Fegurð í frelsi – Hinsegin dagar 2022

Á Hinsegin dögum 2022 fögnum við frelsinu til að hittast á ný og sameinast eftir einsemd og einangrun síðustu tveggja ára. Frelsinu til að sýna samstöðu, fagna sigrum og um leið halda baráttunni áfram. 

Á undanförnum árum og áratugum hefur frelsi hinsegin fólks aukist hér á landi. Frelsi til sýnileika og þátttöku í samfélaginu. Frelsi til að taka sér pláss. Frelsi til að vera við sjálf. 

Fegurðin sem er fólgin í frjálsu, fjölbreyttu mannlífi hefur fyrir löngu sannað sig. Á sama tíma vitum við samt svo vel að fegurðin fær ekki að njóta sín til fulls því fullu frelsi hefur ekki verið náð. Hópar hinsegin fólks hafa setið eftir og á hverjum degi er vegið að fegurð þeirra og frelsi, bæði hér heima og erlendis.

Yfirskrift ársins, fegurð í frelsi, er fengin að láni frá okkar einu sönnu Lay Low en í textanum hennar við lagið Með hækkandi sól, framlagi Íslendinga í Eurovision í ár, segir meðal annars: 

Í ljósaskiptum fær að sjá
fegurð í frelsi, sem þokast nær
þó næturhúmið, skelli á 
og ósögð orð, hugann þjá  

Falleg, áhrifarík og lýsandi orð með margræða merkingu sem eiga vel við um stöðu hinsegin fólks í samfélagi dagsins í dag. Frelsið þokast nær og nær en næturhúm bakslagsins er þó alltaf skammt undan. 

Mikilvægi samstöðunnar hefur sennilega aldrei verið meira. Við erum ekki frjáls fyrr en öll eru frjáls. Þá fyrst upplifum við hina eiginlegu fegurð í frelsinu.