég þurfi að fara aftur til Úkraínu, eða til Finnlands því þar er úkraínskt sendiráð, og sækja um ferðaskilríki þar. En vandamálið er að úti heiti ég enn gamla nafninu en hér heima er ég Árni. Það er því ekki víst að ég kæmist aftur til Íslands.“
Ef Árni og Igor fá ekki endurnýjað leyfi hér á landi verður Árni sendur til Úkraínu og Igor til Rússlands.
Igor: „Ég má ekki fara til Úkraínu, ég er með stimpil í vegabréfinu sem bannar það. Líklegast mætti Árni heldur ekki fara frá Úkraínu til Rússlands. Þótt það sé ekki opinbert þá er stríð á milli landanna. Það yrði því mjög erfitt fyrir okkar samband ef okkur yrði vísað úr landi.“
Þá langar báða að búa á Íslandi til frambúðar.
Árni: „Ég væri til í að fara til Rússlands en bara í heimsókn.“
Igor: „Ég væri til í að fara þangað til að kaupa bækur. Ég les mjög mikið og það er dýrt fyrir ömmu að senda mér alltaf bækur frá Rússlandi. Við erum bjartsýnir á að geta endurnýjað dvalarleyfið og stefnum á að sækja um íslenskan ríkisborgararétt í komandi framtíð.“
Sú var tíðin að samkynhneigðu fólki á Íslandi þótti óhugsandi að koma út úr skápnum og gefa kynhneigð sína skýrt til kynna. Eins og kunnugt er ruddi Hörður Torfason þar brautina í frægu blaðaviðtali sumarið 1975 og sá sig tilneyddan að hverfa úr landi undan ofsóknum og grimmilegum hótunum. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar flykktust hommar og lesbíur til útlanda í leit að betra lífi, ekki síst til Danmerkur enda var þá himinn og haf milli þess lífs sem samkynhneigðir áttu kost á hér á Íslandi og í borgum Vesturlanda. Það var í þessari togstreitu sem Samtökin‘78 urðu til vorið 1978. Á stofnfund félagsins, sem Hörður Torfason átti manna mestan þátt í að gera að veruleika, mættu tíu karlmenn sem neituðu að sætta sig við þá þöggun og kúgun sem fylgdi feluleiknum. Viktoría Birgisdóttir hitti að máli Þorvald Kristinsson rithöfund og ræddi við hann um stöðu samkynhneigðra á árum áður, þar á meðal sögu flóttamanna frá Íslandi.
„Þegar ég fluttist heim frá Kaupmannahöfn að námi loknu árið 1982,“ segir Þorvaldur, „fannst mér ég ekki eiga neitt val, ég hlaut að taka þátt í baráttu homma og lesbía.
Það líf sem mætti mér á Íslandi var eiginlega fáránleikinn uppmálaður í ljósi þeirra framfara sem þá höfðu orðið á Vesturlöndum. Feluleikurinn var slíkur og höggin sem dundu á félögum mínum, andleg og líkamleg, voru grófari og harðari en svo að við væri unað.
Um leið er vert að muna að Ísland var á þeim tíma ótrúlega fordómafullt gagnvart öllu, smáu og stóru, sem vék frá hversdagslegri meðalhegðun, jafnvel klæðaburði og hártísku fólks.“
Þorvaldur var í þrjátíu ár virkur í hreyfingu homma og lesbía og þrívegis var hann formaður Samtakanna ‘78, alls í tíu ár. Þá var hann forseti Hinsegin daga í Reykjavík í rúman áratug. Í félagi við vini sína vann hann ötullega að þeim lagabótum sem samkynhneigt fólk hefur öðlast á sviði fjölskylduréttar og hann hefur lengi fengist við rannsóknir á sögu samkynhneigðra hér á landi. Eftir að hafa slitið sambúð við sambýliskonu sína til sjö ára kom hann út úr skápnum í Kaupmannahöfn og starfaði í tvö ár að fræðslu í skólum þar í borg með samtökum lesbía og homma. Heim kominn gerðist hann bókmenntaritstjóri og starfaði næstu tvo áratugi á nokkrum af helstu bókmenntaforlögum landsins.
