Ástir miðaldra kvenna

Höfundur: Bjarndís Helga Tómasdóttir

Það er trúlega ekki verk fyrir mjög stjórnsamt fólk að taka viðtal við þær Hildi Heimisdóttur og Ragnhildi Sverrisdóttur en þær eru hluti af hljómsveitinni Ukulellur sem stofnuð var árið 2018. Þær kunna svo sannarlega að segja frá og það er vel skiljanlegt af hverju þær eru, eins og þær segja sjálfar, „málpípur hljómsveitarinnar“. Það erfiðasta við að taka viðtal við þær er að muna að þetta er viðtal og að það eru spurningar sem þarf að spyrja en gleyma sér ekki í húmorískum frásögnum þeirra. Aðspurðar um allt þetta grín og glens og hvort að það sé einhver alvara í textagerð þeirra segir Ragnhildur: „Það er engin alvara ef við mögulega komumst hjá því, það er andskotans nóg af henni í heiminum. En sannleikskorn, það er allt annað. Það er sannleikskorn en engin alvara.“ Hildur samsinnir þessu hlæjandi og segir: „Það er bara svo gaman að vera lesbía.“ Því mótmælir engin.

Hljómsveitina skipa þrettán konur: Anna Jóhannsdóttir, Elísabet Thoroddsen, Eva Lind Weywadt Oliversdóttir, Guðrún Jarþrúður Baldvinsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Helga Margrét Marzellíusardóttir, Herdís Eiríksdóttir, Hugrún Ósk Bjarnadóttir, Margrét Ágústa Þorvaldsdóttir, Margrét Grétarsdóttir og Þóra Björk Smith, ásamt þeim Hildi og Ragnhildi. Allar eru þær kórsystur úr Hinsegin kórnum en Helga Margrét er reyndar stjórnandi hans. Það var einmitt í einni örlagaríkri kórferð sem grunnurinn að hljómsveitinni var lagður. 

„Ukulellur voru góð hugmynd og enn betri framkvæmd og skemmtilegt hvað þetta varð metnaðarfull hljómsveit frá fyrstu stundu. Við vorum búnar að vera til í tvær vikur þegar við vorum á því að við værum svona hljómsveit sem semdi sjálf sína texta,“ útskýrir Hildur.

„Það vantaði ekki kokhreystina,“ segir Ragnhildur.
„Nei, en það má segja að það geri það svolítið skemmtilegt og maður er bara kátur á æfingum og það er alltaf gaman og allar stútfullar af orku. En líka bara stútfullar af metnaði, við erum virkilega að vinna á æfingum,“ segir Hildur. 

Það er erfitt að segja hver það var sem kom með hið lesbíska ukulele-æði til landsins en það hefur ekki farið framhjá mani  á hinum ýmsu samfélagsmiðlum að ukuleleið er hinn nýi kassagítar. Það er því eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ekki sé mikil ásókn nýliða í hljómsveitina.
„Þetta er kallað að vera trendsetters,“ segir Hildur af miklu sjálfsöryggi og Ragnhildur stenst ekki mátið að leggja aukaáherslu á það: „Já, við erum áhrifavaldar.“ Þær segjast þó ekki vera að taka við nýjum meðlimum. „Ukulellur eru bara hljómsveit sem var búin til og þannig er hún. Það þarf ekki að breyta því sem gott er,“ segir Hildur og bætir spennt við: „Við hvetjum absalút til að stofnaðar verði fleiri ukulele-hljómsveitir og þá verður haldin lesbísk ukulele-hátíð.“ Það finnst þeim báðum frábær hugmynd og nokkur umræða skapast um málið. Það er engin leið að hafa hemil á þessu viðtali. 

