Djass og hinsegin aktívismi

Fred 2Fred Hersch er Bandaríkjamaður, fæddur árið 1955. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið sem píanóleikari í slagtogi við trompetleikarann Art Farmer árið 1978 og hefur síðan þá leikið með mörgum helstu kyndilberum djassins, t.d. Joe Henderson, Toots Thielemans, Charlie Haden, Stan Getz, Bill Frisell o.fl. Hann var fyrstur píanóleikara til að leika einleik sjö kvöld í röð á hinum fræga klúbbi Village Vanguard í New York. Hersch hefur fengið tíu Grammy-tilnefningar og er heimsþekktur fyrir lifandi tónleika, þar sem metnaður er ætíð í fyrirrúmi og áhersla lögð á að hrífa áheyrandann. Hann verður með tónleika á Reykavik Jazz festival 12. ágúst í Hörpu.

Hver eru stærstu verkefnin þessa stundina?
Ég er með nokkuð mörg járn í eldinum þessa stundina. Það helsta er útgáfa áttundu breiðskífu minnar Open book sem kemur út 8. september. Nokkrum dögum síðar kemur út sjálfsævisaga mín, Good things happen slowly: A life in and out of Jazz. Bæði verkefnin eru nokkuð persónuleg og fjalla um uppvöxt minn sem djasslistamanns, sem samkynhneigðs manns, hvernig það var að búa í New York seint á áttunda áratugnum, áskoranir sem ég hef glímt við vegna heilsu minnar og baráttu mína við fíkn. Ég tel bókina vera ærlegt uppgjör við líf mitt fram til dagsins í dag.  

Hvernig var ferlið að skrifa ævisöguna?
Það er frekar flókið að skrifa ævisögu um sjálfan sig og lýsa ýmsum viðburðum úr fortíðinni í smáatriðum sem enginn þekkir til nema ég. Ég var sem betur fer með samstarfsmann mér til aðstoðar við uppsetningu bókarinnar og færan ritstjóra sem tryggði að framvinda hennar yrði áreynslulaus og læsileg.

Það getur verið sársaukafullt að endurupplifa vissar minningar úr fortíðinni, líkt og fyrstu ár alnæmisfaraldursins í New York þar sem svo margir létu lífið, en ég hef talað um þá lífsreynslu í mörg ár á opinberum vettvangi og reynt að ræða hispurslaust um hvernig það var í raun og veru að upplifa þetta tímabil. Þannig má segja að bókin um líf mitt sé rökrétt framhald af því þar sem sögurnar eru færðar á blað.

Ritunarferlið hefur gert mér kleift að safna minningum mínum saman á einn stað og brúa bilið milli nútíðar og fortíðar. Þegar ég kom fyrst til New York fyrir fjörutíu árum var ómögulegt að tengja saman djasslistamanninn Fred og hommann Fred enda voru engin fordæmi til staðar eða fyrirmyndir sem ég gat litið til. Lengi framan af var lífið því tvískipt. Hægt og rólega fóru ólíkir þættir tilveru minnar að samþættast, eftir því sem samfélagið tók framförum, fram til dagsins í dag þegar öllum virðist vera sama hver kynhneigð manns er. En umhverfið var gjörólíkt árið 1977 enda voru þá aðeins átta ár frá því að Stonewall-uppreisnin átti sér stað.

Hvenær tókstu ákvörðun um að koma úr skápnum?
Ég kom snemma úr skápnum, 19 ára gamall, gagnvart vinum og fjölskyldu og í sjálfu sér kom það fáum á óvart. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna, árið 1993, að ég kom út opinberlega og það vakti töluverða athygli í Bandaríkjunum þar sem ég var á þeim tíma orðinn landsþekktur djasstónlistarmaður. Það var þá sem ég tilkynnti að ég væri með HIV, sem á þeim tíma var dauðadómur, og þá hófst einnig ferill minn sem aktívisti.

