Aðeins helmingsréttindum náð

Höfundur: Daníel E. Arnarsson

46% misrétti
ILGA-Europe, regnhlífarsamtök hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu, gefur út Regnbogakort í maí ár hvert. Regnbogakortið greinir lagaleg réttindi hinsegin fólks í öllum ríkjum Evrópu og Mið-Asíu. Á sama tíma og kortið er góður samanburður á ríkjum álfunnar er það einnig mikilvæg heimild fyrir okkur sem vinnum í hagsmunabaráttu í hverju ríki. Samtökin ’78 hafa unnið náið með ILGA-Europe við uppfærslu kortsins og þurfa því að vera vel vakandi fyrir breytingum á lagaumhverfi hinsegin fólks.

Ísland á Regnbogakortinu
Regnbogakortinu er skipt upp í sex flokka: jafnrétti og bann við mismunun, fjölskyldumál, hatursglæpi og -áróður, líkamlega friðhelgi og viðurkenningu á skráðu kyni, borgaraleg afnot af rými og landi og loks málefni er tengjast alþjóðlegri vernd. Heildareinkunn Íslands er 54% en einkunn fyrir hvern flokk er breytileg, t.d. fær Ísland 100% þegar kemur að borgaralegum afnotum af rými og landi en aðeins 17% þegar kemur að alþjóðlegri vernd.

Hafa ber í huga að Regnbogakortið tekur á ýmsum málum þegar kemur að hinseginleika en meginreglan er sú að gefin eru stig fyrir þrjá þætti innan hvers flokks: Kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni. Stundum eru stig gefin fyrir góðar ráðstafanir í hverjum málaflokki og lög er tengjast hugtökunum þremur á víðari hátt en einnig er litið til stærri stefna eða aðgerðaráætlana sem eru þá bundnar í lög.

Jafnrétti og bann við mismunun
Í þessum flokki skorar Ísland 38% og flest þau skilyrði sem Ísland uppfyllir er að finna í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sem samþykkt voru á Alþingi 1. júní 2018. Þar er skýrt kveðið á um að ekki má mismuna fólki vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna á vinnumarkaði. Einnig fær Ísland prik í kladdann vegna grunnskólalaga en í þeim er bannað að mismuna á grundvelli kynhneigðar. Aukinheldur eru það almenn hegningarlög sem veita hinsegin fólki réttindi, þ.e. að bannað er að mismuna á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar þegar kemur að almennri þjónustu. Það sem þó skortir eru heildarlög fyrir intersex fólk (kyneinkenni) en aðeins er minnst á kyneinkenni í nýjum lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði en ekki öðrum lögum sem falla undir málaflokkinn.

Hver eru næstu skref í þessum flokki? Að samþykkja almennileg lög er fjalla um réttindi intersex fólks, víkka þau lög sem fyrir eru og bæta þar inn kynvitund og kyneinkennum, leyfa blóðgjafir karla sem sofa hjá körlum, banna meðferð gegn samkynhneigðum og öðru hinsegin fólki sem og að setja stefnu til framtíðar er tekur á málaflokknum almennt.

Fjölskylda
Í þessum flokki skorar Ísland heil 83%, sem vafalaust telst mjög góður árangur. Árið 2010 voru ein hjúskaparlög samþykkt en með þeim gafst samkynja pörum kostur á að ganga í hjónaband. Samkynja pör eiga þess einnig kost að verða foreldrar og í lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna er öllum tryggt að eignast börn í gegnum tæknifrjógvun óháð kynhneigð til dæmis. Þrátt fyrir að margt gott hafi áunnist í þessum málaflokki á síðustu árum og áratugum þá eigum við enn eftir að setja almennileg lög er gera ráð fyrir trans foreldrum. Sameiginlegt forræði samkynja para er heldur ekki endilega meginreglan í lögunum, því þó að bæði í barnalögum og hjúskaparlögum sé minnst á sameiginlegt forræði gerist það ekki ósjálfrátt að hinsegin foreldrar séu skráðir foreldrar.

Hatursglæpir og -áróður
Undirritaður telur að árangur Íslands í þessum flokki komi fólki hvað mest á óvart en Ísland skorar aðeins 26%, og það í flokki sem ekki þarf mikið til að uppfylla skilyrði. Á Íslandi eru einfaldlega engin lög þegar kemur að hatursglæpum gegn þeim hópum sem falla undir flokkana kynhneigð, kynvitund og/eða kyneinkenni. Það eina sem Ísland uppfyllir er hatursáróður þegar kemur að kynhneigð og kynvitund og þess ber að geta að kynvitund kom þar inn fyrir tilstilli Evrópulöggjafar. Því er margt sem þarf að bæta í málaflokknum. Fyrst og fremst þurfa íslensk stjórnvöld að setja sér metnaðarfulla stefnu til að sporna gegn hatri í hvaða formi sem er. Hatursglæpir og -áróður fer vaxandi og stjórnvöld verða að veita málaflokknum aukna athygli. Einnig þarf að uppfæra almenn hegningarlög þegar kemur að hatursáróðri og bæta þar við kyneinkennum og kyntjáningu sem og að setja ný lög er taka á hatursglæpum fyrir alla hópa hinsegin samfélagsins. Eins og er þá er lítil sem engin vernd fyrir hinsegin fólk í núgildandi lögum.