„Þegar ég fluttist heim var það með þeim ásetningi að læðast ekki með veggjum heldur að lifa sem opinn hommi á Íslandi. Auðvitað var það erfitt en ég lét mig hafa það og reyndi að hrista af mér stöku högg eins og að vera sagt upp húsnæði, neitað um vinnu og mæta svívirðingum fólks í hverfiskjörbúðinni á Laugavegi. Ég naut þess reyndar að eiga létt með að koma fyrir mig orði og lærði snemma að stinga upp í næsta mann ef þörf krafði. En auðvitað litar þetta líf persónu manns. Einhvers staðar innra með mér ber ég alla tíð merki þess að hafa orðið fyrir óþarflega þungum höggum og að hafa of lengi leynt því besta sem ég á, gáfunni til að elska mína eigin kynbræður. En svo sannarlega stóð ég ekki einn, ég starfaði alla tíð í hópi fólks sem var ótrúlega gáfað og hugrakkt. Þá naut ég þess að læra bestu baráttuleiðir af félögum mínum í Norðurlöndum sem studdu okkur vel á þessum árum. Kvennahreyfing þessara ára hafði líka áhrif á margt í mínum aðferðum og röksemdafærslum og ég á henni sitthvað að þakka.“
En hver var munurinn á íslensku og dönsku samfélagi þessara ára eins og það sneri að Þorvaldi sem homma?
„Til að skilja þennan mun beita fræðimenn í okkar hópi oft hugtökunummetropolis og province, borgin og dreifbýlið. Staðan á Íslandi fyrir fjörutíu árum var um margt svipuð því sem var og er í dreifbýli erlendis, í Bretlandi, Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu. Það fólk sem stendur á jaðrinum átti og á enn erfitt uppdráttar í þorpum og smábæjum Vesturlanda og þess vegna flykktist mín „þjóð“ í stórborgirnar og gerir enn. Styrkur borgarinnar er sá að þar ratar maður í samfélag sinna líka en getur þó leynst eins lengi og maður vill leynast. Þessi leynd er okkur flestum nauðsynleg á meðan við erum að styrkja vitund okkar og sjálfsvirðingu sem samkynhneigðar manneskjur. Með öðrum orðum, Reykjavík fyrri ára var hreinræktaður próvins miðað við borgirnar í nágrannalöndunum. Þar voru alls staðar skemmtistaðir, barir, félög, hreyfingar og klúbbar sem hægt var að rata inn í án þess að afhjúpa eigin kynhneigð á fyrsta degi. Vandi okkar homma og lesbía á Íslandi var ekki síst sá hvað okkur var erfitt að fara fetið til að styrkja vitund okkar og vilja. Þjóð veit þá þrír vita.“
Þorvaldur víkur síðan talinu að löngu liðinni fortíð:
„Allt aftur til 1920 á ég í fórum mínum heimildir um fólk, samkynhneigða karlmenn og stöku lesbíu, sem yfirgáfu Ísland. Þetta fólk hafði svo sem ekki mörg orð um það hvers vegna það kvaddi en það er nokkuð ljóst að hér var fólk að leita að möguleikum til að njóta kynlífs og ásta þegar það gerði sér grein fyrir upplagi sínu. Enda er dagljóst að möguleikar þessa fólks voru snöggtum meiri meðal milljónaþjóða en hér á skerinu. Ég held þó ekki að margir hafi fyrr á árum litið á sig sem flóttamenn, hommar og lesbíur fortíðarinnar voru eins og svo margir ungir Íslendingar í leit að möguleikum í lífinu og þau vissu fæst hvað biði þeirra. Þegar sýnileiki samkynhneigðra vex svo um munar erlendis á áttunda áratugnum átti vitund fólks um að það væri á flótta eftir að skýrast til muna.“
Þorvaldur segist hafa fyrst heyrt Guðna Baldursson, fyrsta formann Samtakanna ‘78, nefna hugtakið „kynferðispólitískur flóttamaður“ í sín eyru um samkynhneigða Íslendinga og fundist það merkilegt. Hann kannaðist að vísu við hugtakið úr umræðu heimsins um hlutskipti homma á Kúbu á þessum árum en hafði aldrei fyrr tengt það við eigin þjóð. Hann sannfærðist um að með því mætti brýna vopnin í baráttunni hér á landi.
„Íslenska þjóðin hafði á þessum árum litla hugmynd um hvað hún var að gera þegnum sínum, að hér var um að ræða flóttamannastraum úr landi. Slík gjá var orðin til milli þess lífs sem í boði var á Íslandi og þess lífs sem hommar og lesbíur lifðu úti í hinum stóra heimi.
Sýnileiki, stolt og baráttuhugur, allt var þetta í dásamlegri uppsveiflu vestan hafs og austan á áttunda og níunda áratug aldarinnar. Ísland hafði ekki kveikt á perunni, þar ríktu slíkir fordómar að ekki var við unað þótt þjóðin væri að vísu sundurleit í þeim efnum. Styrkur fordómanna í hverju samfélagi ræðst af svo mörgu, til dæmis aldri, búsetu og menntun og þar var þjóðin margklofin í viðhorfum sínum.