Á Íslandi er tíðni kynsjúkdóma meðal ungs fólks, sérstaklega karlmanna, að aukast. Hver er þín sýn á þennan málaflokk?
Ég tel að fjarlægðin frá alnæmisfaraldrinum á áttunda og níunda áratugnum geri fólk blint gagnvart hættunni sem það leggur sig í ef það er ekki að verja sjálft sig og aðra. Ef þú ert einstaklingur sem stundar áhættumikið kynlíf, til dæmis með örvandi lyfjum, er tilhneigingin sú að leita í það sem veitir þér unað án þess að hugsa um afleiðingar þess fyrir aðra. Fólk þarf að leita reglulega til læknis og afla sér þekkingar um hvernig skuli verja sig gegn kynsjúkdómum.

Er einhverjum vandkvæðum bundið að samþætta vinnuna sem djasslistamaður annars vegar og aktívisti hins vegar? Koma augnablik þar sem þér leiðist að vera kallaður djasslistamaðurinn sem er hommi?
Ég lít ekki á mig sem hommann sem spilar djass eða hinsegin listamann. Ég er Fred, sem vill svo til að spilar djass, semur tónlist, er samkynhneigður og með HIV, nokkurn veginn í þessari röð. Ég vil ekki líta svo á að ákveðin tónlist sé hommatónlist eða hinsegin tónlist. Textar geta fjallað um kynhneigðir en annars er tónlist sem er spiluð á hljóðfæri án kynhneigðar; hún er einfaldlega tónlist sem veitir fólki innblástur.

Muntu spila einhverja ákveðna tegund af djasstónlist í Reykjavík?Fred 3
Ég mun spila með hljóðfæraleikurum sem ég hef starfað með í langan tíma. Tónverkin sem við spilum eru efni sem ég hef samið sjálfur ásamt tónlist eftir aðra djasslistamenn líkt og Thelonious Monk. Mér er illa við að setja merkimiða á tónlistina mína en ég myndi lýsa henni sem skapandi og kraftmikilli tónlist. Tónleikarnir eru ætlaðir öllum og þótt fólk sé ekki kunnugt djassi ættu flestir, sem koma með opnum hug, að geta treyst okkur fyrir að fara með þá í skemmtilegt ferðalag þar sem tónlist er sköpuð sérstaklega á staðnum.

List er ekki dægrastytting, líkt og Hollywood-bíómynd eða reyfari sem þú gleymir samstundis. Góð listsköpun kallar á samstarf og þátttöku áhorfenda og góð list á að hreyfa við fólki þannig það upplifi sterkar tilfinningar sem dvelja með því, vekja spurningar og að sjálfsögðu veita skemmtun.

Hvað laðar þig að djasstónlist?
Í hvert einasta skipti ertu að skapa nýja tónlist, með öðrum tónlistarmönnum, fyrir framan áhorfendur. Djass er félagsleg upplifun. Hann er ekki tónlist með stífan ramma, líkt og Chopin eða Beethoven, heldur upplifun sem er ný og einstök í hvert skipti.  

Hvaða djasslistamanni myndir þú mæla með fyrir þá sem eru að byrja að hlusta á djasstónlist?
Ég myndi kynna mér stóru nöfnin: Miles Davis, Charles Mingus og Duke Ellington. Sumu fólki finnst gott að kynnast djassi í gegnum söngvara líkt og Billie Holiday, Sarah Vaughan og Betty Carter. Saga djasstónlistar er löng og rík af áhugaverðum persónum og því er ekki úr vegi að lesa sér aðeins til um helstu stefnur og áhrifavalda. Það er til gnægð af stuttum, auðlesnum bókum sem geta leiðbeint nýjum djassunnendum. Loks er besta ráðið að hlusta á það sem manni líkar best.

Tónleikar Fred Hersch í Reykjavík eru hluti af Reykjavik Jazz festival og samstarfsverkefni hátíðarinnar og Hinsegin daga. Tónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu, laugardaginn 12. ágúst kl. 20:30. Auk þess að spila tónlist mun Hersch ræða um reynslu sína af því að vera hinsegin djasstónlistarmaður en hann er ötull tals- og stuðningsmaður HIV-samtaka vestanhafs. Spjallið fer fram í Hörpu klukkan 17:00, nánari upplýsingar á reykjavikjazz.is og Reykjavik Pride Off Venue dagskrá. Handhafar Pride-passa fá 20% afslátt á Eldborgartónleikana í miðasölu Hörpu.