Hvað er butch — og hvar?
.
TEXTI: VERA ILLUAGDÓTTIR
Þegar ég var líklega fjórtán ára fór ég á skólaball í Austurbæjarskóla. Það var í sjálfu sér í frásögur færandi, ég var ekki mikið félagsljón á þessum tíma. Annað sem var talsvert óvenjulegra var að ég keypti mér flík sérstaklega fyrir skólaballið — stutt, rauðköflótt pils. Ég þóttist vera pönkari þarna og taldi þetta pönklegan klæðnað. En ég sá eftir fatavalinu um leið og ég gekk inn á ballið — þótti óbærilegt að vera meðal fólks í pilsi og endaði á því að fela mig allt kvöldið, tók sannarlega engan þátt í ballinu.
Ég skil ekki alveg hvað mér gekk til, því fram að þessu hafði ég ekki farið í pils eða kjól síðan ég var eitthvað um átta ára gömul og tók æðiskast þegar ég komst að því að það að fara með hlutverk Soffíu frænku í Kardimommubænum í skólaleikriti fylgdi að ég yrði að vera í kjól. (Mig langaði líka meira að vera Kasper, Jesper eða Jónatan.)
Allavega, frá þessu kvöldi í Austurbæjarskóla hef ég aldrei farið í hvorki pils né kjól, geng alltaf í buxum og kaupi eiginlega eingöngu karlmannsföt. Að klæða mig þannig hefur, persónulega, veitt mér mikla ánægju. Ég upplifi mig bæði sátta í eigin skinni og fötum og svo eru auðvitað miklu betri vasar á karlmannsbuxum.
Þrátt fyrir að hafa gengið í karlmannsfötum í fjölda ára rak mig þó í rogastans einhvern tímann fyrir nokkrum árum þegar önnur manneskju talaði um mig sem „butch“. Nei, varla er ég þannig? Fyrir það fyrsta átti ég, þá, ekki eina einustu flannelskyrtu (hef ráðið bót á því síðan), ég er með hár niður fyrir eyru og þó ég sé stolt af borvélinni minni er ég í raun og veru ekkert sérstaklega handlagin. En því meira sem ég hugsaði út í þetta orð og sögu þess hefur það orðið mér hugleiknara.
Slátrarar og harðjaxlar
Lesbíufræðingar hafa sett fram ýmsar kenningar um uppruna enska orðsins „butch“ en líklegast þykir að þetta sé stytting á enska orðinu „butcher“ — slátrari, bókstaflega, en sem slangur notað í merkingunni „harðjaxl“ eða „vandræðagemsi“, eitthvað slíkt, í byrjun síðustu aldar.
Upphaflega hefur það verið notað í niðrandi tilgangi um karlmannlegar konur, en þær sem áttu að móðgast — karlmannlegar hinsegin konur, voru fljótar að grípa orðið á lofti og tileinka sér það — á sjötta áratug síðustu aldar var það orðið nokkuð algengt í máli kvenna sem stunduðu lesbíusenurnar og -bari í New York, San Francisco og víðar.
Konurnar sem tóku orðið upp á arma sína voru að sjálfsögðu ekki að finna upp karlmannlega kyntjáningu kvenna heldur bjuggu að áratugalangri sögu karlmannlegra lesbía, klæðskiptinga, dragkónga, og kynusla og hverskyns hinseginleika í leik og starfi.
Til eru eldri hugtök sem notuð hafa verið um karlmannlegar hinsegin konur, eins og hið enska „bull dyke“. En það var eitthvað við „butch“ sem féll í kramið og það varð fljótt ekki bara orð, heldur að menningu og samfélagi, fagurfræði og pólitískri yfirlýsingu.
Butch í verksmiðjunni
Höfuðrit butch-menningarinnar er án efa Stone Butch Blues, sjálfsævisöguleg skáldsaga Leslie Feinberg frá 1993. Í bókinni segir frá uppvexti ungrar samkynhneigðrar konu af verkamannastétt í New York-ríki og ferðalagi hennar í samfélagi hinsegin fólks.
Ekki er farið leynt með að bókin er að stórum hluta byggð á lífshlaupi Feinberg. Og lífsbaráttan er hörð: Söguhetjan, Jess, er ung send á geðveikrahæli af foreldrum sínum vegna óhefðbundinnar, karlmannlegrar kyntjáningar, og ofsótt og niðurlægð af flestum í nærumhverfi sínu. Hún kynnist svo samfélagi hinsegin kvenna sem verður hennar lífsbjörg. Harðgerar verkamannalesbíur sem kenna henni að ganga í jakkafötum og hnýta bindishnút, heilla femme-konurnar, þær „kvenlegu“, á börunum og berjast og lifa af þegar lögreglan ræðst inn á barina, aftur og aftur, með ofstopa og ofbeldi.
