Ekki alltaf Pride með gleði og glimmeri

// Texti: Sigurgeir Ingi Þorkelsson // Myndir: Heiðrún Fivelstad

Þegar kom að því að gera meistararannsókn í kynjafræði valdi Ingibjörg Andrea Hallgrímsdóttir efni sem ekki hefur verið rannsakað á Íslandi fyrr en nú: ofbeldi í nánum samböndum hinsegin fólks. Hún vonar að rannsóknin verði til gagns svo hægt verði að grípa til aðgerða en á sama tíma óttast hún að niðurstöðurnar kunni að enda sem vopn í höndum andstæðinga hinsegin samfélagsins.

„Ég ákvað snemma í náminu að meistararannsóknin mín myndi fjalla um hinsegin málefni,“ segir hún. „Það var eitt af því sem kom mér mest á óvart í náminu, hve oft gleymdist að gera ráð fyrir hinsegin sjónarhorninu,“ en það er eitthvað sem hinsegin fólk kannast margt við úr sínum greinum í háskólanámi, hvort sem það er kynjafræði, bókmenntir eða annað. „Eins og mörg þá datt ég ofan í TikTok-kanínuholuna í kóvid. Þar voru hinsegin sambönd sýnd sem heilnæm og falleg, fullkomin eiginlega. Ég fór stuttu síðar að taka virkari þátt í hinsegin samfélaginu í gegnum Veru – félag hinsegin kvenna og kvára, kynntist þar konunni minni og eignaðist margar góðar vinkonur.“

Það var síðan í félagsskap þessara nýju vinkvenna sem innblásturinn að rannsókn hennar kom. „Ég deildi minni reynslu af því að hafa verið í ofbeldissambandi með sís karlmanni í tvö ár og fékk síðan á móti að heyra alls kyns reynslusögur frá vinkonum mínum, meðal annars af líkamlegu og fjárhagslegu ofbeldi. Þetta féll svo fjarri mínum hugmyndum um hinsegin sambönd og fékk mig til að hugsa: Af hverju vissi ég þetta ekki?“

Ingibjörg hóf að skoða hvað hafði verið skrifað fram til þessa um ofbeldi í nánum samböndum hinsegin fólks en átti í erfiðleikum með að finna rannsóknir á málefninu hér á landi. „Einu opinberu gögnin sem ég fann um heimilisofbeldi voru skýrslur félagsmálaráðuneytisins frá 2008 og 2011. Báðar fjölluðu einungis um ofbeldi í gagnkynja samböndum, þó að í þeirri seinni væri reyndar stungið upp á að rannsaka efnið sem hluta af „öðrum rannsóknum á lesbíum“ sem hljómar svolítið eins og það ætti að fara að rannsaka simpansa í búri. Síðan var hvergi minnst á möguleikann á tvíkynhneigð, eða öðrum kynhneigðum,“ segir Ingibjörg.

Félagsmálaráðuneytinu var falið að að gera úttekt á heimilisofbeldi í hinsegin samböndum og fjölskyldum á árunum 2023-24 í aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks sem samþykkt var af Alþingi á síðasta ári. Við munum því mögulega á næstu árum sjá formlega skýrslu á vegum stjórnvalda um málefnið líta dagsins ljós. Strax á næsta ári munu niðurstöður rannsóknar Ingibjargar birtast en Ingibjörg byggir hana á viðtölum við þolendur og segist langt komin í viðtalsferlinu. Enn sé þó of snemmt að gefa nokkuð upp um niðurstöður rannsóknarinnar. Niðurstöður sambærilegra rannsókna erlendis sýni þó að full ástæða er til að gera sambærilega rannsókn hér á landi. „Þær rannsóknir sem ég hef fundið hafa flestar verið bandarískar en í þeim koma fram atriði sem undirstrika nauðsyn þess að kanna þetta hér á landi. Til dæmis að viðbragðsaðilar taki ofbeldi í hinsegin samböndum ekki jafn alvarlega og að hinsegin fólk sé oftar beitt ofbeldi í nánum samböndum. Eitthvað sem sló mig sérstaklega er að tvíkynhneigðar konur eru í hvað mestri hættu að vera beittar ofbeldi í nánu sambandi, og það er sama hvort þær eru í hinsegin eða gagnkynja sambandi.“

