Á flótta frá Rússlandi

// Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir

Lucy Shtein er ung kona, fædd í Rússlandi árið 1996, sem hlaut íslenskan ríkisborgararétt í vor af mannúðarástæðum. Hún er meðlimur rússneska gjörningahópsins Pussy Riot og aðgerðasinni hjá samtökunum NC SOS Crisis Group sem styðja hinsegin fólk við að flýja frá Norður-Kákasus. Svæðið er afar fjandsamlegt hinsegin fólki sem er ofsótt, beitt ofbeldi og jafnvel myrt vegna hinseginleika síns.


Hjálpar hinsegin fólki að flýja heimaland sitt
Helsta viðfangsefni Lucy Shtein í dag eru hjálparsamtökin NC SOS sem aðstoða hinsegin einstaklinga í Norður-Kákasus í Suður-Rússlandi við að flýja svæðið. Tétenía er sennilega best þekkta fylkið af þeim sjö sem eru í Norður-Kákasus. Téténía hefur ratað í heimsfréttir undanfarin ár fyrir baráttu svæðisstjórnarinnar við rússnesk yfirvöld og einstaklega slæma stöðu mannréttinda á svæðinu.


„Þau eru ofsótt. Það eru til sérstök óformleg fangelsi, sérstaklega í Téténíu. Þetta er hræðilega blóðugt svæði … Rússland er land óskrifaðra laga og Téténía lifir eftir sínum eigin lögum. Fólk getur horfið sporlaust þarna, fólki er rænt, jafnvel utan Norður-Kákasus. Ef fólk frá Téténíu reynir að flýja og fer til Moskvu, þau geta rænt fólki frá öllum svæðum Rússlands. Ríkisstjórnin og lögreglan gera ekki neitt, þeim finnst í lagi að Téténía lifi eftir sínum eigin lögum.“


Téténía telst í dag vera eitt hættulegasta svæðið fyrir hinsegin fólk í Rússlandi og víðar. Hinsegin fólk á á hættu að vera myrt af lögreglu eða jafnvel af sinni eigin fjölskyldu líkt og Lucy greinir frá.


„Það eru tvær tegundir af hættu í Norður-Kákasus. Þú getur verið myrt af lögreglu eða af þinni eigin fjölskyldu. Það að vera samkynhneigð í Téténíu telst vera mikil skömm fyrir fjölskyldu þína og það þarf að skola burt þessari skömm, þau kalla það að skola burtu með blóði …“


NC SOS hefur hjálpað yfir þrjú hundruð einstaklingum að flýja Norður-Kákasus en samtökin geta aðeins fjallað opinberlega um tæp 20 þeirra, einkum vegna hræðslu fólks við að deila reynslu sinni og mögulegum afleiðingum þess.


„Þetta fólk á venjulega ættingja sem búa enn í Téténíu, svo dæmi sé tekið. Ef það spyrst út að samkynhneigð manneskja frá Téténíu hafi flúið land og sé að tala um reynslu sína, þá munu þeir ræna ættingjum þeirra, þeir munu pynta þau.“


Flúði Rússland í dulbúningi
Lucy hefur mótmælt stjórnarfari Pútíns í Rússlandi af miklum krafti frá árinu 2015. Árið 2017 bauð hún sig fram sem óháður frambjóðandi í sveitarstjórnarkosningunum í Moskvu og hlaut kjör til fimm ára. Að vera stjórnmálamaður í minnihlutastjórn í Rússlandi er hægara sagt en gert og Lucy sætti mikilli kúgun vegna stjórnmálaskoðana sinna.


„Þegar ég gekk til liðs við Pussy Riot versnaði það og ég var fangelsuð nokkrum sinnum. Við vorum síðar ákærðar, ég og Maria Alyokhina, kærastan mín, úr Pussy Riot og eyddum um ári í stofufangelsi áður en við flúðum Rússland dulbúnar sem matarsendlar.“


Líkt og hún segir sjálf frá þá slapp Lucy úr stofufangelsi í Rússlandi í mars 2022 dulklædd sem matarsendill. Búninginn hafði hún pantað á netinu og fengið sendan heim. Kærastan hennar, Maria Alyokhina, einn af stofnmeðlimum Pussy Riot flúði Rússland með sama máta nokkrum mánuðum á eftir Lucy.


„Maria átti engin skilríki og ég átti erlent vegabréf sem hafði runnið út, það var aðeins gilt í nokkra mánuði og þar sem við erum á lista yfir eftirlýsta í Rússlandi þá getum við ekki fengið neitt framlengt eða fengið ný skilríki. Þannig að við fórum frá Rússlandi án skilríkja.“


Þakklát fyrir íslenska ríkisborgararéttinn
Lucy hlaut íslenskan ríkisborgararétt núna í maí að tillögu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sem tekur fyrir umsóknir um ríkisborgararétt. Maria, kærastan hennar, hlaut einnig ríkisborgararétt á sama tíma. Það var listamaðurinn Ragnar Kjartansson sem hjálpaði þeim í ferlinu og hvatti þær til þess að koma til Íslands en Lucy og Maria kynntust Ragnari eiginlega fyrir tilviljun þegar hann kom til Moskvu til að opna listasýningu. Sameiginlegur vinur þeirra vildi að þau myndu öll hittast og urðu sú kynni afar afdrifarík.


„Við héldum sambandi við hvert annað og eftir það vorum við handteknar nokkrum sinnum, fórum í fangelsi í fimmtán daga og svo aftur í fimmtán daga, og svo byrjaði stríðið. Öll voru að segja okkur að fara og Ragnar var mjög stressaður og hafði áhyggjur af okkur. Hann sagði okkur að koma til Íslands og að þau myndu hjálpa okkur að flýja frá Rússlandi.“


Ragnar benti þeim á að hægt væri að leggja fram umsókn um íslenskan ríkisborgararétt til Alþingis undir ákveðnum kringumstæðum, sérstaklega ef enginn önnur leið til ríkisborgararéttar eða dvalarleyfis stæði þeim til boða. Lucy og Maria gerðu það og bárust þær fregnir í maí að umsókn þeirra hefði verið tekin til greina af nefndinni og samþykkt. Aðspurð segist Lucy mjög þakklát fyrir ríkisborgararéttinn.

NC SOS samtökin styðja hinsegin fólk í að flýja Norður Kákasus svæðið í Rússlandi. Þau sem vilja styðja við starf NC SOS geta gert það á styrktarsíðu samtakanna. Lucy og aðrir fulltrúar NC SOS taka þátt í Regnbogaráðstefnu Hinsegin daga, 10. ágúst.