Aðgengismál 2024

Hinsegin dögum er umhugað um að dagskrá hátíðarinnar sé aðgengileg öllu hinsegin fólki.

Hér má finna helstu aðgengisupplýsingar.

Hafir þú sértækar aðgengisþarfir eða vilt fá frekari upplýsingar, getur þú haft samband við pride@hinsegindagar.is

Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi er sérstakur styrktaraðili aðgengismála á Hinsegin dögum í Reykjavík.


Aðgengi í Pride Centre

Pride Centre ársins 2024 er í Iðnó við Tjörnina. 

Hjólastólaaðgengi: Aðalinngangur Iðnó er nægilega breiður fyrir flestar tegundir hjólastóla. Athugið að takki er til að opna aðalinnganginn, en hann getur verið stífur og dyrnar eru þungar. Húsnæðið er á tveimur hæðum. Lyfta er á aðra hæð og er hún nægileg kraftmikil fyrir flestar tegundir stóla (nánar í myndbandi). Salerni fyrir hreyfihömluð er á jarðhæð. 

Hljóðvist: Hljóðvist í Iðnó er til fyrirmyndar í hátíðarsalnum og með ágætum í Sunnusal. Í andrými Iðnó er hljóðvist ekki sérstök en mikið er um umhverfishljóð og kliður ef fjöldi er mikill. Þau sem nota heyrnatæki geta notað þau án vandkvæða. Þegar mörg eru í Iðnó þá getur skynáreiti verið töluvert, sérstaklega í Sunnusal og við inngang en í hátíðarsal er rýmið það stórt að hljóð dreifist vel og því ekki nema á mjög fjölmennum viðburðum þar sem skynáreiti getur orðið mikið. Hægt er að nálgast ókeypis eyrnartappa í Hinsegin kaupfélaginu á meðan að hátíð stendur. 

Salerni: Salerni á neðri hæð er aðgengilegt. Salerni verða öll kynhlutlaus á meðan að hátíð stendur. 

Bílastæði: Næstu P-merkisstæði eru á Lækjargötu við Tjarnarskóla og á Kirkjutorgi við Templarasund, en einnig eru stæði fyrir hreyfihamlaða á Tjarnargötu og í Ráðhúsinu. 


Aðgengi á viðburðum

Viðburðir Hinsegin daga eru að mestu haldnir í Pride Centre, en eru einnig á fleiri stöðum víðsvegar um bæinn. Aðgengi á OFF-VENUE viðburðum er ekki á ábyrgð Hinsegin daga.

Salerni eru merkt með hvítum WC-merkingum. Salerni með bleikri merkingu er aðeins fyrir listafólk og skipuleggjendur hátíðarinnar. Regnbogi á hátíðarflöt markar aðgengispall hjólastólanotenda.

Áhorfendapallurinn er upphækkaður og þar er gott útsýni yfir sviðið.
Pallurinn er nálægt göngustíg og aðgengilegu klósetti.

Hljómskálagarður

Útihátíð Hinsegin daga fer fram í Hljómskálagarðinum. Þar verður sérstakur áhorfendapallur fyrir hjólastóla, sem er merktur með regnbogafána, auk Evrópusambandsfána, en pallurinn er í samstarfi við sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi og fleiri sendiráð. Hægt verður að nálgast eyrnatappa við aðgengispallinn. Klósett fyrir hreyfihamlaða verða við svið, norðvestan við Þorfinnstjörn og við inngang í garðinn gegnt Bragagötu (sjá kort). 

Gleðigangan

Bílastæði fyrir hreyfihamlaða þátttakendur í göngunni verða við Tækniskólann við Hallgrímskirkju. Bílar með P-merki komast í gegnum mannaða lokun við gatnamót Barónsstígs og Eiríksgötu.

Gamla bíó

Viðburður: Drag me to Pride

Notendur hjólastóla fara inn um inngang að Petersensvítunni. Salerni fyrir hreyfihömluð er á efstu hæð. 

Gróska

Viðburður: Opnunarhátíð

Aðgengi í Grósku er mjög gott og hljóðvistin fín. Viðburðurinn verður almennt standandi en stólar verða aðgengilegir fyrir þau sem þá þurfa. Salernisaðstaða fyrir hreyfihömluð er til staðar. Viðburðurinn verður táknmálstúlkaður. 

Hinsegin félagsmiðstöðin

Viðburður: Setning Hinsegin daga

Regnbogamálun og setning hátíðarinnar fer fram fyrir utan Hinsegin félagsmiðstöðina. Jarðhæð félagsmiðstöðvarinnar er aðgengileg heyfihömluðum og þar eru tvö aðgengileg salerni.


Táknmálstúlkun

Hinsegin dagar bjóða upp á táknmálstúlkun í stórhátíðardagskrá og hægt er að panta túlka táknmálstúlkun á aðra formlega dagskrárliði í gegnum Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hinsegin dagar bjóða ekki upp á táknmálstúlkun á OFF-VENUE dagskrárliðum, en upplýsingar um táknmálstúlkun eru á dagskráryfirliti á vef hátíðarinnar. 

Viðburðir sem verða í öllum tilfellum túlkaðir í heild sinni:

  • Opnunarhátíð // Túlkar munu standa á sviðinu.
  • Útihátíð eftir Gleðigöngu // Túlkar munu standa á sviði. Stækkaðri mynd af túlkum verður streymt á skjáinn vinstra megin við sviðið séð frá áhorfendum. 

Aðrir viðburðir

Hægt er að óska eftir túlkun á kostnað Hinsegin daga á þeim viðburðum þar sem talað mál er í fyrirrúmi. Vinsamlega bókið túlkun frá SHH með fyrirvara.

Árið 2022 var haldin samkeppnin Hýr tákn, þar sem gerð voru tákn fyrir nýleg hýryrði.


Fjárhagslegt aðgengi

Hinsegin dagar bjóða upp á fjölmarga ókeypis viðburði. Í öðrum tilvikum er aðgangseyri stillt í hóf. Við viljum ekki að aðgangseyrir á opnunarhátíð og lokahóf sé útilokandi fyrir hinsegin samfélagið, svo ef þú treystir þér ekki til að greiða fyrir miða getur þú sótt um frímiða í forminu hér til hliðar.

Sorry. This form is no longer available.