Eins og þegar Jess er send í fyrsta sinn að reyna við konu eina á barnum:
„Á föstudagskvöldið kýldu butch-konurnar mig í axlirnar, klöppuðu mér á bakið, löguðu hjá mér bindið og sendu mig á borðið [til Monique].“
Samfélagið í bókinni er mjög tvískipt. Konur eru annaðhvort butch eða femme, karlmannlegar eða kvenlegar, og samböndin öll eftir þeim línum, ein er butch og hin er femme. Butch-konurnar vinna karlmannsstörf í verksmiðjunum og femme-kærustur þeirra hlúa að þeim þegar þær koma þreyttar heim í lok vinnudags.
Karlmannsbuxur bannaðar!
Meðfram sigrum í réttindabaráttu hinsegin kvenna og uppgangi lesbísks femínisma á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar varð butch að umdeildu fyrirbæri. Einhverjum þótti butch/femme-sambönd bara vera að „apa eftir“ hefðbundnum samböndum gagnkynhneigðra karla og kvenna og butch-menning vegsama toxíska karlmennsku.
Öðru baráttufólki fannst ennfremur tilvist butch-kvenna og annarra slíkra „vandræðagemsa“ í samfélaginu óheppileg staðreynd. Butch-konur stuðluðu, var þankagangurinn, að ofsóknum og jaðarsetningu hinsegin fólks með sinni óhefðbundnu kyntjáningu, að vera svona augljóslega öðruvísi. Svipuð rök voru notuð meðal homma til að draga úr kvenlegum karlmönnum á sama tíma.
Ein fyrstu samtök lesbía, Daughters of Bilitis, stofnuð í San Francisco 1955, litu butch-konur sannarlega hornauga. Dæturnar bönnuðu konum lengi að mæta á fundi væru þær í karlmannsbuxum — máttu bara mæta í buxum væru þeir augljóslega með kvensniði. Konur sem tóku þátt í starfi samtakanna á fyrstu árum þess hafa svo síðar meir minnst þess að pressa hafi verið á „karlmannlegar lesbíur“ að taka upp kvenlegri klæðaburð og siði. Barbara Gittings, formaður Daughters of Bilitis í New York 1958-1963, minntist eins lýsandi atviks í viðtali við Jonathan Katz 1974:
„Það var á einni af fyrstu ráðstefnum Daughters of Bilitis þar sem að kona, sem hafði lifað svo gott sem klæðskiptingur mestan part lífs síns, var sannfærð um, til að komast á ráðstefnuna, að fara í kvenmannsföt, að gera sig eins „kvenlega“’- og hún gæti, miðað við að kvenmannsföt voru henni algjörlega framandi,“ sagði Gittings. „Allar fögnuðu þessu eins og miklum sigri hefði verið náð við að „endurkvengera“ þessa konu. Í dag myndi okkur hrylla við hverjum þeim sem þætti svona evangelismi hafa einhvern réttmætan tilgang. En ég man að ég tók þátt í fögnuðinum.“
„Butch-hvarfið“ mikla
Eftir nokkra eyðimerkurgöngu fór orðið butch og butch-týpur að verða fyrirferðarmeiri á ný í lesbískri umræðu upp úr 1990. Útkoma Stone Butch Blues árið 1993 kveikti áhuga margra á þessu fyrirbæri og sögu þess. Í ágúst sama ár var kanadíska tónlistarkonan k.d. lang á forsíðu Vanity Fair í jakkafötum með léttklæddri Cindy Crawford í ágúst 1993 og hefur vafalaust kveikt í nokkrum hjörtum. Nýjar undirtegundir eins og „soft butch“ litu dagsins ljós — og butch-staðalímynd dagsins í dag varð niðurnelgd;flannelskyrtan, verkfærin og töffarastælarnir.
Þótt aldrei hafi verið meira af allskonar hinsegin fólki allstaðar af litrófinu á sjónvarpsskjánum en um þessar mundir eru butch-konur þar enn ekki sérlega áberandi. Það þótti altjént fréttaefni þegar Rosie O’Donnell fékk hlutverk í annarri seríu The L Word: Generation Q — eftir sjö seríur af ævintýrum hinsegin kvenna í Los Angeles birtist á skjánum loksins eitthvað sem líktist butch-lesbíu. Því miður var persóna Rosie einkar ólánleg, þunglynd og drykkfelld, og skilaboðin því enn að það borgar sig að vera vel femme í heimi glamúrlesbíanna í LA.
Breska ljóðskáldið Joelle Taylor talaði um butch út frá eigin reynslu sem slík í samnefndum útvarpsþætti á BBC vorið 2020. Hún fór með hlustendur í fataskápinn sinn, uppfullan af jakkafötum og bindum — föt sem hún kallaði „vopnin sín“. „Hluti af því að vera butch er að vilja komast hjá athygli karlmanna, að fela varnarleysi. „Þegar ég geng í jakkafötum líður mér eins og ég sé með handlegg annars butch á öxlinni,“ sagði Taylor. Tilefni þáttarins var einmitt það sem hún kallar „butch-hvarfið“, að butch-konur og butch-menning sé aftur að hverfa úr samfélagi hinsegin fólks. Allavega séu þær ekki sérlega sýnilegar.
