Velkomin á Hinsegin daga í Reykjavík
Enn á ný fögnum við Hinsegin dögum í Reykjavík. Yfirskrift ársins, fegurð í frelsi, er fengin að láni úr lagi Lay Low, Með hækkandi sól, sem var framlag Íslands í Eurovision í ár. Yfirskriftin vísar ekki bara til frelsisins til að hittast á ný og sameinast eftir einsemd og einangrun síðustu tveggja ára heldur einnig fegurðarinnar sem er fólgin í frjálsu, fjölbreyttu mannlífi. Frelsið hefur einmitt verið hinsegin samfélaginu hugleikið lengi en fyrir að verða þremur áratugum gengu kjarkaðir hinsegin einstaklingar einmitt frelsisgöngur um götur Reykjavíkur og kröfðust sjálfsagðra mannréttinda „í þjóðfélagi sem hatar þá”, eins og skáldið sagði.
Þó að margt hafi áunnist á síðustu árum þá vitum við samt að enn í dag fær fegurðin ekki að njóta sín til fulls. Fullu frelsi hefur ekki verið náð og á hverjum degi er vegið að fegurð og frelsi hinsegin fólks, bæði hér heima og erlendis. Okkur setti hljóð í júnímánuði þegar hinsegin fólk var myrt fyrir utan skemmtistaðinn London Pub í Osló, enda er árás á eitt okkar árás á okkur öll. Á sama tíma berast ógnvænleg tíðindi af auknu áreiti og ofbeldi í garð hinsegin fólks hér á Íslandi. Þessi skýru merki um bakslag í baráttu okkar fyrir sjálfsögðum réttindum og virðingu verður að taka alvarlega og bregðast við án tafar. Áfram þarf að stoppa í göt löggjafar til verndar hinsegin fólki og efla þarf fræðslu í samfélaginu öllu til muna.
Þá skipta sýnileiki, fyrirmyndir og söguskráning sköpum nú sem fyrr en þar leika Hinsegin dagar og tímarit þetta lykilhlutverk. Á Hinsegin dögum fá hinsegin saga, menning og listir, hinsegin fólk og baráttumál þess, loks að njóta sín. Þá hefur tímarit Hinsegin daga um árabil verið eina reglubundna útgáfan um hinsegin sögu og samfélag. Sögulegt gildi hvers tölublaðs er því gríðarlegt. Við tökum hlutverki okkar af ábyrgð en leggjum nú tímarit þetta og dagskrá Hinsegin daga 2022 með stolti í þínar hendur.
Gleðilega Hinsegin daga!