Í ágúst 2019 áttu skipuleggjendur Hinsegin daga fund með lögreglu. Á þeim fundi voru aðilar, sem höfðu mótmælt við Opnunarhátíð Hinsegin daga nokkrum dögum áður, nafngreindir.
Að baki samskiptum Hinsegin daga við lögreglu lá enginn ásetningur annar en að leita ráða um hvernig best mætti tryggja öryggi meðan á Gleðigöngunni stæði. Síðar áttu þessi samskipti þó eftir að vera notuð sem rökstuðningur fyrir harkalegri og ástæðulausri handtöku Elíar/Elínborgar Hörpu og Önundarburs fyrir upphaf Gleðigöngu Hinsegin daga það ár.
Okkur er ljóst að það að nafngreina aðila í þessum samskiptum voru mistök. Sama gildir um sein viðbrögð, samskipta- og stuðningsleysi af hálfu Hinsegin daga í kjölfar handtökunnar. Á öllu þessu biðjumst við innilega afsökunar og hörmum þessi mistök.
Það er okkur algjört keppikefli að skapa vettvang þar sem allt hinsegin fólk upplifir sig öruggt og velkomið. Það er einlægur ásetningur okkar sem störfum fyrir félagið að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig, um leið og við höldum áfram að leggja okkar lóð á vogaskálarnar til að auka sýnileika og styðja við áframhaldandi réttindabaráttu alls hinsegin fólks.
Stjórn Hinsegin daga 2022