Baráttan er ekki búin

Velkomin á Hinsegin daga 2023

Enn á ný mun hinsegin fólk leggja undir sig götur Reykjavíkurborgar í ágústmánuði og þannig fagna hinseginleika sínum, í stað þess að fela hann líkt og samfélagið krafðist af okkur svo lengi. Raunar eru Hinsegin dagar fyrir margt löngu orðnir fastur liður í menningarlífinu, enda hafa þeir um árabil verið ein fjölsóttasta og litskrúðugasta hátíð borgarlífsins.

Á Hinsegin dögum kemur hinsegin fólk saman, gleðst og fagnar áunnum réttindum og sækir kraft í samstöðuna til að halda baráttunni áfram undir kröftugu lófataki vina og stuðningsfólks. Mikill árangur hefur náðst í baráttu hinsegin fólks fyrir sýnileika, viðurkenningu og jöfnum tækifærum í íslensku samfélagi á undanförnum árum og áratugum og alla þá sigra sem unnist hafa —bæði stóra sem smáa— getum við þakkað fólkinu sem ruddi brautina, þeim sem síðar tóku við kyndlinum og öllu velgjörðafólkinu sem stutt hefur við bakið á okkur á leiðinni.

En skjótt skipast veður í lofti og á undanförnum misserum hefur hinsegin fólk, og þá einkum trans fólk, orðið vart við stórlega breytt viðhorf og orðræðu í sinn garð. Neikvæðum ummælum fjölgar, aðkast eykst, ásakanir um innrætingu og klámvæðingu barna verða háværari og þannig mætti áfram telja. Þá hafa hér á landi verið stofnuð samtök, að erlendri fyrirmynd, með það að markmiði að reka fleyg í þá miklu samstöðu sem einkennt hefur hinsegin samfélagið svo árum skiptir. Ekkert af þessu þarf þó að koma á óvart enda höfum við ævinlega bent á að réttindi og samfélagsleg viðurkenning sem þurft hefur að berjast fyrir geti hæglega látið undan þegar á móti blæs.

Yfirskrift Hinsegin daga í ár er því ekki úr lausu lofti gripin, því að á stundum sem þessum skiptir samstaða hinsegin fólks og dyggur stuðningur yfirgnæfandi meirihluta samfélagsins öllu máli. Hinsegin dagar munu nú sem fyrr skapa vettvang til að koma saman, öll sem eitt, og sýna að tilvist okkar, sýnileika og stolti verður ekki eytt. Ég hvet þig til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá Hinsegin daga 2023 og þannig setja þitt mark á hátíðina okkar allra, því baráttunni er sannarlega ekki lokið.


Gunnlaugur Bragi Björnsson
formaður Hinsegin daga