Tvíkynhneigðin og öráreitið
Það er hér sem samtalið tekur nýja stefnu, frá rannsóknum og tölfræði yfir í reynslu Ingibjargar sem tvíkynhneigð kona á Íslandi í dag. Hún lýsir því hve mikinn mun hún finni í viðbrögðum fólks frá því þegar hún var í langtímasambandi með karlmanni miðað við sambandið með unnustu hennar í dag. „Var þetta alltaf svona eða fóru bara allir af hjörunum í kóvid-einangruninni?“ segir Ingibjörg og kitlar þannig svartar hláturtaugar blaðamanns.

„Ég hef verið að átta mig á því undanfarið hvernig stanslaust er verið að pikka í mann, eitthvað sem í fyrstu virðast litlir hlutir. Það er ekki skrítið að sjá að hærra hlutfall tvíkynhneigðs fólks glímir við alvarlega hluti eins og kvíða og þunglyndi. Ég man það fyrsta sem ég fékk að heyra frá kunningjakonu eftir að ég kom út var að ef ég ætlaði að skilgreina mig sem tvíkynhneigða myndi enginn vilja deita mig,“ segir Ingibjörg en það sem hún segir hér er sannarlega stutt af gögnum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á þessa niðurstöðu, þar á meðal íslensk rannsókn frá árinu 2017, leidd af dr. Berglindi Gísladóttur. Sú kannaði andlega heilsu tví- og samkynhneigðra ungmenna á aldrinum 16-20 ára. Hún sýndi skýrt fram á að samkynhneigð ungmenni búa við verri geðheilsu að meðaltali en þau sem eru gagnkynhneigð. Verstu stöðuna mátti þó finna meðal tvíkynhneigðra ungmenna, sérstaklega tvíkynhneigðra stúlkna, og bentu höfundar í niðurstöðukafla rannsóknarinnar á að tilefni væri til að gefa þessu sérstakan gaum og finna leiðir til að hlúa sérstaklega að þessum hópi sem býr við margþætta mismunun.

Ingibjörg lýsir því hvernig annað fólk virði síður eðlileg mörk í samræðum við sig. „Fyrir fólki er einhvern veginn tvíkynhneigð bara sama og þrísomm. Ég hélt að þetta væri eitthvað sem ég myndi fá að heyra einu sinni og síðan búið en er farin að velta alvarlega fyrir mér hversu oft ég muni þurfa að heyra þetta,“ segir Ingibjörg, sem er heitt í hamsi, og heldur síðan áfram, „Ef ég er með of langar neglur er ég spurð hvort ég og konan mín séum alveg hættar að sofa saman. Einn daginn þegar ég var óvenju skjálfhent, út af vefjagigtinni, var ég spurð hvort ég væri alveg búin í hendinni eftir gærkvöldið með konunni minni.“

Ingibjörg segist hafa fengið að heyra að skilgreiningin á að vera tvíkynhneigð feli í sér fordóma fyrir lesbíum og fyrir trans fólki. „Það er svo langt frá því að vera satt! Trans konur eru konur, trans karlar eru karlar og kvár eru fokking sæt! Það er einhvern veginn stanslaust verið að gefa í skyn að það að vera tvíkynhneigð, jafnvel orðið sjálft, sé ekki nógu gott. Þetta er ótrúlega mikil innræting á bi-fóbíu.“

Ingibjörg er þrátt fyrir fordóma og aðfinnslur annarra stolt tvíkynhneigð kona og er í dag fyrirmyndin sem hana sjálfa vantaði á yngri árum. „Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að ég sé tvíkynhneigð því það var svo erfitt fyrir mig sjálfa að átta mig á þessu. Ég vissi að ég væri ekki lesbía en samt voru allar þessar tilfinningar til staðar sem ég skildi ekki. Það voru vissulega margar áberandi konur í samfélaginu sem áttu konur en þær voru allar lesbíur. En ég bara vissi að það væri ekki ég,“ segir Ingibjörg og minnir þannig á hve mikilvægar fyrirmyndir eru fyrir jaðarsetta hópa og sjálfsmynd þeirra.

