Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, kynnir verkefnið Ein saga – Eitt skref, í samstarfi við Samtökin ’78. Tilgangur verkefnisins er að gera upp og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki innan kirkjunnar. Fyrsta skrefið verður að safna persónulegum reynslusögum af fordómum og andstöðu Þjóðkirkjunnar við réttindi hinsegin fólks í gegnum árin.
Frásagnirnar verða síðar gerðar aðgengilegar og m.a. hengdar upp í kirkjum hringinn í kringum landið næsta vor til vitnis um erfiða sögu sem mikilvægt er að endurtaki sig ekki, en einnig um þjáningu, baráttu og vilja hinsegin fólks til að öðlast viðurkenningu, frelsi og mannréttindi.
Viðburðurinn verður í hliðarsal Hallgrímskirkju 8. ágúst og hefst kl. 13.
Klukkan 14 verður regnbogafáninn dreginn að húni við kirkjur víðs vegar um landið í samstarfi við ÆSKÞ, Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar.