„Andskotinn! Ég þarf að setja í svo margar vélar“

Hurðin er opnuð snaggaralega enda er líklega enginn tími fyrir neitt hálfkák á þessum bæ. Fyrir innan stendur hún brosleit og útitekin eftir góða daga fyrir norðan í skógrækt með fjölskyldunni. Hún er með símann við eyrað. Það krefst eflaust góðs skipulags og margra símtala að halda á lofti öllum þeim boltum sem fylgja því að vera söngkona, fasteignasali, húsmóðir og margt fleira. Þegar símtalinu lýkur setjumst við niður með kaffibolla til að ræða málin því frá mörgu eru að segja.

Viðtalið tók Gunnlaugur Bragi Björnsson.

Hækja, sæng eða teppi

Hera Björk Þórhallsdóttir er fyrir löngu orðin þekkt í tónlistarheiminum, bæði hér heima og erlendis, en hún hefur einnig skipað sér sérstakan sess sem vinur hinsegin samfélagsins. Reglulega hefur hún komið fram á hinsegin tengdum viðburðum hérlendis og á erlendri grundu, allt frá því hún kom fram á EuroPride í Kaupmannahöfn árið 1996 sem var fyrsta pride-hátíðin þar í borg. Stundum hefur hún jafnvel verið kölluð hommahækja Íslands.

„Ég gaf mér þann titil ekki sjálf!“ segir Hera og hlær. „Ég er ekki talskona hommahækjunnar því mér finnst hugtakið niðrandi. Hommar þurfa engar hækjur og við sem stöndum með hinsegin fólki upplifum okkur ekki sem einhverjar hækjur. Ég myndi frekar segjast vera sæng eða teppi.“ Hún segir þó að ef orðið sé notað í jákvæðri merkingu eigi það við um hana. „Á meðan orðið er hlaðið ást og virðingu skal ég glöð vera hommahækja, enda á ég gylltar hommahækjur sem ég nota við góð tilefni,“ segir Hera.

Á flakki með frægri móður

Hera á ekki langt að sækja tónlistina en móðir hennar, Hjördís Geirsdóttir, var um árabil ein þekktasta söngkona þjóðarinnar. „Það að alast upp við tónlist og landsþekkta móður er í raun bæði alveg frábært og um leið krefjandi og var oft erfitt fyrir unga stúlku,“ segir Hera og viðurkennir að stundum hafi hún reynt að afneita móður sinni. „Ég átti það til að segjast vera dóttir Röggu Gísla,“ segir hún og hlær. „Mér fannst hún bara svo hrikalega kúl.“

Hinni landsþekktu söngkonu fylgdi umstang og ferðalög sem Hera, ung að árum, tók þátt í með móður sinni. „Mamma var á flakki úti um allt og varð bara að hafa mig og Lóu systur með. Við þvældumst með henni um allt land og ég lærði mikið af því. Við hittum mjög margt fólk og lærðum öll lög og texta bara með því að vera þarna og fylgjast með.“ Þannig segir Hera að lærdómurinn sem þessu fylgdi hafi vegið upp ókostina og gott betur. „Þarna fékk ég bransann beint í æð, eiginlega bara með móðurmjólkinni. Maður lærði svo vel af mömmu að tala við alls konar fólk.“

Söng Guttavísur á koppnum

Hera er næstelst í hópi fjögurra systkina sem öll eru músíkölsk þótt Hera sé sú eina sem hefur lagt tónlistina fyrir sig. „Það var alveg ljóst frá upphafi að ég færi í þetta,“ segir hún brosandi. „Það eru sögur af mér, frá því áður en ég lærði að tala, syngjandi Guttavísur utanbókar sitjandi á kopp. Svoleiðis sögur skilst mér að séu ansi týpískar frá uppvexti tónlistarfólks.“ Það stendur ekki á svari þegar Hera er spurð hvort aldrei hafi neitt annað komið til greina en tónlistin, hvort hún hafi aldrei viljað verða læknir, prestur eða geimfari. „Sko, séra Hera hljómar náttúrlega ótrúlega vel. Ég var alltaf með það á bak við eyrað ef ekkert annað virkaði. Gallinn er kannski að ég er ekki sannfærð um þennan eina guð. Mér finnst svo margir guðir hafa eitthvað til síns máls svo ég veit ekki alveg hversu sannfærandi séra Hera hefði orðið.“