En hér voru á ferð merkilegar þversagnir. Svo lengi sem samkynhneigðir fóru með veggjum fengu þeir að lifa sínu lífi nokkurn veginn óáreittir, enda þótti mörgum af eldri kynslóðunum í okkar hópi það nánast frekja og tilætlunarsemi þegar við hin yngri kröfðumst réttarins til að lifa okkar samkynhneigða lífi í dagsbirtu og ætla okkur sama rétt og aðrir þegnar þegar kom að ástar- og fjölskyldulífi. Þá upphófust átök við íslenskt samfélag sem stóðu í þrjá áratugi í einni eða annarri mynd. Þrjátíu ára stríðið hefur það verið kallað. Um þetta snerist glíman, að ætla sér skilyrðislausan rétt til að gefa sig til kynna og afþakka þá kúgun að leyna tilfinningalífi sínu og bestu tilveru fyrir öðrum.“
Hommar á flótta
Úr sagnasafni Þorvaldar Kristinssonar:
„Upp í hugann kemur maður sem hét Jóhann Gestsson. Sá kunni illa að leynast fyrir heiminum. Hann var það sem sumir kölluðu flamboyant því það var sterk sveifla í honum enda stundum kallaður Malla milljón í hópi félaganna. Hann féll engan veginn að þeim einsleita anda sem ríkti í henni Reykjavík á sjötta áratug aldarinnar og varð iðulega fyrir barsmíðum og misþyrmingum, oftast í skjóli nætur. Af þeim sökum kvaddi hann Ísland, hélt til New York og starfaði lengstum sem rakari á Manhattan, naut ásta annars manns og lifði í þokkalegri sátt við sjálfan sig. Þó segir það sína sögu að hann innréttaði íbúð sína í Hell’s Kitchen upp á íslenskan máta, lét flytja íslensk húsgögn yfir hafið, eldaði íslenska kjötsúpu í hverri viku, í sófanum voru útsaumaðir púðar að íslenskum hætti og á veggjunum íslensk málverk. Hann þráði Ísland á sinn hátt en að lifa þar var honum óbærilegt og í hans augum óhugsandi að búa hér á landi. Til marks um heimþrána má nefna að aldraður maður og farinn að heilsu kom hann heim til að deyja.“
„Eitt sinn var mér sögð saga manns sem kvaddi Ísland ungur á þriðja áratug aldarinnar og hélt til náms í Kaupmannahöfn. Hann menntaðist vel og hlaut góðan starfa, hafði svo sem aldrei hátt um kynhneigð sína að þeirra tíðar hætti en leyndi henni þó ekki fyrir vinum og kunningjum. Einhverja reynslu átti hann svo sára frá Íslandi að hann afbar ekki að vitja sinna gömlu heimkynna og stíga þar á land. Sigldi þó einu sinni með Gullfossi til Reykjavíkur, munstraði sig yfir á næsta strandferðaskip í Reykjavík og sigldi kringum landið til þess svo að stíga aftur um borð í Gullfoss og halda til baka til Kaupmannahafnar. Að sögn þeirra sem til þekktu steig hann aldrei fæti á Ísland nema til að munstra sig milli skipa, svo sárar voru minningarnar um upprunann. Hverjar þær voru veit víst enginn lengur. En eitthvað kallaði, eitthvað togaði.“
„Hann var strákur úr sveit á Suðurlandi og stakk af á skipi til Kaupmannahafnar sautján ára haustið 1937 án þess að láta nokkurn vita af þeim áformum nema mágkonu sína kvöldið sem hann hvarf. Fjölskyldan vissi ekkert um afdrif hans fyrr en eftir heimsstyrjöldina að hann skrifaði heim eftir ótrúlega lífsreynslu. Lengst af þessum árum hafði hann starfað með sirkusfólki og ferðast um álfuna. Um tíma hafði hann lent í einangrunarbúðum nasista, sennilega í Hollandi, eins og títt var um þá sem ekki gátu sannað fasta búsetu á þeim árum. Birtist svo í Kaupmannahöfn eftir stríð, eignaðist heimili á Vesturbrú, stundaði þá skemmtistaði sem hommar sóttu og var langan hluta úr ári háseti á fraktskipum um víða veröld. Hann tók smám saman upp bréfasamband við ættingja sína og reyndist þeim góður gestgjafi í Kaupmannahöfn en kom aldrei til Íslands og dó í Kaupmannahöfn. Eitt sinn tyllti hann niður tánum í flugstöðinni í Keflavík á leið milli heimsálfa eftir að hafa munstrað sig af fraktskipi í Bandaríkjunum en gerði ekki vart við sig hér á landi, gat ekki hugsað sér það. Varðveist hafa bréf frá honum sem lýsa sársauka og biturð, bréf manns sem þekkti tilfinningar sínar en fann þeim ekki stað á Íslandi og sá þann kost einan – að hverfa.“