Aðalfundur Hinsegin daga í Reykjavík – Reykjavik Pride verður haldinn þriðjudaginn 30. nóvember 2021, kl. 19:00.
Fundurinn fer fram í húsnæði Samtakanna 78 við Suðurgötu 3.
Dagskrá og félagsaðild
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins. Rétt til fundarsetu með kosningarétt hafa félagar sem greitt hafa félagsgjald. Félagsaðild kostar 500 kr. og er hægt að gerast félagi eða endurnýja félagsaðild fram að aðalfundi.
Framboð til stjórnar og skoðunarmanns reikninga
Samkvæmt samþykktum félagsins skal á aðalfundi kjósa sjö stjórnarmenn til eins árs í senn. (Vakin er athygli á fyrirliggjandi lagabreytingatillögu um tveggja ára stjórnarsetu) Embættin sjö sem kosið er um eru formaður, gjaldkeri, ritari og fjórir meðstjórnendur. Athygli er vakin á að samkvæmt samþykktum félagsins þurfa frambjóðendur að hafa starfað með samstarfsnefnd Hinsegin daga að einni hátíð hið minnsta. Fundurinn kýs einnig skoðunarmann reikninga félagsins.
Framboð skulu berast skriflega á netfangið pride@hinsegindagar.is fyrir kl. 19:00 laugardaginn 27. nóvember, þ.e. þremur sólarhringum fyrir aðalfund. Frambjóðendur skulu tilgreina þau embætti sem þeir sækjast eftir. Athugið að kosið er um einstaklinga en ekki lista.
Nánari upplýsingar um verkefni stjórnar veitir Ásgeir Helgi Magnússon, fráfarandi formaður Hinsegin daga, á netfanginu asgeir@hinsegindagar.is .
Einnig er auglýst eftir framboðum í göngustjórn. Göngustjórn Hinsegin daga annast undirbúning, framkvæmd og öryggismál Gleðigöngunnar sem er hápunktur hátíðahalda Hinsegin daga.
Framboð skulu berast skriflega á netfang göngustjórnar, gongustjorn@hinsegindagar.is fyrir 19:00, laugardaginn 27. nóvember. Skipað er í göngustjórn skv. félagslögum (gr 5.1) að aðalfundi loknum.
Breytingar á samþykktum félagsins
Tillögur að breytingum á samþykktum Hinsegin daga skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. október og skulu sendar út með aðalfundarboði.
Stjórn Hinsegin daga leggur fram svo hljóðandi tillögu
Stjórnarmeðlimir kosnir til tveggja ára í senn og víxlast þannig að annað ár er kosið í embætti formanns og tveggja meðstjórnenda og hitt árið er kosið í embætti gjaldkera, ritara og tveggja meðstjórnenda.
Grein 4.1 yrði þá svo hljóðandi.
Félagar kjósa stjórn á aðalfundi til að gegna embættum formanns, ritara, gjaldkera og fjögurra meðstjórnenda, til tveggja ára í senn. Kosið er í embætti á víxl á tveggja ára fresti. Annars vegar í embætti formanns og tveggja meðstjórnenda og hins vegar í embætti gjaldkera, ritara og tveggja meðstjórnenda. Kosning skal vera leynileg ef fleiri en einn eru í framboði til einstakra embætta. Hver einstaklingur getur ekki gegnt sama embætti í stjórn lengur en sex ár samfleytt og ekki átt samfellda setu í stjórn félagsins lengur en í tíu ár.
Núgildandi samþykktir Hinsegin daga má finna á heimasíðu Hinsegin daga í Reykjavík.
Reykjavik Pride hereby announces its annual general meeting.
The meeting will be held at Samtökin 78, Suðurgata 3 on Tuesday 30 November at 6 PM.
Please note that the meeting will be held in Icelandic.
The programme includes a report from the board of directors, a report from the treasurer, board election and other matters.
Persons interested in standing for this year’s election are kindly requested to contact the board of Reykjavik Pride before 6 PM on Saturday 27 November and announce their candidacy (via pride@hinsegindagar.is). The electoral period is one year. Please note that eligible candidates need to have worked with the board of Reykjavik Pride for at least one pride festival.