Hluti af ástæðunni er auðvitað að ungt hinsegin fólk í dag hefur fleiri möguleika og fleiri orð til að skilgreina sig og sína. Einn ungur viðmælandi Taylor í þættinum sagðist vera kynsegin (e. non-binary) en sagðist líklega hafa skilgreint sig sem butch fyrir tuttugu árum. Orðið butch hafi þannig mögulega yfir sér gamaldags blæ í augum yngri kynslóða.
Butch er ekki blótsyrði
Það er sömuleiðis sorglega algeng fullyrðing fordómafullra andstæðinga trans fólks að butch-lesbíur og „karlmannlegar konur“ séu að hverfa af sjónarsviði hinsegin samfélagsins þar sem allar konur með óhefðbundna kyntjáningu sé ýtt út í kynleiðréttingu og að skilgreina sig sem karlmenn.
Þetta er að sjálfsögðu ekkert annað en þvættingur. Ekki er hægt annað en að fagna því að fólk hafi nú til dags fleiri tækifæri til að lifa í sínu sanna sjálfi. Saga butch og trans fólks hefur svo ætíð verið nátengd og mörkin þar á milli oft fljótandi. Alltaf hafa verið til þær butch-týpur sem hafa notað fornöfn í karlkyni, og svo framvegis. Þetta er einnig leiðarstef í Stone Butch Blues — söguhetjan Jess fer í kynleiðréttingu og lifir um hríð sem karlmaður en finnur sig að lokum sem kynsegin.
En er butch gamaldags og butch-konur að hverfa? Það er ekki upplifun mín að minnsta kosti. Þótt vissulega séu til ótal aðrar leiðir fyrir hinsegin fólk að tala um sjálft sig í dag lifir þetta hugtak og þessi menning. Úti í heimi eru haldin butch-kvöld á klúbbum og börum sem sjaldan fyrr og heilu tímaritin um butch-fólk og butch-menningu gefin út.
Esther Godoy ritstýrir tímaritinu Butch Is Not A Dirty Word sem kemur út reglulega. Ritið er gefið út í Melbourne í Ástralíu en á sér lesendur um heim allan. Hún var einnig til viðtals í þætti Joelle Taylor. „Orðið butch getur passað fyrir allskyns hinsegin fólk. Þegar maður skoðar þá reynslu að vera kynsegin, trans masc, trans kona sem er butch — allt þetta er að einhverju leyti svipuð reynsla,“ sagði Godoy. „Orðið butch gerir okkur þannig kleift að fókusera á þessa sameiginlegu reynslu okkar. Og það mikilvægasta er að það hefur gert karlmennsku kvenna hluta af samtalinu á ný.“
Af efnistökum og lesendahópi Butch Is Not A Dirty Word að dæma er ekkert „butch-hvarf“ í gangi, heldur þvert á móti hafa nýjar kynslóðir tekið orðið, sögu þess og samfélag upp á sína arma af áhuga og ákefð.
Butch er því alls ekki gamaldags — þó er það kannski smá gamaldags og ekkert að því. Persónulega finnst mér eitt það besta við butch vera þessi tenging við söguna og fyrri kynslóðir, leið til þess að viðhalda og fagna sögu hinsegin kvenna sem hefur verið eins gleðileg og hún hefur verið erfið.
Svo ég er stolt af því að nota þetta orð og að það hafi verið notað um mig. Og stolt af því að hafa tækifæri til læra af þeim sem undan fóru, rétt eins og eldri konurnar á barnum kenndu Jess í Stone Butch Blues að hnýta bindishnút og reyna við konur. Vera svo kannski örlítið óþægilega áberandi og til vandræða — eða eins og ljóðskáldið Joelle Taylor sagði í útvarpsþætti sínum: „Butch hefur aldrei verið hljóðlátt orð. Það skapar vandræði.“
***
BUTCH Á ÍSLENSKU
Ein flækjan við að skrifa þessa grein var hvernig fara ætti með orðið butch í íslenskum texta. Ekki er til góð þýðing á orðinu á íslensku. Í Ensk-íslenskri orðabók frá 1985 segir einfaldlega „Óforml. (um kvenmann) líkari karli en konu í útliti og háttum; með kynhneigð til eigin kyns. 2. Óforml. kona sem svipar til karla í útliti og háttum eða kynhneigð.“ Til er orðið trukkalessa sem flestum þykir niðrandi. Líklega er ómögulegt að þýða orðið — enda reynsla greinarhöfunds að butch sé notað talsvert í daglegu tali á íslensku í dag, og ekkert að því.