Þó að Hera hafi alltaf stefnt á frama á sviði tónlistar hefur hún líka reynt að losna undan þeim harða húsbónda sem tónlistin getur verið. „Þetta er svo ótrúlega krefjandi. Það að standa í sviðsljósinu, í allri athyglinni, krefst alveg rosalega mikillar orku og ég bugaðist alveg á tímabili og reyndi að koma mér út úr þessu.“ Í dag, eftir aukna umræðu um streitu og álag, telur Hera að líklega hafi kulnun (e. burnout) verið ástæða þess að hún reyndi að losna úr tónlistinni upp úr aldamótum. „Þá ákvað ég að flytja norður og læra viðskiptafræði í Háskólanum á Akureyri. Ég held ég hafi samt aldrei sungið eins mikið og þá. Ég þeyttist á milli landshluta til að syngja og var í tveimur sýningum í Borgarleikhúsinu samhliða fullu námi og með barn fyrir norðan svo flækjustigið við þetta varð ennþá meira.“ Ofan á mikið álag bættist svo að Heru leiddist námið óskaplega. „Eftir tvö ár í viðskiptafræðinni hugsaði ég bara „vá hvað þetta er leiðinlegt!“ Ég svona rétt skreið í gegnum prófin og bókstaflega sá gerviblómin í gluggunum fölna. Þá allt í einu fattaði ég að ég væri ekki að blómstra í þessu.“ Hera hætti því í náminu og flutti til Danmerkur og settist þar aftur skólabekk. „Þá fór ég í söngkennaranám í fræðum sem kallast Complete Vocal Technique sem var ást við fyrstu heyrn og sýn. Ég kláraði það nám og hef verið í þeim fræðum alveg síðan. Í dag á ég söngskóla með Aldísi Fjólu þar sem við breiðum út þessa tækni til að létta söngvurum lífið.“

Þótt ástríðan fyrir tónlistinni hafi orðið ofan á og Hera segi ekkert annað í boði fyrir sig finnst henni samt mikilvægt að vera með mörg ólík járn í eldinum. „Í dag er ég að vinna í alls konar öðru líka sem ég held að haldi mér á lífi. Ef maður er bara í sviðsljósinu, þar sem allt snýst um mann sjálfan, þá getur verið svo auðvelt að einangrast frá mannfólkinu.“

Stefnan sett á Eurovision

Þar sem hún nánast fæddist syngjandi kemur kannski ekki á óvart að Hera hafi ung ákveðið að setja stefnuna á Eurovision. „Ég vissi það nú bara í maí árið 1976,“ segir hún og skellihlær enda þá ekki nema fjögurra ára gömul. „Ég vissi alltaf að ég stefndi á Eurovision enda var það lengi vel það eina sem blasti við tónlistarfólki á Íslandi,“ segir hún. „Það var kannski ekki fyrr en Björk fór að opna okkur svolítið gagnvart alþjóðasamfélaginu og heimurinn uppgötvaði Ísland að það fóru að vera fleiri möguleikar í boði, enda hugnast Eurovision-leiðin auðvitað ekki öllum,“ segir Hera og bætir við: „en ég var alltaf staðráðin í að ætla í Eurovision. Þetta er stærsti sjónvarpsviðburður í heimi og þar af leiðandi frábær leið til að kynna sig, sem skiptir öllu máli í þessum bransa.“