Að segja eða þegja?
Ingibjörg stendur keik með rannsókninni sinni en það er þó eitt sem veldur henni áhyggjum. „Ég er hrædd um að rannsóknin verði nýtt af hatursfullum hópum,“ játar hún. „Ég er hrædd um að þetta verði nýtt til að segja: „Sko, þau geta ekki einu sinni verið góð hvert við annað!“ En mér finnst mikilvægt að skapa þekkingu um þetta. Að fólk læri að þekkja einkennin – sama hvort þau eru svipuð og ofbeldi í nánum gagnkynja samböndum; eða akkúrat ekki. Ég vil sjá forvarnir fyrir ungt hinsegin fólk og að sjálfsögðu hinsegin fólk almennt. En á sama tíma hræðist ég rosalega að þetta verði notað gegn hinsegin samfélaginu.“

Þegar ég spyr hvers vegna efnið hafi ekki verið rannsakað fyrr en nú kemur hik á Ingibjörgu. „Ég held að það sé enginn betri eða verri tími til að gera þessa rannsókn,“ segir Ingibjörg, djúpt hugsi. „Við myndum þurfa að bíða ansi lengi eftir rétta tímanum til að ræða að hinsegin fólk sé ekki fullkomnar glimmersprengjugleðibombur.“ Ingibjörg færir umræðuna að yfirstandandi bakslagi. „Við sjáum bakslagið bitna mjög harkalega á trans fólki. Á sama tíma finnst mér tækifærið nýtt til að herða reglurnar um hvernig hinsegin hegðun sé ásættanleg meirihlutanum. Þú mátt alveg vera hommi ef þú keyrir um á skóda en guð forði okkur frá því að þú stundir drag. Það er hræðsla meðal hinsegin fólks að sýna að við séum ekki fullkomin. Að Pride sé ekki bara gleði og glimmer,“ segir Ingibjörg, sem aftur verður þungt hugsi. „En á sama tíma er þetta sjálfsbjargarviðleitni. Ef þau samþykkja mig svona þá skal ég vanda mig. Ég finn sjálf hvað ég ritskoða mikið í minni hegðun til að forðast að verða eitthvað skotmark. En það er mikilvægt að hinsegin fólk fái að vera alls konar, rétt eins og annað fólk. Það er ekki alltaf Pride með gleði og glimmeri.“

Ingibjörg hefur sjálf reynslu af því að hafa verið í ofbeldissambandi og viðfangsefni rannsóknarinnar er þungt. Hvaðan kemur drifkrafturinn og styrkurinn?

„Vonin um að þetta skili einhverju drífur mig áfram, að rannsóknin geri eitthvað gagn. Að fólk átti sig á því að það stendur ekki eitt í þessu. Að það sé tryggt að hinsegin þolendur fái sömu meðferð og önnur. Að þolendur valdeflist og læri að bera kennsl á einkennin. Að við getum byggt upp forvarnir og lært hvernig við getum gert betur. Það heldur mér gangandi.“

Í þessari grein er fjallað um ofbeldi í nánum samböndum. Umfjöllunarefnið er þungt og mun koma illa við suma lesendur. Eftirfarandi er upptalning á úrræðum fyrir þolendur: Kvennaathvarfið veitir fólki af mörgum kynjum aðstoð og Bjarkarhlíð og Stígamót styðja þolendur óháð kyni. Þá reka Samtökin ‘78 ráðgjafaþjónustu þar sem fyrstu viðtöl eru gjaldfrjáls auk þess sem 1717 og Neyðarlínan bjóða upp á netspjall. Einnig er hægt að leita sér aðstoðar á næstu heilsugæslu eða hjá félagsþjónustu þíns sveitarfélags. Listinn er ekki tæmandi.

Það er ekki til neitt sem heitir lítið ofbeldi. Ofbeldi er ofbeldi.

Ef öryggi þínu er ógnað hafðu samband við síma 112.