// Guðrún Úlfarsdóttir
100 árum fagnað
Giovanniʼs Room í íslenskri þýðingu
„Það er hægt að vera fyrirlitlegur á svo margan hátt að það er til að æra mann. En raunveruleg fyrirlitning felst í því að fyrirlíta sársauka annarra.“
– James Baldwin
James Baldwin fæddist í Harlem í New York 2. ágúst 1924. Hann var bókhneigður drengur, gefinn fyrir skrif og skáldskap og almenningsbókasöfnin tvö í Harlem voru hans athvarf. Kennarar sáu að drengurinn bjó yfir ríkri athyglisgáfu og næmi, að þar væri mikið efni í skáld og rithöfund, og hvöttu hann áfram. Til Parísar fluttist hann 24 ára, bjó þar næsta áratug og Herbergi Giovanni byggir hann að miklu leyti á reynslu sinni í borginni. Þar varð hann ástfanginn af svissneskum pilti og sú ást gaf honum kjark til að takast á við söguna um David, Hellu og Giovanni. Áratug síðar kallaði mannréttindabarátta svartra hann aftur heim til Bandaríkjanna en síðustu ár ævinnar bjó hann lengstum í Suður-Frakklandi og lést þar árið 1987. Með blaðagreinum sínum og ritgerðum varð James Baldwin einn beittasti og dáðasti baráttumaður fyrir mannréttindum og mannvirðingu svartra Bandaríkjamanna fyrr og síðar. Hann varð eftirsóttur ræðumaður á fjöldafundum og í háskólum og birti fjölmargar ritgerðir í blöðum og tímaritum sem skömmu seinna rötuðu á bækur. Þá sendi hann alls frá sér sex skáldsögur um dagana. Á samfélagsmiðlum gengur arfleifð hans einnig í endurnýjun lífdaga en með gáfum sínum, mælsku og innsæi snertir hann enn hug og hjörtu nýrra kynslóða.
***
Öld er liðin frá fæðingu rithöfundarins James Baldwins og af því tilefni kemur í fyrsta sinn út þýðing á skáldverki eftir hann á íslensku. Herbergi Giovanni kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1956 og segir frá David, Bandaríkjamanni í París. Söguhetjan verður ástfangin af ítalska barþjóninum Giovanni og flytur inn til hans í agnarsmátt leiguherbergi í París. Þetta litla og táknræna rými færir þeim ómælt frelsi en þar takast þeir líka á við ómælda skömm og sjálfshatur. Sagan er öðrum þræði ómetanleg heimild um samkynhneigðar ástir á öndverðri 20. öld og er nú talin til merkustu skáldverka heimsbókmenntanna.
Þýðandi sögunnar, Þorvaldur Kristinsson, hefur líkt og Baldwin lagt mannréttindabaráttu lið í nær hálfa öld. Í tíu ár var hann formaður Samtakanna ‘78, forseti Hinsegin daga í Reykjavík í tólf ár og ritstýrði Tímariti Hinsegin daga á þeim árum. Hann er bókmenntaritstjóri að ævistarfi en hefur auk annars ritað þrjár ævisögur og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2008 í flokki fræðirita fyrir eina þeirra. Við spurðum Þorvald hvenær hann hefði fyrst kynnst ritverkum James Baldwins.
„Ég settist í háskóla í Bandaríkjunum haustið 1970 og bæði þar og eftir heimkomuna urðu ýmsir kunningjar til að vekja athygli mína á ritgerðum hans, enda var mannréttindabarátta svartra í Bandaríkjunum í voldugri sveiflu á þessum árum. En Herbergi Giovanni las ég fyrst í Kaupmannahöfn, þá þrítugur, rétt eftir að ég horfðist í augu við það hvar ástríðan lá, og það var fyrir hvatningu fyrstu vinanna sem ég eignaðist í hópi danskra homma. Síðar las ég svo eitt og annað eftir Baldwin, tvær af skáldsögum hans sem frægastar eru og margar af eldri ritgerðum hans.
Undir lok aldarinnar fann ég skýrt til þess að skáldverk Baldwins nutu ekki sömu athygli og áður. Það var hljótt um hann utan hins akademíska bókmenntaheims síðustu árin sem hann lifði og eftir að hann lést, 1987. Þetta átti síðan eftir að breytast á nýrri öld, ekki síst þegar hreyfingin Black Lives Matter varð að veruleika árið 2013. Þá reis hann upp frá dauðum ef svo má segja, andlegur leiðtogi í baráttu okkar fyrir mannréttindum og mannvirðingu.“
Þetta er átakamikil bók og dramatísk, ekki síst lýsingar skáldsins á skömm. Hvernig leið þér eftir fyrsta lestur, hvernig var að lesa þessa sögu í samfélagi sem var statt á allt öðrum stað og svo við núverandi aðstæður?