Leið Heru í Eurovision byrjaði árið 2008 þegar hún fór til Belgrað í Serbíu ásamt Friðriki Ómari og Regínu Ósk. „Það var frábær upplifun að fá að fara með þeim. Ég skemmti mér gríðarlega vel þar sem bakrödd og var mjög forvitin að fylgjast með öllu, kynnast fólki og sjá hvernig þetta fer allt fram.“ Þar kynntist Hera dönskum lagahöfundum sem höfðu áhrif á hennar næstu skref í keppninni. „Ég kynntist þarna stelpum sem vildu fá að senda mér lög sem ég tók að sjálfsögðu vel í. Nokkrum mánuðum seinna sendu þær mér svo lög og þar á meðal var lagið Someday sem náði mér strax. Ég samþykkti að syngja það inn svo þær gætu reynt fyrir sér í dönsku undankeppninni, Melodi Grand Prix.“ Lagið komst inn í undankeppnina en ekki var þó hlaupið að því að Íslendingur fengi að syngja lagið þótt Hera væri búsett í Danmörku á þeim tíma. „Það þurfti að sækja um það og halda sérstakan útvarpsráðsfund til að taka ákvörðun en ég fékk að lokum að taka þátt sem var algjört ævintýri. Þar lenti ég í öðru sæti sem reyndist verða leiðin mín aftur heim til Íslands,“ segir Hera og bætir við að á einu kvöldi hafi hún orðið altöluð á Íslandi. „Íslendingar voru alveg brjálaðir út í Dani fyrir að hafa ekki látið mig vinna,“ segir hún og hlær. „Það var bara eins og íslenska þjóðin hefði þarna ákveðið að sýna þeirri dönsku hvað ég gæti svo það lá bara beint við að ég færi í íslensku keppnina árið á eftir.“ Úr varð að Hera og Örlygur Smári sömdu lagið Je Ne Sais Quoi sem varð framlag Íslands í Ósló árið 2010. „Við fórum út og lagið er enn eitt mest spilaða og tekjuhæsta íslenska Eurovision-lagið. Lag Hatara er nú sennilega búið að sprengja það, sem er bara hið besta mál – það var kominn tími á að hvíla drottninguna aðeins,“ segir Hera og glottir.

Í kjölfarið opnuðust ýmsar dyr og Hera er enn þekkt í Eurovision-heiminum. „Ég hef verið ótrúlega heppin og er ennþá það sem kallast „fan favorite“ og fæ reglulega boð um að syngja hist og her um allan heim,“ segir hún og bendir á að keppnin hafi einnig skapað henni tækifæri utan Evrópu. „Í kjölfar Eurovision fékk ég tækifæri til að fara til Síle þar sem ég tók þátt í risastórri suður-amerískri söngvakeppni. Þá keppni sigraði ég sem var mjög súrrealísk upplifun.“ Hera segir að í þessum efnum sé mikilvægt að hafa opinn huga og stíga ölduna. „Eitt leiðir einfaldlega af öðru. Maður verður bara að passa sig á að þykjast ekki vita betur. Um leið og maður telur sig vita æðislega mikið, þá fyrst veit maður ekkert.“

Sárnaði umfjöllun fjölmiðla

Fyrir hinn almenna áhorfanda virðist allt ganga smurt í keppni eins og Eurovision en Hera segir raunveruleikann allt annan. „Þetta er aldrei smurt. Á bak við tjöldin er allt dramað og vesenið á sínum stað en þetta verður auðvitað að líta út fyrir að vera fullkomið því annars færu allir á taugum,“ segir hún og bendir á að frammistaðan á stóra sviðinu skipti máli fyrir fleiri en bara sjálfan flytjandann. „Það er ekki bara ég sem stend þarna á sviðinu heldur líka öll fjölskyldan og allir vinir mínir. Ef eitthvað myndi sjást á mér, að ég sé að bogna eða fríka út, þá fær öll fjölskyldan að heyra það í Bónus daginn eftir. Maður þarf bara að halda andlitinu,“ segir Hera hugsi. „Í rauninni þarf stáltaugar til þess að taka þátt í þessu. Við höfum alveg séð fólk koma illa út úr þessu, flotta einstaklinga sem bara bognuðu undan álaginu sem getur auðveldlega gerst því þetta er drulluerfitt.“ Þó að álagið hafi verið mikið segir Hera sína upplifun góða sem sé fyrst og fremst frábæru samstarfsfólki að þakka. „Það var rosalega vel passað upp á mig,“ segir hún og leggur áherslu á að teymið verði að þekkja vel til og vita hvenær þurfi einfaldlega að loka flytjandann inni í herbergi til að hvílast. „Mér var til dæmis bara skammtaður einn klukkutími á dag fyrir fjölmiðlaviðtöl sem er frábær aðferð því þá verða allir svo æstir í að komast að. Þetta vissu Valli, umboðsmaðurinn minn, og Lóa systir, sem var framkvæmdastjóri hópsins, þannig að ég var bara leidd niður í viðtöl í klukkutíma og svo leidd burt aftur.“