„En sannarlega hvetjum við konur til að spila saman á ukulele því að það er gaman,“ segir Hildur og Ragnhildur heldur áfram: „Já, og mannbætandi. Ég hef skánað töluvert síðan við fórum að spila.“ Hildur kinkar kolli: „Ég get nú alveg vottað það. Ég hef reyndar líka skánað.“

Fylla í gat á markaðnum

Síðustu tvö ár hefur hátt á fjórða tug texta orðið til en Hildur og Ragnhildur eru helstu textahöfundar hljómsveitarinnar, þótt Elísabet sé mjög að sækja í sig veðrið. Þegar ég spyr þær hvort mikil þörf sé á textum eins og þeirra, sem fjalla gjarnan um hluti eins og búkonuhár og hrukkótta rassa, svarar Ragnhildur að bragði: „Já, það er algjört gat á markaðnum. Þú hefur örugglega ekki orðið vör við margar hljómsveitir sem að syngja um þetta og þó er þetta eitthvað sem að þjakar helming mannkyns.“ Hildur bætir við: „Ég hef tekið eftir því að textinn um lesgleraugun hefur virkilega slegið í gegn. Sama hvar við höfum flutt hann kemur á daginn að fólk saknar þess að geta sungið um að það vilji ekki horfast í augu við hrörnun sína og aldurstengda fjarsýni.“ Þær segja að þetta séu þó ekki vinsælustu textarnir þeirra heldur séu það textar um miðaldra lesbíur. „Þar er líka gat í markaðnum, það er engin að syngja um vandamál miðaldra lesbía.“ “Vinsælustu textarnir okkar eru þessi sérhönnuðu lesbíutextar, eins og sagan af því hvernig lífið var á skemmtistaðnum 22 í gamla daga þegar við vorum ungar. Og textinn um dótakassa lesbíunnar sem fjallar um ást lesbíunnar á handverkfærunum sínum,“ segir Ragnhildur og Hildur skýtur inn í: „Það er mjög heitur texti. Svo er það lagið um trukkalessuna, trukka- bæði og traktorslessa var hún, eins og segir í laginu.“

„Við nýtum okkur þessar staðalmyndir til hins ýtrasta,“ segir Ragnhildur sposk.

„Svo þurftum við auðvitað að semja um ást okkar á ukulele og ást ukulele á okkur, það gagnkvæma ástarsamband. Og hvernig við heillum konur með ukulelespili. Eins og blasir við,“ segir Ragnhildur, sjálfsöryggið uppmálað. 

„Já, ég hef heyrt að það sé mikill tryllingur á tónleikum hjá ykkur. Konur kasti sér nánast upp á svið. Er það rétt?“ Spyr ég si svona.
„Það verður bara að viðurkennast, þannig er það. Bera okkur bjóra upp á svið til að mýkja okkur upp,“ svarar Ragnhildur og Hildur tekur í sama streng: „Þetta er allt satt og rétt.“ Ukulellur héldu tónleika til þess að fagna árs afmæli sínu í október 2019. Tónleikarnir voru haldnir fyrir húsfylli á Hard Rock Cafe og stemmningin var vægast sagt góð. Til upplýsingar fyrir áhugasama hefur heyrst að stefnt sé á tónleika til að fagna tveggja ára afmæli hljómsveitarinnar í október næstkomandi.

Ragnhildur minnist tónleikanna angurvær á svip: „Svo er líka bara svo gaman að skella bara í tónleika, á Hard Rock, fyrir troðfullu húsi af einhverjum kellingum á okkar aldri sem eru alveg jafn hamingjusamar með breytingaskeiðið og lesgleraugu og upprifjun á 22.“

„Það var rosalega skemmtilegt. Það voru náttúrulega konur á öllum aldri,“ segir Hildur og Ragnhildur bætir við: „Já, okkar aldri, sú okkar sem er yngst, er hvað, þrítug og sú elsta er 72 ára.“
„Við dekkum alveg 40 ár,“ segir Hildur, nokkuð ánægð með sig.

Leiðarvísar lesbía

Textar Ukulella geta jafnvel haft fræðslugildi, eins og Hildur bendir á: „Svo höfum við líka svolítið þurft að semja um leiðir kvenna til að veiða konur, eða nálgast aðrar konur, eða komast í ástarsamband við konur, ég meina þessi lög eru bara leiðarvísir getum við sagt.“