„Jú, það tók á. Ef ég man rétt þá felldi ég tár þegar lestri var lokið og ég fór aftur að blaða í gegnum söguna. En það eru engin tíðindi, ég klökkna svo oft yfir bókmenntum og tónlist sem hittir á réttar taugar! Auðvitað stóð ég í allt öðrum heimi en sögupersónan David, því að um 1980 bjó ég í Danmörku en þar var allt á fleygiferð í lífi samkynhneigðra og mikill uppreisnarandi í lofti. En ef ég man rétt þá skildi ég kjarna sögunnar nokkuð vel á þessum árum. Hún fjallar fyrst og fremst um það að taka ábyrgð á eigin lífi, forðast sjálfsblekkinguna, ánetjast ekki skömminni og óttanum við það hvað heimurinn kunni að segja og hvað heiminum finnist um mig og mín systkini.
Eiginlega orðar James Baldwin þetta miklu betur en ég þegar hann kom sögunni til varnar eftir að hafa heyrt út undan sér raddir sem töldu hana „úrelta“. Herbergi Giovanni, sagði hann, fjallar fyrst og fremst „um það sem gerist ef við verðum svo hrædd að við verðum ófær um að elska nokkra manneskju“.
Hvað varð til þess að þú þýddir bókina? Varstu beðinn um það eða tókstu upp á þessu hjá sjálfum þér?
„Enginn bað mig um þetta en mánuði fyrir Covid, um áramótin 2019-2020, kom ungur vinur minn í heimsókn (ég laga sterkt og gott kaffi) og var eins og uppnuminn, hafði verið að ljúka við Giovanniʼs Room á frummálinu. „Aha“, hugsaði ég, svo hún á ennþá erindi við heiminn. Nema hvað! Hún hefur allt þetta sem gerir eina sögu að klassíker. Svo ég þýddi hana meðfram öðrum verkum á næstu árum, leitaði að útgefanda og Forlagið tók mér opnum örmum.
Það var líka eitt og annað til að heilla þegar ég fór að rýna í söguna og lesa mér til um ævi Baldwins, til dæmis þessi svellandi áfergja sem litar textann þegar hann lýsir París þar sem hann bjó árum saman. Til dæmis nær hann að miðla vel þessari merkilegu blöndu sýnileika og feluleiks sem einkenndi líf samkynhneigðra í borginni um miðja 20. öld. Líka það hvernig staðhættir í sögunni ríma við minnstu smáatriði í sjálfri borginni.“
Eins og þú nefnir er prósi Baldwins mjög þéttur og maður hefur á tilfinningunni að engu orði sé ofaukið. Hann dregur upp óvenjuskarpar myndir og skapar ríkt andrúmsloft. Hvernig var það að þýða svona kröftugan texta?
„Auðvitað var þetta heilmikil áskorun en ég er henni þakklátur. Því það var þessu heimasmíðaða verkefni að þakka að ég hélt ró minni meðan Covid var að ganga yfir í stað þess að vorkenna sjálfum mér í einangrun daganna. En þýðingar fagurbókmennta eru vissulega snúið mál. Ég naut þess þó að hafa ritstýrt fjölmörgum þýðingum annarra í 40 ár, svo að ég þykist vita eitt og annað um gildrurnar.
Eins og fleiri lít ég auðvitað svo á að fyrst verði að koma réttri merkingu, hrynjandi og helstu stíleinkennum til skila. En það erfiðasta að mínu viti, og um leið það sem gerir þetta svona spennandi, er að reyna að skynja andblæ hvers verks, hvaða andrúmslofti er verið að miðla, heyra suðið og kliðinn á bakvið verkið, og það kostar langa leit.“
James Baldwin var og er mikill áhrifamaður í réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum og það birtist í öðrum skáldsögum hans sem fjalla að mestu um tilveru svartra. Herbergi Giovanni er raunar eina bók hans þar sem allar persónur eru hvítar. Hvers vegna? Hvaða máli skiptir það fyrir söguna?