Líkamleg friðhelgi og viðurkenning á skráðu kyni
Það braust út mikill fögnuður þegar Alþingi samþykkti lög um kynrænt sjálfræði. Með þeim voru loksins komin almennileg heildarlög fyrir trans fólk og kynsegin fólk sem veittu þeim hópi rétt til að skrásetja kyn sitt á þann hátt er hann kaus og viðurkenndu tilvist þeirra sem falla ekki inn í kynjatvíhyggjuna með því að gefa leyfi fyrir X-skráningu í Þjóðskrá. Lög um kynrænt sjálfræði veittu fullorðnu intersex fólki vernd og sjálfsákvörðunarrétt, en því miður ekki intersex börnum undir sextán ára aldri. Því hafa þau mál verið í nefnd á vegum forsætisráðuneytisins og mun hún skila af sér niðurstöðum í ágúst. Þjóðskrá þarf einnig að kynna X-merktu skráninguna núna í desember og allar opinberar stofnanir sem safna kynskráningum á einhvern máta þurfa að bjóða upp á þriðju kynskráninguna. Samtökin ’78 og Trans Ísland hafa útbúið leiðbeiningar fyrir stofnanir og fyrirtæki er safna kynskráningum og þær má finna á vef Samtakanna ’78. Það sem þarf að gerast er að Alþingi samþykki breytingar nefndarinnar sem nú er að störfum og veiti öllu intersex fólki, óháð aldri, líkamlega friðhelgi.

Borgaraleg afnot af rými og landi
Í þessum flokki fær Ísland fullt hús stiga. Á Íslandi má boða til fjöldafunda er varða málefni hinsegin fólks, hér eru hinsegin aktívistar ekki í hættu, engar hömlur eru á starfsemi frjálsra félagasamtaka er tengjast hinsegin málefnum og ríkisvaldið hindrar ekki samtök hinsegin fólks í að fjármagna sig heldur þvert á móti tekur þátt í fjármögnun þeirra. Eins er ekkert sem bannar að hinsegin fólk tjái sig eða að fjallað sé um það, t.d. í fjölmiðlum.

Alþjóðleg vernd
Í fyrsta skipti í ár fékk Ísland einhvern punkt í þessum málaflokki en það var vegna laga um kynrænt sjálfræði og að hælisleitendur geta nú sótt um breytingu á kynskráningu og nafni. Annars er fátt annað hér að finna í málaflokknum. Ekki er litið til kynhneigðar, kynvitundar eða kyneinkenna þeirra einstaklinga sem leita að alþjóðlegri vernd á Íslandi og ekki er minnst einu orði á hinsegin fólk í útlendingalögum, ekki einu sinni þar sem fjallað er um viðkvæma hópa. Þrátt fyrir að í greinargerð frumvarpsdraga útlendingalaga mætti finna eitthvað um hinsegin fólk þá rataði það ekki inn í lögin. Lögskýringartexti er einfaldlega ekki lög og sérstaklega ekki þegar lögunum er ekki beitt á þann hátt sem lögskýringartexti mælti fyrir um eða gaf vísbendingu um. Í þessum flokki þarf að gera stórvægilegar breytingar, viðurkenna að hinsegin fólk sé vissulega í viðkvæmum hópi og setja hér stefnu til framtíðar í útlendingamálum.

Lög fyrir hver?
En af hverju er svo mikilvægt að nefna hinsegin fólk eða hinseginleika, t.d. kynvitund, kynhneigð og kyneinkenni, í lögum? Af hverju á að setja sér lög um hinsegin fólk? Vegna þess að innan hinsegin samfélagsins má finna mjög jaðarsetta hópa sem þarf að vernda með lögum. Hinsegin fólk er berskjaldaðara en aðrir þegar kemur að fordómum, ofbeldi og annars konar mismunun. Velferðarríki sem kennir sig við jöfnuð og jafnrétti skal setja sér metnaðarfulla löggjöf er verndar þau sem eru „á skjön“ eða ekki „í norminu“. Hinsegin fólk hefur barist ötullega fyrir réttindum sínum og þó að margt hafi áunnist á síðustu árum, sérstaklega þegar kemur að kynhneigð, þá er fullu jafnrétti ekki náð fyrr en öllum hópum hinsegin samfélagsins er tryggður réttur. Það er þunglamalegt og erfitt að setja lög en það er mögulegt að taka þau af okkur með einu pennastriki. Því hefur það aldrei verið jafn mikilvægt að hinsegin fólk standi með hvert öðru og þrýsti á um metnaðarfyllri löggjöf fyrir okkur öll. Gleymum því ekki að á meðan aðeins 54% réttindum er náð þá eigum við eftir 46% af sjálfsögðum réttindum. 46% misrétti.

Frekari upplýsingar
Regnbogakort ILGA-Europe er opinbert á vefsíðunni rainbow-europe.org. Samtökin ’78 vinna að því að þýða Regnbogakortið á íslensku og verður það opinbert á vef Samtakanna ’78 í ágúst. Ef þú, lesandi góður, vilt leggja okkur lið þá minnum við á sjálfboðaliðaverkefnin okkar og að hafa samband við okkur. Næstu skref eru stór og það tekur á að fylla upp í þessi 46%. Þú getur orðið að liði.