Ragnhildur bætir við: „Það er auðvitað auðveldara núna þannig að yngsti textahöfundurinn, Elísabet (Thoroddsen), hefur nú verið dálítið dugleg að skrifa um Tinder.“ Hildur segist að vísu stundum þurfa orðskýringar með textum Elísabetar. „Það er allt í lagi, við þolum það, en við kannski skiljum ekki alveg að „svæpa“ og svona,“ segir hún og hristir höfuðið. „Textarnir hennar Elísabetar eru allir um að komast á séns meðan okkar eru allir um löngu liðnar ástir. Það skilur algjörlega þar á milli, við hinar erum fullkomlega sestar í helgan stein,“ segir Ragnhildur og að því er mikið hlegið.
„Oft er það einhver okkar sem í miðri ást sinni á ukulele rekst á lag sem hana langar að spila. Þá er sá texti gjarnan á einhverri útlensku og fjallar jafnvel um ástir gagnkynhneigðs fólks …“ segir Hildur og Ragnhildur skýtur inn í: „Jafnvel? Eða bara alltaf!“ Því verður ekki neitað að ekki er um auðugan garð að gresja í tónlist þar sem hinsegin ástum er gert hátt undir höfði og kannski er stundum nauðsynlegt að geta sungið með og lifað sig inn í texta sem fjallar um konu sem elskar konu.

Þær eru komnar á flug og ég á fullt í fangi með að halda í við þær. Ég bara hlæ og hríftst með og reyni að smokra inn einhverjum spurningum. En til hvers? Svona eru Ukulellur bara, svona vinna þær, einhvern veginn bara í augnablikinu og flæðinu en samt alveg með á hreinu hvað það er sem þær vilja. 

„Við erum reyndar ekki búnar að skrifa um skilnað,“ stingur Ragnhildur upp á, „svona lessuskilnað þar sem þær eru svo vinkonur …“ „… já! Daginn eftir,“ stingur Hildur inn í og Ragnhildur heldur hlæjandi áfram: „… og fara svo í tjaldútilegu með nýju konunum …“ „… og öllum hinum fyrrverandi konunum,“ botnar Hildur að lokum. „Svo er viðlagið alltaf svona „hún var mín“ og mismunandi hver segir það. ÞETTA ER KOMIÐ! Svona verða textarnir til bara í beinni,“ segir Hildur. „Þessi hugmynd er alveg náskyld textanum við 22.“

„Nú finnum við bara lag sem passar við. Þetta er nú heldur betur reynsluheimur lesbíunnar. Þú losnar aldrei við þessar fyrrverandi, þær eru bara alltaf í halarófum sem vinkonur manns,“ segir Ragnhildur ákveðin en spyr svo: „En er búið að skrifa um þessa sem þú hittir á 22, og fór svo aldrei heim? Svo bara allt í einu vaknarðu upp og ert komin í sambúð? Það kom alveg oftar en einu sinni fyrir! Ef maður ætlaði ekki að festast í sambúð þá varð maður að fara heim með henni til þess að geta farið, annars var maður bara komin á fast án þess að vita af,“ hlær Ragnhildur en bætir við: „Nei, nú erum við bara að bulla.“

„En við eigum samt eftir að dekka alls konar hluti,“ segir Hildur að lokum, „og við vitum bara svo vel, í gegnum hinsegin lífið, hvað það er mikilvægt að segja hlutina upphátt og hafa fyrirmyndir. Til dæmis bara að segja upphátt að breytingaskeiðið sé eitthvað atriði gerir það minna skelfilegt. Það er bara þannig.“ Hún bætir svo glettin við: „Lífið skánar við söng.“

Þess má geta að frá því að viðtalið var tekið hefur textinn um fyrrverandi kærusturnar fæðst og verður án efa fluttur á afmælistónleikunum hljómsveitarinnar í október næstkomandi.

Um textann: 22

Höfundur: Hildur Heimisdóttir/Ragnhildur Sverrisdóttir

Textinn segir frá því hvernig skemmtistaðurinn 22, á Laugavegi 22, er bundinn sögu lesbía órjúfanlegum böndum. Sú sem söguna segir rifjar upp hvernig stemmningin var á 22, þar sem fastagestir áttu sinn samastað og konur jafnt og karlar komu í leit að ástinni. Í þá daga var hópurinn svo fámennur að sú sem fór heim með þér í gær er komin aftur en situr nú á nýjum stað með annarri konu.