„Skáldið sjálft svaraði þessu reyndar manna best. Eitt sinn sagði Jimmy, eins og Baldwin var oft kallaður, um það hvers vegna hann valdi þá leið að sneiða hjá eigin kynþætti í sögu sinni, þá rétt að verða þrítugur: „Víst er að mér var hreinlega ofviða, þar sem ég var þá staddur í lífinu, að takast líka á við hinn þungann sem á mér hvíldi, „negravandamálið“. Hið kynferðislega og siðferðislega var mér nógu erfið glíma. Ég gat ekki mætt báðum þessum áskorunum í sömu bók.“
Með því að velja sér hvítar sögupersónur var hann kannski líka í uppreisn gegn því að leyfa öðrum að draga sig í dilk. Það fór óbærilega í taugarnar á Baldwin að láta aðra skilgreina sig sem eitt eða annað. Þegar hann færði útgefanda sínum, Alfred A. Knopf, handrit að sögunni árið 1955 hafnaði þetta volduga forlag henni, taldi unga manninn á villigötum, sagði að hann væri „Negro writer“ og ætti að rækta það hlutverk. Jimmy fann fljótt annan útgefanda sem hrósaði happi, bókin seldist ágætlega og hlaut jákvæðari dóma í Bandaríkjunum og Bretlandi en mann hefði grunað á þeim tímum. Hispursleysi skáldsins og einlægni hittu einfaldlega í mark.“
Svo ég tali beint frá hjartanu – að mínu viti eru hinsegin skáldsögur og endurminningar líklega hvað besta tólið til að hvetja til samtals og skilnings milli ólíkra kynslóða í samfélagi hinsegin fólks. Geturðu mælt með fleiri eldri skáldverkum fyrir unga lestrarhestra sem vilja kynna sér fyrri tíma?
„Það er ekki svo létt því að mín kynslóð hafði úr ofboðslega litlu að moða þegar við vorum að reyna að takast á við sjálf okkur og heiminn. Ég man þó að ég las mér til dæmis til sálubótar minningar Danans Christians Kampmanns sem ritaði trílógíu um það að vakna til vitundar um eigin kynhneigð, eignast konu og börn og rata loks aftur til kynbræðra sinna með hjálp róttækra hreyfinga á áttunda áratug aldarinnar. Þessar þrjár sögur hans eru meistaraverk, sú fyrsta, Fornemmelser, reyndar best, en allt var þetta hollt ungum homma. Upp í hugann kemur líka trílógía Svíans Jonasar Gardells frá þessari öld, Torka aldrig tårar utan handskar, sem þýdd hefur verið á íslensku að hluta, en til að njóta þessara verka þarf maður helst að lesa dönsku og sænsku sér til ánægju og það virðist vefjast fyrir mörgum nú orðið. Hvað vini mína í hópi lesbía og trans fólks snertir verða aðrir mér fróðari að botna þessa þulu! En upp á síðkastið hafa birst nokkrar frábærar skáldsögur sem lýsa löngu liðinni tíð, til dæmis In Memoriam eftir Alice Winn og Swimming in the Dark eftir Tomasz Jedrowski.
Þá sjaldan ég finn til öfundar gagnvart ungu fólki er það helst þegar ég rása gegnum tilboð daganna á streymisveitunum, til dæmis Young Royals og Heartstopper, á köflum sápa á sápu ofan og á köflum sönn viska og tær heiðarleiki. Hefði mín kynslóð bara átt kost á svona nokkru! Því að aldur skáldverka, endurminningabóka og kvikmynda er kannski ekki mál málanna, heldur gæðin, trúverðugleikinn og heiðarleikinn sem leynist í listaverki ef það stendur undir nafni.“
Herbergi Giovanni er sannarlega öllum þessum kostum búin og hefur því hlotið verðskuldað pláss á listum yfir áhrifamestu skáldverk heims. Og áhrifamikil er hún, tilfinningaflækjurnar sem hrærðust í David og Giovanni eru eitthvað sem flest hinsegin fólk getur speglað sig í. David finnur fyrir eitruðum sting skammarinnar en þó birtist inni á milli gullslegin von um heitar og ljúfar samkynja ástir. Styrkur skáldsögunnar er enda hvað hún er mannleg og einlæg – hún sýnir dýptina svo vel. Persónurnar fá að koma til dyranna eins og þær eru klæddar, breyskar, jafnvel asnalegar en alltaf heillandi sem sín sönnu sjálf. Herbergi Giovanni er því sígild, hún á erindi við okkur öll og ef að líkum lætur skilur hún engin eftir ósnortin.