Hera viðurkennir að henni hafi sárnað sumt sem fram kom í fjölmiðlum meðan á Eurovision-ævintýrinu stóð.„Það var mikið skrifað um útlit mitt. Ég þótti of feit og spurt af hverju ég gæti ekki bara grennt mig, líka í íslenskum fjölmiðlum. Það sárnaði mér gríðarlega. Þarna var Hera litla að gera sitt besta og reyna að skína með röddinni sinni en á sama tíma voru einhverjir bara að pæla í því hvernig hún leit út og hnýta í það. Þarna þurfti ég að taka samtal við sjálfa mig og passa að missa ekki sjónar á því sem raunverulega skipti máli.“ Í framhaldinu var það eitt af verkefnum teymisins að halda svona fréttum frá Heru sem hvorki fékk að hafa tölvu né síma með sér upp á hótelherbergi. „Þau voru kannski alveg brjáluð yfir einhverju en héldu því burtu frá mér og létu mig aldrei heyra af því,“ segir Hera og bendir á að sumar evrópskar forsíður hafi verið ansi ruddalegar. „Ein fyrirsögnin var „Ísland étur Evrópu“ með mynd af mér og „íslenski flóðhesturinn stígur á svið“ og eitthvað fleira í þeim dúr,“ segir hún, þakklát sínu fólki sem hélt slíku frá henni meðan á keppninni stóð. „Ég fékk heldur ekki að vita Ronnie James Dio, uppáhaldssöngvarinn minn, hefði látist meðan á öllu þessu stóð. Ég var svo bara alveg miður mín þegar ég fékk loksins fréttirnar tveimur eða þremur dögum eftir að keppninni lauk,“ segir hún og bætir við:„Facebook var ekki orðið eins fyrirferðarmikið og núna og hvorki Instagram né Snapchat til. Ég held að það hafi bjargað mér að mörgu leyti.“

Þótt vel hafi verið haldið utan um Heru í öllu ferlinu segir hún það ekki algilt. „Ég hef alveg séð keppendur sem eiga mjög erfitt að keppni lokinni. Þegar þú kemur heim lendir allt fiskislorið beint í andlitinu á þér. Glamúrinn búinn og við tekur harður hversdagsleikinn þar sem allir eru komnir með ógeð á Eurovision. Þá getur verið erfitt að koma heim.“

Brotin tönn í búningsherberginu

Þegar Hera er innt eftir góðri sögu frá Ósló skellir hún upp úr. „Það var búin að vera karamelluskál í búningsherberginu mínu þessar tvær vikur sem við vorum þarna. Ég var algjörlega búin að sniðganga karamellurnar en síðasta daginn, rétt fyrir lokakeppnina, hugsaði ég með mér að ég ætti skilið að fá mér eina. Ég stakk upp í mig karamellu og var ekki einu sinni búin að sjúga tvisvar þegar það losnaði fylling úr tönn!“ segir Hera og heldur áfram að hlæja. „Ég mátti bara setja allt í gang. Tannlæknirinn minn var í höllinni en var ekki með tannlím á sér og hefði ekki komist til mín vegna öryggisráðstafana,“ segir hún en segist sjálf hafa átt tannlím á hótelinu. „Silja, konan hans Valla, var ennþá á hótelinu og var nýstigin úr sturtu þegar hótelstarfsmaður óð inn til hennar og leiddi hana inn á mitt herbergi. Þar fundu þau tannlímið sem Silja mátti gjöra svo vel að hlaupa með í höllina, varla búin að þurrka hárið eða klæða sig, þar sem ég náði að líma tönnina sjálf áður en ég hljóp inn á svið.“

Í minningunni segir Hera þetta atvik ótrúlega fyndið þótt tímasetningin hafi varla getað verið óheppilegri. „Eftir á að hyggja skipti þetta auðvitað engu máli. Það hefði enginn tekið eftir þessu en á þessum tímapunkti var það að fá tönnina upp í mig aftur mikilvægt, bara upp á mína andlegu líðan,“ segir hún og bætir við að tannlæknirinn hennar hafi þó lært af þessu. „Ef Gunna vinkona, sem líka er tannlæknirinn minn, kemur að sjá mig syngja einhvers staðar er hún alltaf með tannlím í vasanum,“ segir Hera og skellihlær.