Á 22 voru ágætir gluggar, svo ungar stúlkur sem langaði inn en þorðu ekki gátu gengið hjá gluggunum og gjóað augunum inn á þær sem þegar höfðu stigið skrefið yfir þröskuldinn. Þegar þær svo loksins þorðu inn, og fengu jafnvel gin í glas, og Je t’aime hljómaði í hátölurunum, var þeim ljóst að þær voru á réttum stað og gátu sagt: „Já, ég er ein af þeim.“

Frásögnin er í afturliti og konan sem hana segir upplifði gamla tímann á 22. Hún horfir nú í forundran á ungu stúlkurnar, sem eru á Tinder, fara milli kvenna á skjánum í símanum sínum og fá jafnvel ný tilboð daglega. Hún lætur það ekki trufla sig því hún kann sannarlega enn að heilla konur augliti til auglitis eins og hún gerði á 22 í gamla daga og margar eflaust gera enn á sama stað, þótt staðurinn heiti í dag Kíkí og fleiri konur séu komnar yfir þröskuldinn.

22

Lag: Au Champs Elysees

Texti: Hildur Heimisdóttir og Ragnhildur Sverrisdóttir



  C                    E7                   Am             C7

Á Kaffi Gest og Moulin Rouge, urðu fyrstu lessur dús, 

       F                   C             Dm7            G7

Svo fluttu þessar örfáu sig niðr’á Laugaveg

C                       E7                Am               C7

Á númer tvö og tuttugu þær söfnuðust og tjúttuðu

F                   C               DM7        G7      C

En fjölgunin í þeirra hópi var þó heldur treg

C  E7     Am   C7       F  C  Dm7        G7

Á Tuttuguogtveim,             á Tuttuguogtveim

E7               Am         C7    

Við vorum fá, við skiptumst á, fórum með þeim sömu heim.

        F C Dm7   G7   C

Við hittum allar hjásvæfur á Tuttugogtveim.

C                      E7        Am                C7

Oft var mikil dramatík, ein var svaka mikil tík 

       F                   C             Dm7            G7

Og önnur allt of upptekin af kvennapólitík

C                       E7                Am               C7

Sú sem þú varst með í gær er nú komin í hornið fjær

F                         C               DM7        G7      C

Og gerir sér þar dælt við ekki eina heldur tvær

 C  E7         Am   C7    F  C  Dm7        G7

Á Tuttuguogtveim,             á Tuttuguogtveim

E7               Am         C7    

Við vorum fá, við skiptumst á, fórum með þeim sömu heim.

        F C Dm7   G7   C

Við hittum allar hjásvæfur á Tuttugogtveim.

C     E7             Am           C7

Fyrst þær flestar fóru hjá, feimnar stúlkur horfðu á

  F       C       Dm7       G7

ekki vildu láta neinn með konum sig sjá.

 C             E7             Am                     C7

En gin með aðeins tónikkeim og danslag flutt með frönskum hreim

 F         C                      Dm7     G7      C

Ef spurt var pent þá svarið varð: Já, ég er ein af þeim.

C  E7         Am   C7    F  C  Dm7        G7

Á Tuttuguogtveim,             á Tuttuguogtveim

E7               Am         C7    

Við vorum fá, við skiptumst á, fórum með þeim sömu heim.

        F C Dm7   G7   C

Við hittum allar hjásvæfur á Tuttugogtveim.


C     E7                       Am     C7

Í einhleypar nú kemur kapp, því konur hafa lítið app, 

     F               C       Dm7       G7

og kannski reynist þeirra happ á tindersíðunum

 C     E7           Am           C7

En eldri lessur skilja fátt, sú tækni dregur úr þeim mátt

  F           C             Dm7    G7     C

Fer þó engin ein í hátt af gömlu gellunum

 C         E7             Am         C7

Því klæki ennþá nýta sér, sem lærðu þar sem Kiki er

      F               C         Dm7           G7

Að kynnast öðrum lesbíum í léttum veiðihug

C       E7               Am             C7

Þær setj’upp sínar sogskálar og draga stúlkur á tálar

 F               C Dm7       G7   C

Enn sýna þessar gömlu bæði djörfung og dug.

Á Tuttuguogtveim…