Fasteignasalinn sem varð til í gríni

Samhliða söngnum og söngkennslu er Hera fasteignasali hjá Fasteignasölu Reykjavíkur. „Þegar ég flutti heim frá Síle var ég ekki tilbúin að vera bara Hera söngkona og var þess vegna að leita að einhverju öðru,“ segir Hera sem íhugaði að taka upp þráðinn í viðskiptafræðinni. „Mig langaði í eitthvað annað líka, eitthvað alveg ótengt söngnum. Á þessum tíma var ég að kaupa og selja íbúð og foreldrar mínir líka svo ég hjálpaði þeim með það.“ Þegar Hera hitti fasteignasala foreldra sinna til að kvitta undir pappíra fyrir þeirra hönd má segja að ákvörðunin um næsta kafla hafi verið tekin.„Við hittumst á kaffihúsi í Kringlunni og ég sagði við hann að ég ætti auðvitað frekar að sjá um þessa pappíra sjálf. Þetta átti að vera grín en hann horfði á mig grafalvarlegur og sagði að ég yrði frábær fasteignasali! Ekki nóg með það heldur leit maðurinn minn upp úr blaðinu, sem þarf mikið til, og sagðist vera sammála.“ Þarna fóru hjólin heldur betur að snúast. Hera las sér til um námið, ræddi við fasteignasala um starfið og var innan viku skráð í nám til að verða fasteignasali.

Hera segist ánægð með nýja starfið sem henti mjög vel samhliða tónlistinni. „Hin ástríðan mín eru hús, bæði að utan og innan. Ég rak verslun á Laugaveginum sem var bara með innanstokksmuni, sem mér fannst æðislegt og ég algjörlega elska þetta líka. Starf fasteignasalans er mjög margþætt og þarna koma samskiptahæfileikarnir sér vel. Það þarf oft að leysa alls konar vandamál, stundum mjög persónuleg hjá seljendum og kaupendum, eða eitthvað tæknilegt eða tengt byggingunni sjálfri. Svo er ég mikið í að gefa ráð um hvernig hægt sé að gera eignina seljanlegri, hvað ætti að mála, hverju má sleppa og svoleiðis. Svo smellpassar þetta með tónlistinni, Söng-Hera og Fasteigna-Hera vinna mjög vel saman!“

Queen of Fokking Everything

Í tilefni Hinsegin daga ætlar Hera að setja upp sýninguna Queen of Fokking Everything í Gamla bíói föstudaginn 16. ágúst. Um er að ræða frumsýningu á Íslandi en sýningin hefur áður verið sett upp í Svíþjóð við góðar viðtökur. „Queen of Fokking Everything er í rauninni búin að vera til í einhver ár,“ segir Hera og útskýrir tilurð sýningarinnar. „Við Valli vorum að koma heim úr rosa tónleikaferð. Ég var búin að vera díva fyrir allan peninginn, á fimm stjörnu hótelum með fullar töskur af hárkollum, farða og kjólum. Svo fer ég í inniskóna í flugvélinni, tek augnhárin af og skelli mér í þrítugustu og aðra röð í Icelandair vélinni, andvarpa og segi „andskotinn, ég þarf að setja í svo margar vélar þegar ég kem heim!“ segir hún og hlær. „Valli sprakk úr hlátri því að honum fannst þetta svo mikið spennufall en ég var bara búin að stimpla mig inn á íslensku Heru sem var bara að fara heim að skeina og skúra.“

Upp úr þessu samtali segir Hera að Queen of Fokking Everything hafi orðið til. „Þarna fattaði ég að maður er ekki alveg í lagi. Ég er náttúrlega þessi klassíska tveggja barna húsmóðir, eiginkona, ástkona og vinkona, arfaslök skúringakona sem þrífur klósett, setur í vélar og brosir í gegnum tárin. Ég hreinlega þoli ekki að brjóta saman þvott og ganga frá honum en geri það samt bölvandi og ragnandi. Og eigum við eitthvað að ræða þessa einmana einstæðu sokka uppi um alla veggi? Allavega, okkur fannst þetta svo fyndið og alveg klárt efni í ágætis sýningu.“ Niðurstaðan varð sýning sem Hera segir vera skemmtilega kvöldstund, fulla af söngvum og sögum úr lífi dívu.

„Þetta er sýning á ensku sem ég skrifaði með uppistandaranum og snillingnum Jonathan Duffy. Þarna koma saman húsmóðirin, dívan, fimleikadrottningin, skógræktarbóndinn og söngkennarinn. Allar Herurnar og öll hliðarsjálfin safnast saman á sviðinu til að syngja og segja sögur. Ég veit ekki um betri stað eða stund til að koma út úr skápnum með Queen of Fokking Everything en á Hinsegin dögum. Ég er ótrúlega ánægð, hrærð og glöð með að fá að vera partur af hátíðinni í ár og hlakka gríðarlega til,“ segir Hera spennt fyrir komandi verkefnum.